Gjaldfrjáls grunnþjónusta
Áætlanir
19.09.2021
Erindi Sósíalistaflokksins í kosningum til alþingis 25. september 2021: Fjórtánda tilboð til kjósenda lagt fram 18. september:
GJALDFRJÁLS GRUNNÞJÓNUSTA
Fyrir utan bætt launakjör var uppbygging velferðarkerfis sem fjármagnað var með réttlátri skattheimtu höfuðkrafa sósíalískrar verkalýðshreyfingar á síðustu öld. Gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta, menntun fyrir alla, félagslegt húsnæðiskerfi og jafn aðgengi að opinberri þjónustu er forsenda jöfnuðar. Ef aðeins launin hefðu verið bætt hefðu þau sem vilja græða á neyð fólks, veikindum og grunnþörfum náð að soga til sín allan ávinning launafólks af hækkun launa.
Þessi hefur orðið raunin á síðustu áratugum undir nýfrjálshyggjunni. Afraksturinn af hækkun launa hefur runnið í auknar skattbyrðar á almenning, hækkun húsnæðiskostnaðar og aukinnar gjaldtöku fyrir opinbera þjónustu sem áður var gjaldfrjáls.
Þessu vill Sósíalistaflokkurinn breyta, færa til fyrra horfs og þróa enn frekar í átt að gjaldfrjálsri grunnþjónustu.
Krafa sósíalískrar verkalýðsbaráttu var að ríkisvaldinu yrði beitt til að byggja upp traust og réttlátt samfélag með jöfnuð og samkennd að leiðarljósi. Tækin eru réttlát skattheimta þar sem fólk borgar inn í kerfið eftir getu og burðum og almennt velferðarkerfi þar sem allir fá greitt út eftir þörfum.
Leggja ber af tekjutengingar, skerðingar og gjaldtöku þjónustumegin. Þar eru allir jafnir. Aðgerðir til jöfnunar á að beita tekjumegin, þannig að þau sem eiga mest og eru helst aflögufær borgi meiri skatta en þau sem ekki eru aflögufær borgi enga skatta.
Tilboð Sósíalistaflokksins til kjósenda er að eftirfarandi þjónusta verði gjaldfrjáls og skilyrðislaus.
1. Heilbrigðisþjónusta
Komugjöld og önnur gjöld verði feld niður og lyf niðurgreidd að fullu. Til heilbrigðisþjónustu teljast bæði líkamleg og geðræn heilsa. Tannlækningar og tannréttingar, augnlækningar, sálfræðiþjónusta, sjúkra-og iðjuþjálfun sem og þjónusta talmeinafræðinga, áfengis- og fíkniefnameðferðir auk ráðgjafar og stuðnings fyrir fólk sem orðið hefur fyrir ofbeldi og öðrum áföllum verði allt gjaldfrjálst.
2. Menntun
Menntun á öllum skólastigum verði gjaldfrjáls. Grunn- og framhaldsskólar bjóði upp á ókeypis máltíðir fyrir nemendur og tómstundir barna og ungmenna verði gjaldfrjálsar og aðgengilegar í eða nálægt skólum. Í stað námslána í framhaldsnámi komi styrkjakerfi svo að námsmönnum verði gert kleift að stunda námið án þess að skuldsetja sig um aldur og ævi.
3. Samgöngur
Almenningssamgöngur eins og strætisvagnar, borgarlína og akstursþjónusta fatlaðs fólks verði gjaldfrjáls. Vegatollar verði ekki innheimtir á þjóðvegum.
4. Menning
Aðgangur að opinberum söfnum verði gjaldfrjáls. Bókasöfn, menningarstofnanir og almenningsgarðar verði efld sem opin rými þar sem allir mega koma saman óháð efnahagslegri stöðu.
5. Stjórnsýsla
Opinberar stofnanir eins og sýslumenn innheimti ekki gjöld fyrir þjónustu sína og rétturinn til gjafsóknar verði aukinn, auk þess að efla aðgengi að gjaldfrjálsri lögfræðiaðstoð fyrir þau sem þurfa að leita réttar síns gagnvart hinu opinbera og öðrum stofnunum og fyrirtækjum.