Það geisar stéttastríð og auðvaldið ætlar sér sigur
Frétt
30.04.2021
Auðstéttin á Íslandi hefur notfært sér kórónafaraldurinn til sóknar og ætlar sér enn stærri sigra. Markmið hennar er nýta yfirstandandi efnahagssamdrátt til styrkja stöðu sína í stéttastríðinu; veikja verkalýðshreyfinguna og samtök almennings, draga úr eftirliti og aðhaldi ríkisvaldsins, knýja á um stórfelldar skattalækkanir til hinna allra auðugustu, útvista og einkavæða opinbera þjónustu og grunnkerfi samfélagsins og halda áfram fjáraustri úr almannasjóðum til fjármagns- og fyrirtækjaeigenda.
Kórónafaraldurinn hefur afhjúpað grimmd stéttaskiptingar á Íslandi, sem annars staðar. Þolendur faraldursins og tilheyrandi efnahagssamdráttar eru fyrst og fremst lágtekjufólk. Efnahagsviðbrögð stjórnvalda hafa síðan enn aukið ójöfnuðinn. Á sama tíma og fjöldi fólks hefur misst atvinnuna stórhækka hlutabréf í verði sem og aðrar eignir. Auður hinna ríkustu hefur því vaxið stórkostlega á sama tíma og efnahagskerfið skreppur saman.
En auðstéttinni finnast þessir sigrar ekki nægir. Hún vill meira. Eins og lesa má af yfirlýsingum hagsmunasamtaka fjármagns- og fyrirtækjaeigenda stefnir auðvaldið á stórsókn í sumar og haust. Markmiðið er að nýta slæmt efnahagsástand til árása.
Auðstéttin og stjórnmálaflokkar á hennar vegum munu leggja fram plön um að hefta launahækkanir til almennings, skera niður opinbera þjónustu, lækka skatta til fjármagns- og fyrirtækjaeigenda, selja eignir og fyrirtæki almennings, einkavæða innviði, útvista rekstri grunnkerfa, veikja eftirlitsstofnanir og flytja með öðrum hætti eignir, auðlindir og völd almennings til auðstéttarinnar.
Ráðagerðir sínar kallar auðvaldið viðspyrnu. Auðstéttin ætlar sér að spyrna sér upp með því að stíga á almenning þar sem hann liggur eftir áföll faraldar og efnahagssamdráttar.
Þessi ósvífni ætti ekki að koma neinum á óvart. Íslensk auðstétt hefur sýnt í hverju málinu á fætur öðru að hún svífst einskis í stríði sínu við fólkið í landinu. Kúgun verkafólks, launaþjófnaður, skattaundanskot, peningaþvætti, mútur, okur, fákeppni og einokun. Samherjamálið er lýsandi, ekki undantekning. Nú metur auðvaldið það svo að möguleiki sé á að auðvaldsflokkarnir nái hreinum meirihluta í þingkosningunum í haust. Markmiðið er að auðvaldið fari sínu fram án afskipta almennings eftir kosningar, að hér ríki alræði auðvaldsins.
Veiking almenningsvaldsins á undanförnum áratugum og stóraukin völd auðvaldsins hefur breytt Íslandi úr veikburða lýðræðisríki í það sem kallast klíkuveldi eða þjófræði. Allra ríkustu fjölskyldurnar, sem auðgast hafa af nýtingu auðlinda landsmanna eða ríkisvarinni fákeppni og einokun, hafa sölsað undir sig eignir almennings, völd og auðlindir, og drottna nú yfir samfélaginu eins og sinni einkaeign.
Þetta er staðan á Íslandi í dag. Við höfum misst svo til öll völd til auðvaldsins. Baráttutæki okkar hafa veikst undanfarna áratugi. Endurreisn verkalýðshreyfingarinnar og uppbygging pólitísks afls alþýðunnar er rétt hafin. En hin alvarlega staða kallar á að almenningur rísi upp, ekki bara sér til varnar heldur svari komandi stórsókn auðvaldsins með gagnsókn; noti vorið og sumarið til að hrinda ráðagerðum auðstéttarinnar og haustið til að hrekja auðvaldið frá völdum.
Komandi kosningar munu snúast um hver eigi að fara með ríkisvaldið á Íslandi, auðvaldið eða almenningur. Og það er mikið undir, því ef áætlun auðstéttarinnar gengur eftir mun auðvaldið leggja landið undir sig.
Á baráttudegi verkalýðsins er tímabært fyrir allt fólk að spyrja sig hvorum megin víglínunnar í stéttastríðinu það skipar sér. Styður fólk harðnandi alræði auðvaldsins eða vill fólk byggja hér upp fagurt samfélag jöfnuðar byggt á samkennd, samhjálp og samvinnu.
Fyrsti maí er vonardagur alþýðunnar. Megir þú finna vonina og viljann til að fylgja henni.
1. maí ákall sósíalista 2021