Eiríkur: Það er eins og við unga fólkið séum ekki til
17.05.2018
—Hinn Kópavogur
Ég er 20 ára og alinn upp í Hafnarfirði ásamt tvíburabróður mínum og systur sem er ári eldri en við. Eftir þriðja bekk í grunnskóla fluttum við fjölskyldan til Bretlands í fimm ár. Frá Bretlandi fluttum við svo hingað í Kópavoginn og hér kláraði ég grunnskólann.
Grunnskólinn í Bretlandi og hér er eins og svart og hvítt. Þar er skólinn frá 9 til 4 samfleytt og ekki verið að þeyta börnum þvers og kruss hingað og þangað eftir skóla. Kennslan er meiri og betri, mun meiri agi og almennt haldið betur utan um nemendur. Stærstu bóknámsfögin voru kennd í getuskiptum minni hópum þar sem maður fékk virkilega góða kennslu og mun meiri aðstoð en boðið er uppá hér heima enda færri nemendur um hvern kennara. Frístundanám var svo einnig innan skólanna. Það voru því viðbrigði að koma heim í skólann hér. Ef eitthvað er þá fann ég fyrir því að vera jafnvel á undan samnemendum mínum í ákveðnum fögum eins og í stærðfræði.
Eftir grunnskólann fór ég svo eina önn í Menntaskólann í Kópavogi síðan í skamman tíma í Menntaskólann við Hamrahlíð en hætti þar og fór að vinna smávegis. Eftir það tók ég svo eina önn í Stýrimannaskólanum í Reykjavík en hætti þar líka. Ég er því eiginlega búinn að vera dáldið útum allt. Ástæðan er kannski fjölþætt en ein af ástæðunum er einfaldlega sú að ég átti mjög erfitt með að vakna snemma á morgnana. Núna stunda ég vinnu en ég vinn skrifstofuvinnu, úthringingar og tölvuvinnu í Bílanaust og ég þarf ekki að mæta í vinnuna fyrr en klukkan níu á morgnana. Það munar talsvert um þennan eina klukkutíma á morgnana og mér finnst það í rauninni vera eins og himinn og haf.
Við bjuggum í Bretlandi þegar kreppan skall á og hryðjuverkalögin voru sett. Ég varð því ekki var við umræðuna eða andrúmsloftið á Íslandi á þeim tíma en ég man vel eftir umræðunni í Bretlandi. Það gleymist oft í umræðunni hér heima að þar í landi voru margir sem misstu allt sitt útaf einhverjum jólasveinum á Íslandi og sumt af því fólki hefur aldrei beðið þess bætur.
Foreldrar mínir eru afar ópólitískir svo það má eiginlega segja að ég hafi sjálfur þroskað með mér pólitískan áhuga. Amma mín er reyndar frekar pólitísk og bróðir minn er líka bullandi vinstri maður. Þrátt fyrir að vera sjálfur í VR tók ég þátt í að aðstoða B-lista Eflingar við að vinna sinn kosningaslag á dögunum. Svo buðu nokkrir sósíalistar sig fram í stjórn VR í kjölfarið. Ég er afar ánægður með þann sigur einnig þrátt fyrir að það hafi auðvitað verið aðeins hljóðlátari sigur.
Ég hef ekki mikla trú á því fólki sem stýrir Kópavogsbæ í dag fremur en fólki sem situr í stjórnum hjá opinberum hlutafélögum. Mér finnst það oft vera mestu blóðsugurnar á kerfinu og það er hálf hjákátlegt að fylgjast með þessum flokkum sem fara með stjórn reyna að blása einhverju lífi í bæjarmálin korteri í kosningar. Það er alltaf grunsamlega þögult yfir bæjarstjórninni í Kópavogi.
Mér finnst framtíðin ekki líta neitt voðalega vel út hjá okkur ungu kynslóðinni. Mér finnst eins og sá póll hafi verið tekinn í hæðina að við séum bara ekki til. Það er enginn að tala fyrir okkur eða að gera neitt okkur í hag. Það er því erfitt að ætla sér að gera einhver sérstök framtíðarplön. Ég gæti sennilega unnið í því að safna mér upp í íbúð en eins og lánakerfið er í dag þá er þetta ekki beint það sem mann langar að gera að skuldsetja sig næstu áratugina í þeirri von að maður muni kannski eiga eitthvað í húsnæðinu sínu eftir 40 ár. Mig langar ekki beint til að fara út í þennan pakka eins og honum er stillt upp núna og leigumarkaðurinn er ekki mjög fýsilegur kostur svo ég er ennþá í foreldrahúsum. Ég er meira bara að lifa frá degi til dags núna fremur en að skipuleggja framtíðina eitthvað sérstaklega.
Eiríkur Aðalsteinsson er í framboði fyrir Sósíalistaflokk Íslands í Kópavogi #valdiðtilfólksins