Kærleikshagkerfið

Framkvæmdastjórn Áætlanir

Sósíalistaflokkur Íslands býður kjósendum að greiða atkvæði sitt með kærleikshagkerfinu í þingkosningunum 30. nóvember næstkomandi, leggja atkvæði sitt undir þá kröfu að undirstaða efnahagsstjórnar á Íslandi skuli vera samkennd, mannúð og hlýja. Sósíalistar vita að atvinnulífið og hagkerfið á að þjóna fólkinu og samfélaginu, en ekki öfugt. Atkvæði greitt Sósíalistaflokknum er atkvæði greitt þessum augljósu sannindum.

Þess eru engin dæmi í mannkynssögunni um að samfélög hafi tortímt sér með því að styðja um of við hin veiku, fæða hin fátæku eða reisa við hin föllnu. Kærleikurinn er græðandi afl en ekki eyðandi. Þess eru hins vegar mýmörg dæmi úr sögunni að samfélög hafa fallið vegna græðgi yfirstéttarinnar, yfirgangs þeirra sem komist hafa yfir auðlindir almennings og notað afl sitt og völd til að kúga almenning og brjóta niður aflið sem býr í samvinnu milli fólks.

Öll helstu afrek sín hefur mannskepnan unnið í samvinnu. Það er einkenni okkar sem tegundar. Við erum félagsverur, rísum hæst þegar samfélag okkar er heilbrigðast, réttlátast og jafnast. Besta leiðin til að reisa gott samfélag er að byggja það út frá þörfum þeirra sem þurfa mest á samfélaginu að halda. Vonir og væntingar hinna fátæku, veiku, útilokuðu og kúguðu eru leiðarljós að góðu samfélagi. Kærleikshagkerfið er byggt upp frá þörfum hinna veiku.

Við erum nú að koma út úr skammarlegu tímabili nýfrjálshyggjunnar, sem einmitt hélt hinu gagnstæða fram; að besta leiðin til að byggja upp samfélag væri að gera það út frá kröfum og hagsmunum hinna sterku, þeirra sem síst eru háð samfélagi manna. Þetta hefur reynst afleitt leiðarljós. Með því að elta hagsmuni þeirra sem upplifa samfélagsleg sjónarmið sem ógn við athafnafrelsi sitt höfum við í raun brotið niður samfélagið, veikt þær stofnanir sem byggðar voru upp af sósíalískri verkalýðsbaráttu síðustu aldar og fært völd frá lýðræðislegum vettvangi, þar sem hver maður hefur eitt atkvæði, yfir á hinn svokallaða markað, þar sem hver króna hefur eitt atkvæði. Nýfrjálshyggjan er í grunninn valdaafsal almennings til auðvaldsins.

Niðurstaða hrörnunar samfélagsins á liðnum áratugum er það sem við getum kallað drottnunarhagkerfi, kerfi þar sem hin auðugu og sterku hafa ógnarvöld en hin fátæku og veiku hafa lítil sem engin völd yfir lífi sínu eða samfélagi.

Það er á þessum tímamótum sem við Sósíalistar leggjum til nýjan samfélagssáttmála, sem taka á við af drottnunarhagkerfi nýfrjálshyggjunnar. Þetta er kærleikshagkerfið.

Hvað er kærleikshagkerfið? Það er hagkerfi þar sem auður hinna ríku er ekki aðeins metinn til fjár heldur byrðar hinna fátæku.

Hvað haldið þið að það kosti að halda tugum þúsunda við nagandi afkomuótta, að gera þúsundum ofan á þúsundir ómögulegt að nýta hæfileika sína, vilja, sköpunarkraft og lífsþorsta til að bæta líf sitt og auðga samfélagið?

Hvað haldið þið að það kosti að leggja byrðar fátæktar á láglaunafólk, öryrkja, efnaminna eftirlaunafólk, innflytjendur, leigjendur, námsfólk og aðra hópa sem eiga erfitt með að ná endum saman? Hvað haldið þið að vinnuálagið, kvíðinn og bjargarleysið kosti?

Hvað haldið þið að það kosti að meina börnum af fátækum heimilum fulla þátttöku í æskusamfélaginu? Hvað haldið þið að skömmin sem við leggjum á þessi börn kosti þau og samfélagið allt í ónýttum tækifærum, óhamingju og brostinni sjálfsmynd?

Hvað haldið þið að það kosti að þrengja svo að lífskjörum fólks að það neyðist til að slíta sér út í tveimur, jafnvel þremur störfum? Kann einhver að reikna kostnaðinn við snemmbæra örorku, tapað félags- og fjölskyldulíf eða getuleysi foreldra til að styðja börnin sín?

Hvað haldið þið að það kosti að sumt fólk þurfi að neita sér um læknishjálp og aðrir þurfi að bíða mánuðum og árum saman eftir viðeigandi meðferð? Kann einhver að telja saman kostnaðinn við tapaðar vinnustundir, langvarandi sársauka eða áhrif af efnahagslegu niðurbroti vegna veikinda?

Hvað haldið þið að það kosti að sinna ekki þörfum innflytjenda? Hver er staða barna innflytjenda í skólakerfinu? Hversu greiðan aðgang hafa innflytjendur að heilbrigðiskerfinu, dómskerfinu, húsnæðiskerfinu? Hver er kostnaður samfélagsins af því að halda stórum hluta landsmanna við lakari aðgang að grunnkerfum samfélagsins, kerfum sem ætlað er að styrkja fólk svo það geti orðið fullgildir þátttakendur í samfélaginu og ekki síður svo að samfélagið njóti krafta allra sem búa innan þess?

Hvað haldið þið að það kosti að sinna elsta fólkinu okkar ekki nógu vel? Eða börnunum? Foreldrakynslóðinni, sem glímir við þunga framfærslu á sama tíma og hún stendur veikt bæði á vinnumarkaði og húsnæðismarkaði? Unga fólkinu, sem er klemmt milli lágra tekna og sífellt hækkandi húsnæðiskostnaðar? Hvað haldið þið að það kosti að útiloka fjöldann frá þátttöku á meðan mokað er undir hin fáu?

Hvað haldið þið að það kosti að greiða þeim sem sinna umönnunarstörfum, mikilvægustu störfunum í samfélaginu, svo lág laun að þau eiga vart í sig og á, senda þeim þau skilaboð að þau ættu að finna sér aðra og betri vinnu?

Hvað haldið þið að það kosti samfélagið að virða bankafólk meira í launum en kennara, verðlauna braskara margfalt á við hjúkrunarfólk og hampa þeim sem þjóna auðvaldinu meira en þeim sem sinna börnunum okkar, öldruðum, veikum og sjúkum?

Samfélag okkar verður ekki réttlátt fyrr en allt fólk innan þess fær að njóta sín. Samfélagið verður ekki fagurt fyrr en við losnum öll undan kúgandi afkomukvíða. Samfélagið verður ekki sterkt fyrr en allt fólk upplifir að á sig sé hlustað. Við búum ekki við slíkt samfélag í dag.

Samfélag okkar ber öll merki drottnunarhagkerfis. Það er sjúkt vegna þess að hin auðugu og valdamiklu hafa dregið til sín öll völd. Þetta valdaójafnvægi er rót flestra okkar vandamála. Og það er ómögulegt að leysa þau vandamál án þess að uppræta rótina, sjúklegt ójafnvægi auðs og valda.

Þess vegna bjóða Sósíalistar upp á valkost við næstu þingkosningar. Lagt er til að hafna drottnunarhagkerfi hinna fáu og taka í þess stað upp kærleikshagkerfi fjöldans. Tillagan gengur út á að láta hagsmuni og raddir fjöldans leiða okkur burt frá yfirgangi og frekju hinna fáu. Teygjum okkur eftir gleðinni, fegurðinni og kærleikanum í haust. Veljum lífið í haust, líf okkar allra, líf sem mun aðeins blómstra innan lífvænlegs samfélags sem byggt er á samkennd og virðingu.

Kosningaáætlanir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram