Arnþór: Núna þegar við sósíalistar mætum á sviðið, flissa margir um stund, en aðeins um stund
11.05.2018
—Hinn Kópavogur
„Ég held að Sósíalistaflokkurinn sé strax farinn að hafa áhrif. Nú er miklu meira talað um launamál í öllum flokkum. Ég held að við séum að leggja á borðið fullt af málum sem hefur ekkert verið talað um.
Ég er alinn upp á mjög pólitísku heimili þar sem pólitík var mikið rædd alveg frá því ég var barn en pabbi minn var mikill krati. Þetta var mjög fátækt fólk en árið 1958 voru foreldrar mínir húsnæðislausir þannig að unga fjölskyldan keypti lítið hús á sumarbústaðarlóð á Bjarnhólastíg í Kópavogi. Svo fjölgaði börnunum og við vorum orðin átta systkinin og 10 í heimili í 80 fermetra sumarbústað. Ég hef sennilega haft það best því ég er yngstur.
Mamma var heimavinnandi framan af en fór svo seinna út á vinnumarkaðinn en pabbi var í ýmsum störfum. Hann var járnsmiður og var á sjó og þetta var bara bölvað hark og oft jafnvel lítið eða ekki til neitt að borða. Ég var ekkert að velta mér uppúr því að ég væri fátækur, ég fann aðallega fyrir því þegar kom að reiðhjólum og slíku, ég fékk aldrei nýtt reiðhjól heldur eitthvað eldgamalt reiðhjól sem þurfti að laga. Ef það brotnaði rúða þá var ekkert hægt að gera neitt við hana í hvelli því það var ekki til neinn peningur. Við svona rétt skrimtum en einhvern veginn gekk þetta. Mamma lagði hart að sér að halda þessu öllu gangandi og eldri systkinin lögðu sitthvað til þegar þau voru farin að vinna. Svo skánaði þetta þegar ég varð unglingur, þá vorum við orðin svo fá heima.
Ég fór í Iðnskólann og lærði kjötiðn, fór svo beina leið inn í Iðnnemasambandið og tók þátt í kjarabaráttu iðnnema og fór líka flótlega í félag ungra jafnaðarmanna um 16 eða 17 ára aldur. Eftir iðnnámið var ég kosinn í stjórn verkalýðsfélags kjötiðnaðarmanna, bara stráklingur um tvítugt og varð vitni að allri þjóðarsáttinni sem svo hét, en eftir það lognast verkalýðshreyfingin út af. Það dó öll umræða um verkalýðsmál og áratug seinna varð Samfylkingin til og einnig VG en á þessum tíma er búið að drepa niður alla umræðu um fátækt, verkalýðsmál og þá lægst settu í samfélaginu.
Mér leist ekkert alltof vel á Samfylkinguna þegar hún var stofnuð en fór á endanum þangað inn en ég gat ekki verið þar. Mér fannst hún bara of hægri sinnuð og of mikil markaðshyggja í gangi, of mikið daður við fjármálaöflin og mér bara leið ekkert vel þar og færði mig því yfir í VG. Mér fannst ég betur staddur þar um tíma en eftir síðustu umskipti hjá VG fannst mér ég hafa sóað mínum tíma þar. Þar hefði ég farið í samstarf við auðvaldið í gegnum veru mína í VG. Ég gat þess vegna ekki lagt þessum flokki lið.
Sósíalistaflokkurinn er eini almennilegi vinstri flokkurinn í dag. Mér finnst ég alltaf hafa verið staðfastur í mínum skoðunum sem jafnaðarmaður en flokkarnir hafa alltaf farið frá sínum upphaflegu markmiðum. Ef flokkurinn framfylgir ekki sinni stefnu heldur fer í þveröfuga átt, ekki einu sinni milliveginn, þá hefur maður ekkert þar að gera. Núna þegar við mætum aftur á sviðið saman, allt sósíalískt þenkjandi fólk, þá flissa menn um stund, en aðeins um stund. Menn átta sig fljótt á því að það er fullt af fólki í samfélaginu sem hefur það ekki gott.
Ég er þannig gerður að ég má aldrei neitt aumt sjá þá þarf ég að bregðast við og tek alltaf upp hanskann fyrir þá verst settu því ég veit alveg í hvaða aðstöðu þeir eru, enda hef ég verið þar sjálfur og þess vegna er mér ekki sama. Um miðjan aldur var mér orðið nokkuð sama um pólitíkina en snéri mér meira af íþróttastarfi enda hafði maður bara nóg að gera í lífsbaráttunni en svo þegar krakkarnir mínir urðu eldri þá fór ég aftur að skipta mér meira af samfélagsmálum. Núna eru börnin mín í þeirri stöðu að ekkert þeirra á sitt eigið húsnæði. Ekkert þeirra getur keypt sér húsnæði eins og staðan er í dag. Ég sé það ekki fyrir mér. Og hver á að hugsa um það? Þau geta það ekki og það sama á við um flest ungt fólk í dag.
Það verða einhverjir að koma að þessum málum. Það hefur engan kost nema einhver geri eitthvað róttækt í málunum. Hvort sem mitt framlag muni skipta máli eða ekki þá get ég ekki setið hjá. Maður veit ekki hverju maður fær áorkað en þetta er ekki þannig að maður geti bara bloggað um það einu sinni og þá sé það bara búið. Þetta er endalaust verkefni og við þurfum alltaf að standa vaktina. Það þurfa margir að leggjast á árarnar til að breytingar nái fram að ganga. Mig langar til að leggja mitt af mörkum og þess vegna gef ég kost á mér.
Ég slasaði mig árið 1994 en ég var þá að vinna við kjötiðnað. Kjötiðnin er líkamlega erfitt starf og getur verið mjög slítandi enda starfar maður oftast í kældu rými. Ég varð að finna mér starfsvettvang sem krafðist minna af líkamlegum styrk og endaði þá í kvöldskóla. Þar lærði ég tölvunarfræði og vinn við það í dag. Varðandi þá menntunarvalkosti sem sífellt er verið að loka á í dag þá er ég þeirrar skoðunar að sumir ná að klára án vandkvæða iðnskóla eða menntaskóla og svo jafnvel áfram háskólanámið. Aðrir hafa ekki kost á því að gera það af ýmsum ástæðum. Þá finnst mér að þeir einstaklingar eigi fullan rétt á því að fara aftur í nám síðar á æfinni án þess að greiða fyrir það. Það er orðið mun erfiðara að vera 25 ára á vinnumarkaði í dag og ætla að reyna að ná sér í menntun. Þrátt fyrir það er það hagur samfélagsins og þjóðarinnar að sem flestir geti menntað sig. það er líka ömurlegt fyrir fólk sem á ekkert, að taka tugi milljóna króna námslán og fara með það út í lífið á bakinu og jafnvel að reyna að eignast húsnæði á sama tíma. Þetta er auðvitað galið.
Hrunið hafði mikil áhrif á mig en ég var mikið niðri á Austurvelli í búsáhaldabyltingunni. Sá tími og þær hamfarir hafa sennilega fengið marga til að hugsa. Eftir þá reynslu hafa margir séð að kapítalisminn og nýfrjálshyggjan er vægðarlaus og er enginn mannvinur. Margir muna af hverju hrunið dundi yfir þó yngri kynslóðirnar þekki þetta ekki eins vel. En fólk var bara skilið eftir allslaust og hent út úr íbúðum sínum út á götuna. Auðvitað var eitthvað gert en forgangurinn var ekki fólkið heldur fjármagnið. Það eru fjármagnseigendur sem standa með pálmann í höndunum eftir hrunið.
Auðvitað á að vera til flokkur sem er að vinna fyrir fólkið, flokkur sem stendur vörð um hagsmuni fjöldans og þeirra sem standa höllum fæti eða eru með lakari kjör. Það er mjög auðvelt að fara bara heim og horfa á sjónvarpið og láta þessi mál bara fjara út og skipta sér ekkert af þessu. En við þurfum að tala um fátækt og stéttaskiptingu, við þurfum að tala um húsnæðismálin og berjast fyrir og með þeim sem búa við lökustu kjörin. Ég hef oft bent á það að allar kosningar snúast um sósíalisma vegna þess að við erum að tala um samfélagið okkar og samfélagið er litað sósíalisma. Af hverju ætti ekki að vera Sósíalistaflokkur í þeirri umræðu? Það er bara kjánalegt að hafa ekki slíkan flokk svo ég hef ekki efast um að Sósíalistaflokkurinn eigi fullt erindi.”
Arnþór er í framboði fyrir Sósíalista í Kópavogi #valdiðtilfólksins