Vaxtahækkun snýst um að snuða verkafólk
Pistill
10.02.2022
Hægrimenn í dag vonast til að leysa verðbólgukreppuna eins og þeir gerðu á áttunda áratugnum: með því að hækka vexti, lækka laun og hafa sigur á verkafólki sem hefur þegar fengið að finna fyrir því. Þannig heyja hagfræðingar stéttastríð.
Nú þegar verðbólga er komin yfir 5 prósent í fyrsta skipti síðan í fjármálakreppunni, eru stjórnmálamenn ráðalausir. Rétttrúnaðarviðbrögðin við mikilli verðbólgu eru að hækka vexti. Aukinn kostnaður við lántöku á að draga úr útgjöldum og fjárfestingum, draga úr þrýstingi á auðlindir sem geta keyrt upp verð þegar hagkerfið er í örum vexti.
En verðbólga stafar ekki alltaf af samspili mikillar hagvaxtaraukningar og takmarkaðra auðlinda. Hún getur stafað af allskonar hlutum sem valda skyndilegu ójafnvægi milli eftirspurnar og framboðs fyrir tiltekna vöru. Í dag eru þessar vörur jarðefnaeldsneyti (Innskot þýðanda: Á Íslandi er það húsnæði).
Hækkandi verð á olíu og jarðgasi – arfleifð heimsfaraldurs þar sem atvinnustarfsemi, og þar af leiðandi eldsneytisnotkun, fór niður á mjög lágt stig sem leiddi til minnkandi framboðs – hefur áhrif á verð næstum allra annarra hrávara. Þessi dómínóáhrif hafa verið sérstaklega skýr þegar kemur að matvælum vegna stórs vægis áburðar úr jarðgasi.
Niðurstaðan hefur verið mikil aukning verðbólgu á innfluttum matvælum, eldsneyti og öðrum neysluvörum í Bretlandi – mögnuð upp vegna truflana á birgðakeðjum af völdum heimsfaraldursins. Verðbólga af þessu tagi hefur aðallega áhrif á fátæka og næstum 5 milljónir manna eiga nú í erfiðleikum með að brauðfæða sig í Bretlandi vegna hækkandi verðs.
Þessi óvenjulega staða vekur mikilvæga spurningu: Hvað eiga stjórnmálamenn að gera þegar verðbólga er mikil, en vöxtur og fjárfesting eru í lágmarki?
Svipaðar spurningar komu fram á áttunda áratugnum, rétt á barmi nýfrjálshyggjubyltingarinnar. Í Bretlandi var vöxtur og fjárfesting lítil en verðbólga mikil, enn og aftur vegna hækkandi orkuverðs vegna stofnunar Samtaka olíuútflutningsríkja (OPEC).
Nú til dags er litið á aftengingu sambandsins á milli atvinnu og verðbólgu sem átti sér stað á þessu tímabili sem síðasta naglann í kistu Keynsísku-samstöðunnar. Í ljósi þess að verðbólga var ekki drifin áfram af mikilli eftirspurn var ekki hægt að leysa hana einfaldlega með því að skera niður ríkisútgjöld, hækka vexti eða semja um aðhald í launamálum við verkalýðsfélögin. Vandamálið var orkan.
Skiljanlega gaf þessi staðreynd launafólki í orkugeiranum mun meiri völd. Námumenn skipulögðu sig sérstaklega á þessu tímabili til að tryggja launahækkanir og hefta hnignun í atvinnugrein sinni.
Á sama tíma reyndu nýfrjálshyggjuhagfræðingar að nota „kreppuverðbólgu“ sem tækifæri til að eyðileggja síðustu leifar sósíaldemókratíska sáttmálans. Þeir héldu því fram að verðbólga væri knúin áfram af óábyrgum ríkisstjórnum sem dældu of miklu fé inn í hagkerfið og sem hefði ekki tekist að takast á við of herskáa verkalýðsfélaga sem krafðist hærri launa.
Mismunandi túlkun kreppunnar leiddi til epískrar átaka milli fjármagns og vinnuafls sem leiddi til Óánægjuvetrarins mikla, innleiðingu þriggja daga vikunnar og að lokum kjörs Margrétar Thatcher.
Thatcher hóf samstundis að innleiða sýn nýfrjálshyggjunnar á verðbólgu með því að hækka vexti verulega. Nýfrjálshyggjumenn héldu því fram að verðbólga væri „alltaf og alls staðar peningalegt fyrirbæri“: með öðrum orðum, þegar verð hækkaði var það vegna þess að stjórnvöld hefðu misst stjórn á peningamagni. Hækkun vaxta – samhliða niðurskurði ríkisútgjalda – myndi letja lántökur og takmarka því vöxt peningamagns.
Þessi kenning virkaði aldrei í reynd. Þökk sé afregluvæðingu innan fjármálakerfisins jukust lántökur undir stjórn Thatcher hraðar en nokkru sinni í sögunni. Dramatísk hækkun vaxta var aldrei ætluð til að draga úr peningamagni – hún átti að skapa samdrátt sem myndi aga skipulagðar hreyfingar vinnandi fólks.
Peningamagnshyggja féll hljóðlega úr tísku meðal seðlabankamanna á níunda áratugnum þegar ljóst var að engin auðveld leið var til að nota vexti til að stjórna peningamagni. En “vaxta-lost” Thatcher — endurómað af samskonar losti Volcker í Bandaríkjunum — er minnst sem nauðsynlegs og afgerandi skrefs til að stemma stigu við „launa-verðsspíral“ áttunda áratugarins.
Thatcher kann að hafa bundið enda á kreppuna á áttunda áratugnum, en hún gerði það með því að steypa milljónum manna í fátækt og skapa hagkerfi sem virkaði fyrir fámenna elítu á Suður-Englandi. Umtalsverðan hluta þess pólitíska og efnahagslega umróts sem við búum við í dag má rekja til þeirra ákvarðana sem teknar voru undir stjórn hennar.
Það sem meira er, verðbólga lækkaði á endanum til lengri tíma litið vegna stöðugleika olíuverðs — eitthvað sem hefði gerst hvort sem er með normalíseringu á stöðu OPEC á alþjóðlegum orkumörkuðum.
Afrek Thatchers fólst ekki í að finna út hvernig ætti að nota peningastefnuna til að ná niður verðbólgu; það var að finna út hvernig ætti að nota peningastefnuna til að aga verkalýðinn. Í dag eru eftirmenn hennar að reyna að gera nákvæmlega það sama.
Talsmenn vaxtahækkana vita að vandamálið sem við stöndum frammi fyrir er ekki ofþensla hagkerfisins heldur gárurnar sem áfall hækkandi orkuverðs framkallar. Að gera lántökur dýrari mun einfaldlega hefta staðnað hagkerfi enn frekar, hemja neyslu og fjárfestingar — og þar með laun og atvinnusköpun.
En rétt eins og það gerði á níunda áratugnum þarf fjármagnið að aga vinnuafl til að vernda gróðann. Sumt launafólk hefur notið umtalsverðs launaðs leyfis, eða notið í auknu mæli að vinna að heiman og er ekki tilbúið til að snúa aftur til fyrri og slakari vinnuskilyrða árin áður en heimsfaraldurinn skall á.
Aðrir hafa verið síður heppnir og eytt síðustu árum í að vinna fyrir léleg laun og við óöruggar aðstæður. En margt launafólk er að skipuleggja sig og við sjáum uppsveiflu í aðild að verkalýðsfélögum og starfsemi sem gæti byrjað að kollvarpa áratugalöngum samdrætti.
Það er ólíklegt að við eigum eftir að sjá peningalegt “haglost” að hætti Thatcher á næstunni. Burtséð frá öllu öðru er vinnuaflið enn í svo veikri stöðu að mikil vaxtahækkun (öfugt við þá sem nýlega var boðuð) er óþarfa aðferð í ljósi þess glundroða sem hún myndi valda.
En hægrið er nú þegar að dreifa þessari útskýringu sem kennir launafólki um núverandi verðbólguaukningu til að réttlæta agaviðbrögð frá ríkinu. Sjáið bara beiðni seðlabankastjóra Englandsbanka um aðhald í launamálum (sem réttilega hefur verið gert grín að síðan í ljós kom að hann þénar meira en hálfa milljón punda á ári).
Eitt af fáum „vandamálum“ sem breskt hagkerfi stendur ekki frammi fyrir eru of há laun. Verkamenn í Bretlandi hafa upplifað lengstu launastöðnun síðan á 18. öld. Og þó að skortstengdar launahækkanir hafi komið til eftir faraldurinn í einstaka greinum þá hafa þær verið takmarkaðar og eru líklegar tímabundnar þar sem starfsmenn bregðast við með því að stoppa í götin.
Nýjasta greining Trades Union Congress (TUC) sýnir að laun fyrir viku vinnu eru nú 3 pundum lægri en við fjármálahrunið 2008. Almenn þróun launa eftir heimsfaraldur er ekki enn ljós, en fyrstu vísbendingar benda til að launahækkanir — sérstaklega í lægst launuðu geirunum — sé að þróast aftur í það sem tíðkaðist fyrir heimsfaraldur.
Í þessu samhengi mun vaxtahækkun hafa tvenns konar áhrif. Í fyrsta lagi mun hún auka áhrif verðbólgu á fátækari heimili með því að gera lántökur dýrari. Reyndar er líklegt að það sökkvii milljónum fjölskyldna dýpra í skuldir.
Í öðru lagi mun það draga úr fjárfestingum í hagkerfi þar sem fjárfesting í aukinni framleiðslu var þegar hættulega lág áður en heimsfaraldurinn hófst. Þetta mun þýða færri störf, minni framleiðni og minni launavöxt til lengri tíma litið.
Með öðrum orðum, hærri vextir munu skila sér í enn verri lífskjörum fyrir þær milljónir manna sem þegar verða fyrir alvarlegum áhrifum af mikilli verðbólgu. Það sem meira er, þeir munu ekki hafa áhrif á verðbólgu fyrr en orkuverð lækkar, sem mun aðeins gerast með auknu framboði.
Frekar en að hækka vexti ættum við að færa rök fyrir verðlagsstýringu til skamms tíma og til lengri tíma að auka þátttöku og stuðning ríkisins við að útvega nauðsynjavörur — kannski með lausnum eins og matarþjónustu á landsvísu .
Fjárfesting í endurnýjanlegri orku er mikilvæg af svo mörgum ástæðum: til að halda verði lágu, viðhalda orkuöryggi, kolefnislosun, skapa störf og jafna sig eftir heimsfaraldurinn.
Verðbólga er alltaf pólitísk — verðbólgan sjálf, og viðbrögðin við henni, gagnast sumum hópum og skaðar aðra. Við getum ekki leyft hægrimönnum að komast upp með að kenna launafólki um vandamál sem kapítalið ber ábyrgð á.
Á endanum stæðum við ekki frammi fyrir þessum vanda ef fyrri ríkisstjórnir hefðu tekið alvarlega nauðsyn þess að fjárfesta í endurnýjanlegum orkugjöfum. Og orkufyrirtæki eins og Exxon Mobil og BP sjá gríðarlegan hagnað vegna hækkandi olíu- og gasverðs.
Launþegar hafa borið allan kostnað af hverri einustu kreppu síðustu fimmtíu árum — þeir geta ekki og verða ekki neyddir til að bera allan kostnaðinn af þessari.
Greinin birtist upphaflega á vef tímaritsins Jacobin í febrúar 2022 undir fyrirsögninni: Raising Interest Rates Is About Screwing Workers. Þýðing: Andri Sigurðsson