Gegn rasisma í skóla- og frístundastarfi
Tilkynning
20.12.2021
Skóla- og frístundasviði er falið að útbúa aðgerðaáætlun gegn rasisma í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar. Hún verði nýtt þegar rasísk atvik eiga sér stað í skólaumhverfinu og verði jafnframt vegvísir fyrir þá fræðslu og símenntun sem þarf að eiga sér stað innan skólasamfélagsins. Markmiðið með aðgerðaáætluninni er að skýrir verkferlar séu til staðar um hvernig skuli bregðast við rasískum atvikum svo það lendi ekki á börnum né foreldrum þeirra að bregðast við kynþáttafordómum og kynþáttahyggju í skólaumhverfinu. Þegar slík atvik eiga sér stað er mikilvægt að skólasamfélagið bregðist skjótt og vel við. Aðgerðaáætlunin þarf einnig að vera sýnileg. Þar sem ekki er hægt að sjá fyrir um öll þau atvik sem geta átt sér stað eða undir hvaða kringumstæðum rasismi getur komið fram, er mikilvægt að samtal og fræðsla fari reglulega fram og að úrbætur verði gerðar á því sem þarf að laga. Aðgerðaáætlunin fari yfir skóla- og frístundastarf og starf í félagsmiðstöðvum og tryggi að ekkert í starfinu sé útilokandi fyrir börn og ungmenni með dökkan húðlit. Aðgerðir tryggi að allt starfsfólk og stjórnendur fái reglulega fræðslu. Lagt er til að skóla- og frístundasvið leiti til aðila með reynslu á þessu sviði, t.a.m. aktívista og þeirra sem hafa séð um fræðslu á þessu sviði, og óski eftir liðsinni þeirra við mótun aðgerðaáætlunarinnar. Þau sem komi að vinnunni fái greidda þóknun fyrir starfsframlag sitt. Kostnaðarauki verði samþykktur með viðauka við fjárhagsáætlun.
Mikilvægt er að hafa sýnilega verkferla um hvernig skuli tekið á rasisma innan skóla- og frístundastarfs. Í svari við fyrirspurn Sósíalistaflokks Íslands varðandi það hvernig tekið er á rasískum atvikum innan skóla- og frístundastarfs Reykjavíkurborgar kemur fram að þegar kynþáttafordómar komi fram innan grunnskóla borgarinnar teljist slík atvik sem brot á skólareglum eða 2. stigs hegðunarfrávik og verklagsreglum er fylgt í samræmi við alvarleika brotsins.
Í svarbréfinu kemur einnig fram að í öllum tilvikum sé rætt við nemandann eða nemendurna sem eiga í hlut. Ef brotið er gróft eða endurtekið þá sé foreldrum/forsjáraðilum tilkynnt um brotið og þeir boðaðir á fund í skólanum. Gripið er til þeirra aðgerða sem þörf er talin á hverju sinni. Stundum nægi að ræða við nemendur, með eða án foreldra/forsjáraðila, en stundum þurfi að bregðast við á annan hátt s.s. með því að fá inn sérstaka fræðslu um fjölbreytileika, mannréttindi og kynþáttafordóma fyrir nemendur.
Yfirlit yfir ýmsa fræðslu og ráðgjöf sem stendur starfsfólki til boða fylgir einnig með í svarbréfinu til að efla og styrkja starfsfólkið til að koma auga á og bregðast við kynþáttafordómum. Fjallað er um fræðsluna út frá mismunandi skólastigum. Hér má lesa svarbréfið í heild sinni.
Aðgerðaáætlun gegn rasisma þarf að vera til staðar, hún þarf að vera sýnileg og fræðslan þarf að vera öflug og regluleg. Sem dæmi um sýnilega verkferla, má nefna að á heimasíðu skóla- og frístundasviðs má sjá öryggisverkferla í starfsemi frístundamiðstöðva. Þar er fjallað um þætti sem þarf að líta til þegar starfsfólk er á ferð með börnin. Í upphafi þarf að undirbúa ferðina og skoða það sem á að vera með í för þegar farið er í ferð með barnahópinn. Svo þarf að undirbúa alla ferðina og tryggja að nægt starfsfólk sé til staðar til að halda utan um barnahópinn, að vel sé fylgst með börnunum og verkferlar eiga svo við um ólík rými. Hér má sjá hvernig öryggisverkferlar eru útskýrðir og dregin er upp skýr mynd af því sem þarf að tryggja.
Að undirbúa sig gagnvart því að takast á við rasimsa er alls ekki það sama og að fara í vettvangsferð út fyrir veggi frístundamiðstöðvarinnar en í því líkt og svo mörgu öðru er undirbúningur mikilvægur. Það þarf að vita hvar eigi að byrja, hvaða þætti þurfi að fara yfir, hvaða þekkingu hópurinn hafi, hvort hann hafi öll tæki og tól til þess að bregðast við atvikum sem kunna að koma upp og þess vegna er mikilvægt að áætlun liggi fyrir.
Ýmislegt er til staðar í skólaumhverfinu, sem dæmi má nefna gátlista sem metur umhverfi leikskólans og var nefnt í ofangreindu svarbréfi frá skóla- og frístundasviði. Þar kemur t.d. fram að tónlist ætti að vera til í leikskólanum sem er fjölbreytt og endurspegli bakgrunn barnanna, fjölskyldna þeirra og starfsmanna. Þrátt fyrir þetta má finna lög á vefsíðum leikskóla borgarinnar þar sem fjallað er um húðliti með miður skemmtilegum hætti. Þó svo að ekki sé verið að styðjast við þessi lög í leikskólunum, er mikilvægt að yfirfæra þessa þætti og fjarlægja það sem er útilokandi.
Markmiðið með þessari tillögu er að aðgerðaáætlun sé sett fram til þess að skýrt verklag sé til staðar um hvernig skuli bregðast við rasisma í skóla- og frístundastarfi, svo að börn og aðstandendur þeirra upplifi ekki að það sé á þeirra ábyrgð að brugðist sé við vandanum. Markmiðið er einnig að með aðgerðaáætluninni sé ekki einungis brugðist við atvikum þegar þau komi upp, heldur að skólasamfélagið sé í sífellu vakandi gagnvart því sem þurfi að yfirfara, bæta og laga.
Birtingarmyndir kynþáttahyggju og kynþáttafordóma eru því miður margar og má finna víða í samfélaginu okkar, sem dæmi má nefna öráreitni (e. microaggression) og útilokun vegna húðlits. Dæmi um öráreitni sem beinist gegn fólki og börnum með dökkan húðlit er t.d. þegar gert er ráð fyrir því að viðkomandi sé af erlendum uppruna og tali ekki íslensku, þegar slíkt á alls ekki við. Mikilvægt er að þegar fordómar eiga sér stað vegna húðlits, að tekið sé á því sem slíku. Þess vegna þarf fræðsla að fara fram um rasisma og aðgerðaáætlun með skýrum markmiðum þarf að vera sett fram. Fræðsla um fjölbreytileika samfélagsins er mikilvæg í öllu starfi og hér miðast hún við skólasamfélagið, gegn rasisma.