Húsnæðismál snúast um jöfn tækifæri fólks, atvinnu og framtíð byggðanna í landinu
Pistill
25.08.2021
Allir vilja og verða að hafa þak yfir höfuðið. Eiga heimili, griðastað, þar sem þeir geta átt einkalíf, notið þess að vera með fjölskyldu sinni og fengið ættingja og vini í heimsókn.
Nægilegt framboð af húsnæði á sanngjörnu verði og af leiguhúsnæði fyrir hóflega leigu er bráðnauðsynlegt til að fólk og alveg sérstaklega þeir sem ekki hafa úr miklum peningum að spila, geti búið sjálfum sér og börnum sínum öruggt heimili. Skortur á hentugu íbúðarhúsnæði fyrir verð sem fólk ræður við að greiða, án þess þurfa að steypa sér í miklar skuldir og burðast með þær alla ævina, leiðir til þess að fólk neyðist til að flytjast úr byggðarlögum þar sem það helst vill búa og starfa.
Skortur á hentugu íbúðarhúsnæði fyrir hóflegt verð er þó ekki einungis ógn við einstaklinga og fjölskyldur og tækifæri þeirra til að eiga gott líf þar sem þeim líður vel og vilja helst vera. Íbúðaskortur er líka mikil ógn við atvinnulífið og fyrirtæki sem vantar starfsfólk til að geta starfað og dafnað. Margvísleg tækifæri til uppbyggingar og atvinnusköpunar glatast vegna þessa.
Þegar ungt fólk flyst burt úr byggðarlagi, vegna þess að það getur ekki fundið þar húsnæði sem hentar því og það ræður við að kaupa eða leigja, missir byggðarlagið þann mikla mannauð sem býr í þessa unga fólki, atvinnulífið nýtur ekki starfskrafta þess og samfélagið allt fer á mis við þann kraft og sköpun sem í því býr.
Húsnæðismál eru því gríðarlega mikilvægt réttlætismál sem snýst um tækifæri alls fólks til að eiga heimili, öflugt atvinnulíf og framtíð byggðanna í landinu.
Við í Sósíalistaflokknum ætlum því að berjast af alefli fyrir því að ríki og sveitarfélög standi við þá mikilvægu skyldu sína að tryggja fólki raunhæf tækifæri til að eignast eða leigja húsnæði þar sem það helst vill búa og starfa.