Sósíalíska menntakommúnan

Ritstjórn Frétt

Sósíalíska menntakommúnan, SMK, alþýðuskóli um samfélag og sögu hefur hafið starfsemi sína í Bolholti 6, félagsmiðstöð Vorstjörnunnar og Sósíalistaflokksins. Menntakommúnan mun standa fyrir námskeiðum, fyrirlestrum og fræðslukvöldum um margbreytileg efni, ekki síst um stéttabaráttu, sósíalisma og réttlætisbaráttu.

Í fyrstu verða þessi námskeið í boði:

Saga verkaýðsbaráttunnar
Sex daga námskeið á laugardögum með bíósýningu

Námskeið um sögu verkalýðsbaráttunnar hér heima og erlendis. Þorleifur Friðriksson sagnfræðingur fer yfir upphaf verkalýðshreyfingarinnar og sögu hennar víða um heim í fjórum fyrirlestrum og samræðutímum á laugardagsmorgnum kl. 11-13 í Bolholti 6. Fyrst verður þó haldinn kynningarfundur kl. 11 að morgni laugardagsins 16. október þar sem Þorleifur fer yfir sviðið og dregur fram einkenni íslenskrar verkalýðshreyfingar. Vikuna á eftir, laugardaginn 23. október kl. 14, verður sýning á myndinni Korter yfir sjö, sögu verkfallsins mikla 1955 í Bíó Paradís með kynningu og umræðum á eftir. Laugardagsmorguninn 30. október hefst svo námskeiðið kl. 11 og verður næstu þrjá laugardagsmorgna, 6. 13. og 20. nóvember. Námskeiðið er haldið í samvinnu við Verkalýðsráð Sósíalista. Þátttakendur fá viðurkenningu að loknu námskeiði.

Hér má merkja við þátttöku: Saga verkalýðshreyfingarinnar

 

Hvaða gagn gerðu vinstri stjórnir?
Fjögurra kvölda námskeið á þriðjudögum

Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingur rekur í fjórum fyrirlestrum með tilheyrandi umræðum árangur vinstri stjórna í Íslandssögunni, frá 1927-83. Rauður þráður í í þessari sögu eru samskipti verkalýðshreyfingar og ríkisvalds. Í fyrsta fyrirlestrinum fjallar Árni Daníel um rauðgrænar ríkisstjórnir 1927-1938, næst um nýsköpunarstjórnina í stríðslok og vinstri stjórnina 1956, þá um lengra ´68 tímabilið, frá kjöri Kristján Eldjárns fram að kjöri Vigdísar og í loka lestrinum um vinstri stjórnir 1978 til 1983. Þetta er áhugavert efni og lítið rannsakað, merkilegt hversu mörg framfaramál náðu í gegn í skammlífum ríkisstjórnum vinstri flokka. Fyrsti fyrirlesturinn verður þriðjudagskvöldið 26. október kl. 20 og hinir síðan á sama tíma tíma þriðjudagskvöldin 2., 9. og 16. nóvember.

Hér má merkja við þátttöku: Hvaða gagn gerðu vinstri stjórnir?

 

Eru peningar allt sem skiptir máli? – Stétt í víðu samhengi
Fyrirlestur og umræður laugardaginn 13. nóvember

Auður Magndís Auðardóttir, nýdoktor við menntavísindasvið HÍ, heldur fyrirlestur laugardaginn 13. nóvember kl. 14 í Bolholti 6. Hvað ákvarðar af hvaða stétt við erum? Atvinnustaða, tekjur og eignir eru þeir mælikvarðar sem við erum vön að nota en hvað ef við tökum líka menntun, óformlega þekkingu og tengslanet með í reikninginn? Á þessari málstofu verður í fyrirlestri og umræðum farið yfir kenningar franska félagsfræðingsins Pierre Bourdieu um stétt, stéttaátök og táknbundið ofbeldi sem fólk af verkalýðsstétt verður fyrir.

Hér má merkja við þátttöku: Eru peningar allt sem skiptir máli?

 

Heil helgi um nýfrjálshyggjuna
Fjögurra fyrirlestra námskeið á einni helgi

Jóhann Helgi Heiðdal, doktorsnemi í heimspeki, heldur námskeið á vegum Sósíalísku menntakommúnunar um Nýfrjálshyggjuna í fjórum fyrirlestrum helgina 11. og 12. desember næstkomandi. Fyrirlestrarnir verða kl. 11 og 14 báða dagana. Síðustu áratugi hefur nýfrjálshyggja verið eitthvað mest áberandi, en jafnframt loðnasta hugtak sem fyrirfinnst í stjórnmálaumræðu Vesturlanda. Hefur notkun þess sveiflast töluvert – t.d. var það mjög áberandi eftir fjármálakrísuna 2008 og íslenska efnahagshrunið. En á síðari árum hefur notkun þess dalað á áberandi hátt, og er það í dag einkum notað sem eins konar skammaryrði á ysta vinstri væng stjórnmálanna. En hvað er nýfrjálshyggja? Er það einungis skammaryrði vinstrisins, og í raun ekkert sem er eða var nokkurn tímann til – eins og margir hægri stjórnmálaskýrendur vilja meina? Er nýfrjálshyggja á einhvern hátt frábrugðin öðrum stefnum í hugmyndasögunni, og ef svo er hvernig þá? Hvers vegna er þetta ennþá mikilvægt hugtak í stjórnmálaskýringum í dag?

Hér má merkja við þátttöku: Heil helgi um nýfrjálshyggjuna

Markaðsvæðing menntunar
Fyrirlestur og umræður 18. desember

Auður Magndís Auðardóttir heldur fyrirlestur laugardaginn 18. desember kl. 14 í Bolholti 6. Á þessari málstofu verður farið yfir áhrif markaðshugsunar og nýfrjálshyggju á menntakerfi. Meðal annars skoðum við: Af hverju er samkeppni grunn- og framhaldsskóla um nemendur og kennara ekki endilega af hinu góða? Hvaða merki sjáum við um markaðsvæðingu menntunar hérlendis? Hver er tilgangur menntunar? Hvaða áhrif hefur markaðsvæðing menntunar á kynjajafnrétti?

 

 

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram