Hér er allt fólkið
Pistill
31.08.2021
Nýlega ritaði Björgvin Jóhannesson, sem skipar 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, grein sem bar fyrirsögnina: „Hvar er allt fólkið?“
Þar ritar Björgvin líkt og hann stari niður á almúgann úr fílabeinsturni sínum og sparkar í almúga Íslands af fullu skilningsleysi. Talar um að fólk neiti þeirri vinnu sem því býðst, hafi ekki áhuga á vinnu og þá hættulegu þróun sem það hefur í för með sér.
Ég efast ekki um það að í hugarheimi Björgvins eru hlutirnir svona, en hugarheimur Björgvins og raunveruleikinn eru tveir ólíkir hlutir. Það er nauðsynlegt að aðskilja skoðanir og staðreyndir í pólitískum málflutningi. Þegar skoðunum er skellt fram sem staðreyndum þá er voðinn vís. Hér verður því leitast við að greina ástandið með staðreyndum.
Miðstjórn ASÍ tjáði sig fyrr í sumar um þessi mál og vísaði þar í gögn, nokkuð sem Björgvini láðist að gera.
Staðreyndirnar eru þær að grunnbætur nema 88% af lágmarkstekjutryggingu, en var á árum áður á bilinu 90-100%. Tekjufall þeirra sem urðu atvinnulausir vegna Covid-19 er að jafnaði 37%. Björgvin einblínir í þessari grein sinni á undantekningar. Það er enginn sem leikur sér að því að vera án atvinnu og svindlar á kerfum ríkisins, því þú lifir ekki á kerfum ríkisins. Það eru færri en 2% atvinnuleitenda sem neita atvinnu án ástæðu og með því að einblína á það er sparkað í hin 98% sem hafa sig alla við í lífsbaráttu sinni.
Ég veit ekki með ykkur, en ég tek efni frá ASÍ, stærstu fjöldahreyfingu vinnandi fólks, fram yfir hugarheim stóratvinnurekanda. Við verðum að horfa á heildarmyndina.
Málflutningur eins og sá sem Björgvin býður upp á er rangur og beinlínis skaðlegur. Fólk er að reyna sitt besta og þó svo vinnuaflið fljóti ekki eins og veigar á hlaðborði til stóratvinnurekenda, sem eru truflaðir af óþolinmæði sinni fyrir hámarksgróða, þýðir það ekki að hugarheimur fólksins í fílabeinsturninum sé raunveruleikinn.
Ég stend með fólki í atvinnuleit og sýni vandamálum og raunveruleika þeirra skilning, í stað þess að sparka í það, draga upp falska mynd og gera það tortryggilegt. Það er ekki til of mikils mælst að þeir sem sækjast eftir því að vera þjónar okkar á Alþingi fari með rétt mál í stað skáldskapar.