Fólkið á að ráða

Ritstjórn Áætlanir

Stór hluti þjónustu við almenning; börn, fatlað fólk, eldri borgara og viðkvæma hópa, er á verksviði sveitarfélaganna. Ríkisvaldið horfir framhjá mikilvægi sveitarfélaganna í nærþjónustu og hefur með vanfjármögnun komið í veg fyrir að sveitarfélögin geti sinnt skyldum sínum við almenning. Við krefjumst þess að þetta verði leiðrétt í samræmi við raunverulegan kostnað.

Sósíalistar vilja einnig kanna möguleikann á að koma á þriðja stjórnsýslustigi til þess að sameina kosti stærðarinnar og nærsamfélagsins. Slíkt stjórnsýslustig myndi taka yfir verkefni sem nú eru á höndum ríkisins og í sumum tilfellum sveitarfélaganna. Samvinna í gegnum þriðja stjórnsýslustigið myndi einnig gera það að verkum að hægt verði að veita þjónustu sem nú er einungis hægt að sækja til Reykjavíkur, nær íbúunum sem ekki dvelja þar. Sósíalistar vilja með þessu minnka ríkisbáknið og færa valdið og þjónustuna til íbúanna sjálfra.

Lýðræðisvæðing samfélagsins

Sósíalistar vilja auka lýðræði með því að notendur þjónustu sveitarfélaganna og starfsmenn í almannaþjónustu fái meira vald til ákvarðanatöku innan kerfisins. Notendur og veitendur almannaþjónustu eru oft í betri stöðu til ákvarðanatöku en kjörnir fulltrúar sem oft hafa ekki þá sérþekkingu sem nauðsynleg er. Til að auka þessa þátttöku almennings í ákvarðanatöku leggja Sósíalistar áherslu á eftirfarandi:

  • Notendur og veitendur almannaþjónustu komi formlega að ákvarðanatöku ásamt kjörnum fulltrúum. Með þessu fá starfsmenn og íbúar á hjúkrunarheimilum að taka þátt í stefnumótun í þeim málaflokki, notendur almenningssamgangna að þeirra málum, starfsfólk líkt og kennarar og skólaliðar, nemendur og foreldrar koma að ákvarðanatöku í skólamálum o.sv.fr.
  • Fólk með beina reynslu af því sem þarf að bæta í nærsamfélaginu sitji í nefndum og ráðum  sveitarfélaganna.
  • Beint lýðræði með íbúakosningum um málefni sveitarfélaganna. Litið verði til Sviss í þeim efnum þar sem aðkoma íbúa að málum er ríkur þáttur í stjórnkerfinu og er t.a.m. komið að með netkosningum og allsherjaratkvæðagreiðslum. Niðurstöðurnar verði bindandi.
  • Íbúar sveitarfélaganna taki formlegan þátt í veitingu fjármagns til verkefna í gegnum þátttökulýðræðislega fjárlagagerð (e. Participatory budgeting). Slík þátttaka almennings í ákvarðanatöku á rætur sínar að rekja til stjórnar brasilíska verkamannaflokksins  í Porto Alegre sem hefur stundað  þátttökulýðræðislega fjárlagagerð með góðum árangri síðan 1988 og hefur verið tekið upp í öðrum borgum og bæjum út um heimsbyggðina af stjórnum sósíalista og annarra vinstrimanna. Slíka þátttöku má framkvæma í gegnum netið og á almennum fundum þar sem kjörnir fulltrúar og íbúar koma saman að fjárlagagerðinni og setja þann ramma sem íbúarnir vilja.
  • Sérfræðiþekking og reynsla starfsfólks verði nýtt til ákvarðanatöku og stjórnun á almannaþjónustu. Þannig byggjum við á þekkingu frá t.a.m. vagnstjórum og starfsfólki sorphirðu svo að dæmi séu nefnd.
  • Sósíalistar sjá fyrir sér að íbúarnir, notendur þjónustunnar og kjörnir fulltrúar komi sameiginlega að stjórnun og framkvæmd almannaþjónustunnar þannig að sameiginleg þekking nýtist sem best.
  • Almenningssamgöngur verði hannaðar af fólkinu sem reiðir sig á þær, þannig að strætó sé fyrir fólk og stýrt af fólkinu sem notar strætó. Framtíð almenningssamgangna verði mótuð út frá kröfum þeirra sem treysta á almenningssamgöngur. Fulltrúar farþega sitji í stjórn Strætó.

Kosningaáætlanir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram