Ekki meiri niðurskurð! Skattleggjum ofurauð!
Ályktun
11.09.2025

Sósíalistaflokkur Íslands lýsir yfir miklum vonbrigðum með áherslur ríkisstjórnarinnar í fjármálaáætlun vetrarins. Harðar niðurskurðaraðgerðir sem tilkynntar voru eru árás á áunnin verkalýðs- og lífeyrisréttindi og opinbera þjónustu og aukin gjald- og skattheimta á almenning á margvíslegan hátt er óásættanleg stefna á sama tíma og lífskjarakrísa hefur geisað árum saman sem rýrt hefur þegar lífsgæði þorra almennings.
Sósíalistaflokkur Íslands kallar eftir heildarendurskoðun á þessari fjármálaáætlun og svokölluðum kröfum þar um „aðhald“ og „hagræðingu“ og kallar jafnframt eftir því að íslenskt mannamál sé hér eftir notað til að lýsa því sem er auðvitað ekkert annað en niðurskurður!
Þó er ljóst að ríkisstjórninni er ekki jafn annt um móðurmálið eins og Sósíalistum, enda ætlar ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur að skera niður fjárframlög til íslenskukennslu handa aðfluttu fólki þegar að aldrei nokkurn tímann hefur fleira fólk af erlendum uppruna búið á Íslandi.
Ísland hefur jafnframt aldrei verið auðugra land en einmitt núna og samþjöppun auðs upp í efstu lög samfélagsins hefur aldrei verið eins mikil og ójöfn. Bankar, stórfyrirtæki og fjárfestar hafa malað gull á síðustu árum á meðan að almenningur hefur horft fram á kjörin sín rýrna stöðugt þrátt fyrir sýnda fórnfýsi í síðustu kjarasamningum. Verðlag hefur hækkað upp úr öllu valdi og stýrivaxta fyllerí Seðlabankans hefur refsað almenningi en verðlaunað stórfjármagnseigendum.
Á sama tíma hefur húsnæðiskreppan bitið æ meir, heimilisleysi aukist og heilu kynslóðirnar sjá ekki fram á annað en áframhaldandi líf í foreldrahúsum eða okurhelsi á leigumarkaði þar sem engin leið er að safna sér fyrir fasteignakaupum nema búið sé við gríðarsterkt fjárhagslegt bakland.
Þrátt fyrir þessar staðreyndir efnahagslegs veruleika á Íslandi bólar ekkert á raunverulegum kerfislægum aðgerðum í húsnæðismálum um frelsi leigufjárfesta til okurverðlags á leigumarkaði og ásókn sömu fjárfesta í sístærra eignasafn til að græða á heimilum fólksins í landinu. Heimili eiga ekki að vera gróðavara.
Ríkisstjórn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks Fólksins tekur þá ákvörðun að minnka skuldahalla ríkisins með því að demba allri byrðinni á almenning frekar en þá sem grætt hafa mest á græðgisbólgutíð undanfarinna ára.
Sósíalistaflokkur Íslands leggur til að ríkisstjórnin:
- Leiðrétti leiguverð og setji á leiguþak til að stemma stigu við drifkrafti verðbólgunnar og okurverðlagningu á húsnæðismarkaði.
- Dragi til baka fyrirhugaða niðurskurðarsveðju sína á ótal málaflokka, meðal annars á atvinnuleysisbótum, lífeyrisréttindum verkafólks og íslenskukennslu.
- Endurhugsi áform um margvíslega aukna gjaldheimtu á venjulegt fólk.
- Afnemi vísitölutengingu leiguverða sem skapar augljósa víxlverkun á milli hækkunar húsaleigu og verðbólgumælinga.
- Skattleggi óhóflegan gróða bankanna vegna óeðlilega hás vaxtastigs.
- Skattleggi fjármagnstekjur til jafns við launatekjur.
- Skattleggi ferðaþjónustuna til jafns við annan fyrirtækjarekstur.
- Skattleggi óhóflega eignasöfnun fjárfesta.
Með öðrum orðum, að ríkisstjórn Íslands starfi í þágu hagsmuna almennings í stað hagsmuna auðvaldsins. Ekki meiri niðurskurð! Skuldahalla ríkisins má og á að ná niður með því að skattleggja ofurauð!
Sósíalistaflokkurinn