3,1 m.kr. halli á kosningaári hjá Sósíalistum
Frétt
12.11.2022
Í fyrra voru útgjöld Sósíalistaflokksins 3,1 m.kr. hærri en tekjurnar. Ástæðan er fyrst og fremst kostnaður vegna þingkosninganna en einnig styrkur til Alþýðufélagsins svo hefja mætti útsendingar á vegum Samstöðvarinnar strax að kosningum loknum. Þessar rúmu 3 milljónir króna voru sóttar í sjóð flokksins. Í upphafi árs átti flokkurinn tæplega 6,8 m.kr. í sjóði en 4,4 m.kr. í lok þess.
Tekjur Sósíalistaflokksins eru fyrst og fremst framlög frá flokksfélögum og styrkir almennings, rúmlega 12,1 m.kr. á árinu. 4,5 m.kr. komu frá ríkissjóði í formi kosningastyrks upp á 750 þús. kr. á hvert kjördæmi. Rúmlega 1,6 m.kr. styrkur frá Reykjavíkurborg var sem fyrr færður yfir í Vorstjörnuna, styrktarsjóð sem styrkir hagsmunabaráttu hópa sem ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til baráttu. Vorstjarnan styrkir þessa hópa með fjárveitingum, greiðslu útgjalda, láni á húsnæði fyrir fundi og tækjum til mótmæla og fundahalda.
Útgjöld flokksins voru að mestu annars vegar húsaleigu fyrir vanabundið starf flokksins og fundi út í bæ og um landið, birtingarkostnaður vegna auglýsinga í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, ferðakostnaður vegna ferða um kjördæmin og annar útlagður kostnaður vegna kosninga, auk funda um önnur mál og kostnað vegna reglulegrar starfsemi flokksins, svo sem bókhald og endurskoðun. Sem fyrr er enginn starfsmaður á launum hjá flokknum og allt starf í tengslum við kosningar var unnið í sjálfboðavinnu.
Á árinu 2022 fékk Vorstjarnan sína kennitölu, en hingað til hefur hún verið hluti af uppgjöri flokksins. Og svo er líka á árinu 2021. Styrkir Vorstjörnunnar og kostnaður er því hluti af reikningum flokksins fyrir árið 2021.
Eignir Sósíalistaflokksins voru 4,6 m.kr. í árslok, fyrst og fremst fé á banka. Skuldir voru 263 þús. kr., einhverjir smáreikningar sem greiddir voru strax eftir áramótin. Eigið flokksins var 4,3 m.kr.
Samþykkt var fyrir kosningar 2021 að verja árlegum ríkisstyrk til flokksins annars vegar til Vorstjörnunnar og hins vegar til Alþýðufélagsins, sem heldur úti Samstöðinni. Á yfirstandandi ári styrkti ríkið flokkinn um rúmar 26 m.kr. og hafa sitthvorar 13. m.kr. verið áframsendar á þessi félög. Þessar greiðslur tilheyra árinu 2022 og eru því ekki inn í uppgjöri ársins 2021.
Reukningar Sósíalistaflokksins verða kynntir á aðalfundi flokksins kl. 10:30 sunnudaginn 13. nóvember í Breiðfirðingabúð að Faxafeni 4. Reikningarnir hafa verið sendir til Ríkisendurskoðunar sem mun birta þá auk reikninga annarra stjórnmálasamtaka.