Stefnuyfirlýsing Meistaradeildar Sósíalista

Meistaradeild sósíalisa Frétt

Meistaradeild Sósíalista (55+): Stefnuyfirlýsing

Meistaradeild Sósíalista hafnar alfarið hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem með kapítalískri stefnu sinni leiðir til arðráns á þeim sem lokið hafa starfsævinni og dæmir um leið eldra fólk til fátæktar með skerðingum á framfærslu. Þetta hefur verið gert samhliða orðaflaumi blekkinga og fyllibyttuloforða íslenskra stjórnmálaflokka um úrbætur, sérstaklega í aðdraganda kosninga.

Almennur eftirlaunaaldur á Íslandi er 67 ár og rannsóknir sýna að stór hópur fólks sem hefur lokið starfsævinni býr við mjög kröpp kjör þegar staðan ætti einmitt að vera á hinn veginn, að eldra fólk byggi við ríflega góð kjör.

Þetta er komið til vegna endurtekinna svika stjórnmálaflokka við aldraða í formi skerðinga, sem hefur leitt til þess að lífeyrissjóðakerfið er ekki að skila sínu eins og til var ætlast vegna skerðinga á móti á ellilífeyri frá Tryggingastofnun.

Upphaflega fól ellilífeyrir frá ríkinu í sér óskoruð réttindi til handa þeim sem náðu eftirlaunaaldri og lífeyrissjóðakerfið með söfnunarsjóðum var upphaflega sett upp sem viðbót við það kerfi til þess að bæta kjör aldraðra og varð til á sínum tíma í kjölfar kjarasamninga á vinnumarkaði.

Þetta hvoru tveggja hefur verið stórlega skert. Annars vegar vegna skerðinga af hálfu ríkisvaldsins á ellilífeyri vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum og annarra tekna, hins vegar vegna brasks spilltra stjórnenda í viðskiptalífinu og stjórnmálamanna með lífeyrissjóði landsmanna, en í Hruninu 2008 töpuðust að minnsta kosti 480 milljarðar af lífeyrissparnaði landsmanna. Nú berast aftur fréttir, nánast í hverri viku, um tap hinna ýmsu lífeyrissjóða á fjárfestingum sem sumar hverjar virðast ekki síður glæfralegar en þær voru fyrir Hrunið.

Það er til skammar hvernig pólitíska og efnahagslega yfirstéttin hér á landi hefur farið með fólk sem hefur lokið sinni starfsævi. Þetta verður að stöðva.

Meistaradeild Sósíalista lýsir því yfir að eftirfarandi eru óskoraðar kröfur Sósíalista, 55 ára og eldri, um nýtt fyrirkomulag á kjörum eldri borgara.

  • Allar skerðingar á ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins, hvort sem er vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum, vegna atvinnutekna, eða annars, verði afnumdar strax, og að allir landsmenn sem náð hafa 67 ára að aldri fái óskertan ellilífeyri. Þau fáu tilfelli auðmanna sem þurfa í raun ekki á ellilífeyri að halda munu endurgreiða hann í gegnum hátekjuskatt.
  • Upphæð ellilífeyris muni ávallt fylgja meðal lágmarkslaunum í landinu í kjarasamningum á almennum og opinberum vinnumarkaði, sem eru í dag um 351.000 á mánuði, og það verði lögfest. Ellilífeyrir verði svo ekki undir opinberu framfærsluviðmiði þegar slíkt viðmið hefur verið lögfest.
  • Greiðslur úr lífeyrissjóðum verði sveigjanlegar, þannig að þeir sem hafa lokið starfsævinni geti tekið út meginþorra, eða jafnvel öll, lífeyrisréttindi sín fyrstu tíu árin, þegar heilsa og þrek til ferðalaga og geta til að sinna áhugamálum, eru með besta móti.
  • Húsnæðismál eldri borgara verði stokkuð upp þannig að það verði tryggt að við starfslok þurfi viðkomandi ekki að hafa af því áhyggjur að hafa ekki viðunandi húsnæði. Þetta verði tryggt með öflugri uppbyggingu félagslegs húsnæðis fyrir eldri borgara í byggðakjörnum sem eru með alhliða þjónustu fyrir alla sem þar búa. Eins verði gert stór átak í byggingu hjúkrunarheimila fyrir þá sem þurfa á slíkri þjónustu að halda.

Sósíalistar 55+ vilja samfélag sem er byggt upp á samvinnu fólks, vinskap og trausti, en ekki á samkeppni og braski þar sem ótti við framtíðina bíður við hvert horn og áhyggjur af ævikvöldinu eru allsráðandi.

Þetta er vel hægt, þetta þarf að gera, og þetta munu Sósíalistar gera. En til þess þurfum við stuðning og samstöðu almennings. Framundan er að stærsti árgangur Íslandssögunnar, fólk fætt árið 1960, fari brátt á eftirlaun. Ef þú ert einn af þeim, þá snertir þetta þig. Ef þú ert afkomandi þessa stóra hóps þá snertir þetta foreldra þína eða afa þinn og ömmu, og á endanum auðvitað þig líka.

Þau okkar sem fá að lifa munu eldast. Það er gott og það er fallegt og það á að vera reisn yfir því. Vertu því með, þetta er nefnilega líka þitt mál, hvort sem þú ert tuttugu og fimm, fimmtíu og fimm, eða eldri. Sjáumst í baráttunni.

Baráttukveðja!
Sósíalistar 55+

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram