Skítugu börnin hennar Evu
Pistill
16.08.2021
Ungmenni í fíknivanda, sem lifa í fátækt og eru illa til fara, illa lyktandi og ósofin mæta afskiptaleysi. Þegar við mætum þeim horfum við annað, þykjumst ekki sjá þau – skítugu börnin hennar Evu. Svona er þetta út um allan heim.
Það þarf kraftaverk til að komast úr hringiðu fíknar og ofbeldis. Oft hafa þessi ungmenni misst traust heima fyrir vegna fíknarinnar og geta því ekki dvalið heima. Þau festast á sófanum hjá oft á tíðum ofbeldisfólki sem einnig er fast í iðjum fíknar. Þaðan er langur vegur í meðferð og aðra hjálp. Það þarf kraftaverk.
Við sem samfélag eigum að hjálpa. Oft þarf ekki mikið til í byrjun, eftirmálinn er svo annað mál. Í raun er einfalt að stofna heimili fyrir ungmenni með fíknivanda þar sem þau geta komið hvenær sem er sólarhringsins þrifið sig, nært og fengið hlustun. Þar sem þau eru séð og heyrð á þeim stað sem þau eru stödd. Heimilið er í raun einfalt módel; tvær góðar manneskjur með reynslu og stóran faðm á vaktina, eitthvað matarkyns, rúm og baðkar. Heimilið þarf alltaf að vera opið og þar þarf að mæta ungmennunum með þolinmæði og auðmýkt. Þegar þau upplifa traust, sem auðvitað getur tekið tíma, þarf beina línu inn á sjúkrahúsið Vog.
Síðustu árin hef ég unnið með ungmennum á Akureyri; allskonar dásamlegum verum. Potturinn er gjörsamlega ónýtur þegar kemur að ungmennum með fíknivanda. Oft er engin sjáanleg leið út fyrir þau, vegurinn af götunni inn í meðferð er of langur. Fólk með fíknivanda á það sameiginlegt að sjá ekki lífið án efnanna, hvort sem um ræðir áfengi, læknadóp eða fíkniefni. Dópið er það eina sem heldur þeim gangandi. Að kveðja sinn besta vin er erfitt, vininn sem er alltaf til staðar, sem deyfir flóknar tilfinningar og áföll, sem bregst manni ekki. En svo kemur að því að dópið bregst, það hættir að virka og þá þurfum við sem samfélag að stíga inn og vera til staðar. Það er ekki einfalt að aðstoða en það er mögulegt og allir, allir eiga von. En til þess þarf millistykki milli götunnar og meðferðar.
Það er löngu komin tími til að við sem samfélag gerum betur er varðar fíknir, hvað þá fyrir ungmennin okkar. Við í Sósíalistaflokknum viljum gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu rekna af skattféi borgaranna og að fíknisjúkdómurinn sé afglæpavæddur og að á honum sé tekið sem heilbrigðisvanda. „Velferðarkerfið á að stuðla að góðri andlegri sem líkamlegri heilsu og styðja þá sem missa færni og framfærslutekjur. Kerfið á að gagnast notendunum vafningalaust. Þá skal tryggja betri samfellu í stefnumótun þess og undirstrika mannhelgi og velferð í íslensku samfélagi,“ segir í stefnu flokksins. Það er nefnilega ódýrara að hjálpa fólki af götunni en ef einstaklingur festist í veikindum, og allir í kringum hann ef um ræðir fíkn, því þá veikist einnig öll fjölskyldan.
Við viljum að skýrsla Sameinuðu þjóðanna um geðheilbrigðismál (júní 2017) verði virt. En þar segir: „Geðheilbrigðisþjónustu þarf að efla innan spítala og á heilsugæslu sem og neyðarúrræði fyrir börn og unglinga með geðrænan vanda. Rannsóknir sýna að því fyrr sem brugðist er við þroskaröskunum og geðröskunum því meiri líkur er á að koma megi í veg fyrir alvarlegri afleiðingar síðar. Skólar á öllum menntastigum skulu hafa aðgang að geðheilbrigðisstarfsfólki í gegnum heilsugæsluna.“
Á Akureyri er mikill vilji til að gera betur og það fólk sem ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að starfa með er fullt af hug, þor og vilja til samstarfs. Við í Sósíalistaflokknum viljum gera enn betur og biðlum til ykkar að koma með okkur á vagn dugnaðar, auðmýktar og hugrekkis. Sameinumst ríki, sveitarfélag og eldhugar og rekum þetta heimili.