Hagsmunir auðvaldsins og almennings fara ekki saman
Tilkynning
10.09.2023
Sameiginlegur fundur framkvæmda- og málefnastjórna Sósíalistaflokksins vekur athygli á hvernig auðvaldið hefur verið afhjúpað í sumar. Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um söluna á Íslandsbanka og skýrsla setts ríkissaksóknara um Lindarhvol sýndu hvernig staðið hefur verið að sölu almenningseigna til fjármagnseigenda. Skýrsla starfshóps um gjaldtöku og arðsemi íslensku bankanna sýndi hvernig bankarnir hámarka hagnað sinn og úttekt Samkeppniseftirlitsins á samráði skipafélaganna afhjúpar hvernig fákeppnisfyrirtæki nota aðstöðu sína til að blóðmjólka fólk og fyrirtæki.
Þessi innsýn inn í heim stórfyrirtækja sýnir og sannar að hagsmunir auðvalds og almennings fara ekki saman. „Markmið auðvaldsins er að veikja almenning, ná til sín völdum hans, eignum og fjármunum. Þegar kastljósi er beint að atvikum sést að ráðagerðir auðvaldsins eru samsæri gegn þjóðinni.“
Samráð fyrirtækja getur bæði verið beint, eins og í tilfelli Eimskips og Samskipa, en líka þögult. Þá aðlaga fyrirtæki sig að lögmálum fákeppninnar, sættast á óbreytta markaðshlutdeild en hækka verð hægt og bítandi og í takt þar til hámarks hagnaði er náð. Þetta er ástandið á öllum mörkuðum á Íslandi. Hér er enginn markaður sem getur kallast frjáls markaður. Allir markaðir eru undir stjórn örfárra fyrirtækja sem stýra honum með hagsmuni eigenda fyrirtækjanna að leiðarljósi, ekki almennings. Almenningur er valdalaus á þessum mörkuðum, fórnarlamb græðgissóknar auðvaldsins.
Þau sem vilja auka vald hins svokallaða markaðar á kostnað almannavaldsins vilja auka völd auðvaldsins á kostnað valds almennings.
Sósíalistar vilja fara þveröfuga leið. Í erindi sínu til kjósenda lagði Sósíalistaflokkurinn til að neytendasamtök yrði stórefld til að styrkja almenning í varnarbaráttu sinni gegn stórfyrirtækjum og eigendum þeirra og að opinbert eftirlit með stórfyrirtækjum og fjármagnseigendum yrði stóreflt.
Í erindi Sósíalista Endurvakning sjálfstæðisbaráttu almennings segir:
„Reynslan af skipulagðri verkalýðshreyfingu er góð og hana má flytja yfir á önnur svið, færa lærdóminn af vinnumarkaði yfir á aðra markaði þar sem almenningur stendur veikur gagnvart ægivaldi auðsins. Vinnumarkaðurinn var taminn með því að 0,7% af launatekjum runnu til skipulagðrar baráttu launafólks, til verkalýðsfélaga. Það er gjald sem hefur margborgað sig. Án verkalýðsfélaga hefðu eigendur fyrirtækja öll völd á vinnumarkaði.
Valdaójafnvægi annarra sviða samfélagsins mætti jafna með sambærilegum hætti; að 0,7% af allri húsaleigu rynni til samtaka leigjenda, að 0,7% af öllum vöxtum rynni til samtaka skuldara, að 0,7% af öllum tryggingariðgjöldum rynnu til samtaka tryggingartaka og svo framvegis. Öflug hagsmunabarátta almennings mun ekki aðeins verja fólk gegn okri, svikum og kúgun heldur byggja upp valddreifðara samfélag og fjölbreyttara.“
Í erindi Sósíalista Ráðumst að rótum spillingar er meðal annars lagt til:
„Innleiða samning Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu sem íslenska ríkið skuldbatt sig til að gera 2011. Byggja upp burðugar, sjálfstæðar og óháðar eftirlits- og upplýsingastofnanir, svo sem Umboðsmann Alþingis, Ríkisendurskoðun, Samkeppniseftirlit, Umhverfisstofnun, Hagrannsóknastofnun, Hagstofu, mannréttindastofnun o.fl. til að tryggja virkt eftirlit og réttar upplýsingar. Byggja upp sérstaka and-spillingarstofnun sem vinni að því að upplýsa um spillingu og vinna gegn henni.“
Samið og samþykkt á sameiginlegum fundi framkvæmda- og málefnastjórnar Sósíalistaflokksins 10. september 2023