Ályktun stjórna flokksins – Ekki annað Íraksstríð

Sæþór Benjamín Frétt

Ekki annað Íraksstríð

Sósíalistaflokkur Íslands fordæmir með öllu kolólöglegar, siðlausar og hættulegar sprengjuárásir Bandaríkjanna og Ísraels á Íran og krefst þess að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir friði í þessum átökum frekar en að hella frekari olíu á stríðsbálið.

Staðan í Mið-Austurlöndum er ógnvænleg. 

Fulltrúar ríkisstjórnar Írans voru bókstaflega við samningaborðið þegar að þjóðarmyrðandi ríkisstjórn Netanyahu í Ísrael ákvað að myrða þá með sprengjuárásum. Síðan þá hafa eldflaugahrinur gengið fram og til baka á milli þessara tveggja þungvopnuðu ríkja. 

Markmið Netanyahu eru augljós; hans bíða mörg spillingarmál í Ísrael og óstöðug og öfgafull ríkisstjórn hans þarf á eilífðarstríði að halda til að tóra í valdastóli. Þjóðarmorð á Gaza eða allsherjarstríð við Íran þjóna bæði því markmiði.

Ákvörðun Bandaríkjaforseta um að fyrirskipa heiftarlega sprengjuherferð á kjarnorkuver í Íran er kolólögleg innan Bandaríkjanna, brýtur þvert gegn alþjóðasáttmálum og alþjóðalögum og er stigmögnun sem ógnar heimsfriði.

Það yrði ekki í fyrsta skipti sem að heimsvaldastefna Bandaríkjanna veldur slíkri ógn, dæmin eru ótal mörg, en aðstæður nú minna óþyrmilega á hörmungina sem var innrásin í Írak árið 2003. Lygar um gjöreyðingarvopn, líkt og nú, voru réttlætingin. Afleiðingarnar voru mannúðarkrísa sem enn sér ekki fyrir endann á, dauðsföll af skala sem vekur hroll og samansafn stríðsglæpa sem eru svartur blettur á mannkynssögunni.

Ísland var þá meðal hinna „viljugu þjóða“ í nafni ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Réttlætingar Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra og formanns Viðreisnar, áður varaformaður Sjálfstæðisflokksins, minna óþyrmilega á þá fyrri smán. Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur virðist ætla að taka sameiginlega í sama streng. Lýst er yfir áhyggjum af ástandinu, en samtímis að ríkisstjórn Írans sé á einhvern hátt ógn við Norðurlöndin. Evrópsk yfirvöld segja ástandið vera slíkt að ríkisstjórn Írans verði að koma aftur að samningaborðinu, en skauta framhjá því hvað gerðist fyrir rúmri viku síðan þegar fulltrúar Írans gerðu það vissulega.

 

Sósíalistaflokkur Íslands:

  • Fordæmir ólöglegar árásir og stríðsyfirlýsingar Ísraelsríkis og Bandaríkjanna gegn Íran. 
  • Fordæmir þjónkun íslenskra yfirvalda, einkum utanríkisráðherra Íslands, við heimsvaldastefnu Bandaríkjanna. 
  • Krefst þess að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur fordæmi sömuleiðis þessar ólöglegu gjörðir Ísraelsríkis og Bandaríkjanna.
  • Krefst þess að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur nýti rödd sína á alþjóðavettvangi til að krefjast tafarlauss vopnahlés og friðarviðræðna.

 

Ef ekkert verður að gert og íslensk stjórnvöld beygja sig aftur undir svipu Bandaríkjanna, þá er smánin okkar líka. Viljum við enn annað Íraksstríðið?

 

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram