Til stuðnings strandveiðimanna og gegn einokun

Sósíalistaflokkur Íslands Frétt

Það er óverjanlegt að örfáar fjölskyldur og stórfyrirtæki hafi einokað aðgang að fiskimiðum þjóðarinnar – sameiginlegum auðlindum sem eru í almannaeigu. Þetta eru auðæfi sem tilheyra almenningi. Íslendingar hafa frá örófi alda sótt lífsviðurværi í hafið, og rétturinn til þess er ekki aðeins félagslegur eða efnahagslegur – heldur er um að ræða frumbyggjarétt til þess að lifa af og í sínu náttúrulega umhverfi.

Stjórnir Sósíalistaflokksins lýsa yfir eindregnum stuðningi við baráttu strandveiðifólks sem nú stendur frammi fyrir ótímabærri lokun fyrir veiðar vegna yfirgangs og frekju stórútgerðarinnar. Frekja þeirra er á kostnað byggða, smábátafólks og almennings alls. Slíkt óréttlæti endurspeglar djúpa meinsemd kvótakerfisins og ráðandi valdastöðu auðvaldsins í íslensku samfélagi. Alþingi og ríkisstjórn hafa margoft sýnt að þau eru reiðubúin að grípa til sérstakra laga og neyðaraðgerða þegar hagsmunir ríkra og vel tengdra aðila eru í húfi – eins og dæmin um hvalveiðar sýna glöggt. Ef allar strandveiðar væru í eigu eins auðmanns væri sennilega þegar búið að tryggja þær með neyðarlögum. En þegar það er almenningur sem rær — þá er lokað.

Strandveiði er táknmynd atvinnufrelsis og lífgar upp á byggðir sem hafa orðið undir í kapítalísku fárviðri núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis. Landsbyggðin þarf á strandveiðum að halda til að viðhalda lifandi samfélagi og menningu.

Við krefjumst þess að:

  • Strandveiðikerfið verði tryggt með sanngjörnum og fyrirsjáanlegum hætti.
  • Sameign þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni verði virt í verki – ekki sniðgengin í þágu örfárra.
  • Byggðasjónarmið, jöfnuður og lýðræðisleg forgangsröðun verði höfð að leiðarljósi í stefnumótun sjávarútvegsmála.

Við fordæmum Alþingi fyrir að standa vörð um óréttlátt og misráðið kerfi þar sem auðæfi þjóðarinnar eru einokuð af örfáum aðilum. Það er löngu tímabært að stokka það upp frá grunni. Fiskimiðin tilheyra okkur öllum – ekki fámennri valdastétt sem hagnast á að halda almenningi frá.

Við leggjum til eftirfarandi leiðir til að afnema núverandi kerfi og endurreisa réttlæti í sjávarútvegi:

  • Afnám framseljanlegs kvóta: Veiðiréttindi verða ekki framseljanleg eða eign einstaklinga eða fyrirtækja – þau verða samfélagsleg eign undir lýðræðislegri umsjón almennings.

 

  • Endurreisa bæjarútgerðir og samvinnufélög: Með því að veita byggðarlögum, samvinnufélögum og bæjarútgerðum veiðirétt má tryggja að arðurinn af nýtingu auðlindanna renni til fólksins og samfélagsins sjálfs, ekki til örfárra einkaðila. Þetta styrkir byggðirnar, eykur sjálfbærni og dregur úr miðstýrðri einokun auðvalds.

 

  • Styrking byggðarlaga og smábátaútgerðar: Forgangsraða skal úthlutun til útgerða sem eru ekki í einkaeign og sjálfstæðra sjómanna sem nýta afla á sjálfbæran hátt og styðja við byggðir landsins.

 

  • Afturköllun ólögmætrar úthlutunar á aflaheimildum: Rannsaka og afturkalla skal aflaheimildir sem hrepptar hafa verið með misferli, mútum og pólitískri spillingu.

 

Sósíalistaflokkurinn hefur frá upphafi talað fyrir róttækri endurskoðun á kvótakerfinu og þjóðnýtingu auðlinda. Við stöndum með strandveiðifólki og öllum þeim sem krefjast réttlætis í nýtingu auðlinda – fyrir framtíð þar sem samfélagið ræður, ekki auðvaldið.

Ályktun stjórna Sósíalistaflokks Íslands
18. júlí 2025

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram