Elísabet: Ég ætla að fá karlavinnu og karlalaun svo ég geti lifað
11.05.2018
—Hinn Kópavogur
“Maður á ekki að þurfa að lifa svona lífi kominn á þennan aldur. Mér líður stundum eins og ég sé ennþá 18 ára eða tvítug miðað við hvernig staða mín er. Maður bara kemst ekki upp úr farinu. Maður er bara fastur. Ég bjó um tíma í Noregi en kom heim aftur til Íslands fyrir fjórum árum til að jarða dóttur mína sem lést af of stórum skammti eiturlyfja.
Ég er fædd í Reykjavík og uppalin í verkamannabústöðum, fyrst í Efra-Breiðholti og svo í Seljahverfinu. Ég var orðin einstæð móðir sextán ára gömul og var lengi í mjög erfiðu sambandi við mann sem var átján árum eldri en ég.
Dóttir mín var greind með ADHD ung að aldri og stundum var ansi mikið fjör á bænum og líkara því að maður væri með fullan leikskóla af börnum en hana eina. Það gekk oft mikið á og hún var rekin allsstaðar. Rekin úr leikskólum, skólum, skóladagheimili og jafnvel sundi. Hún truflaði inni í bekknum og fékk hvergi að vera og það var oft bara sprengja þegar hún kom heim úr skólanum. Ef það var grunsamlega mikil þögn þá vissi maður að hún var að gera eitthvað af sér.
Dóttir mín fór reglulega til pabba síns sem þá bjó sjálfur hjá foreldrum sínum og það sem ég ekki vissi þá var að hann misnotaði hana kynferðislega til margra ára. Mig fór að gruna þetta og fór að spyrja hana hvað væri í gangi strax þegar hún var átta ára. Ég gekk svo enn meira á hana þegar hún fór að sýna mikil þunglyndiseinkenni á unglingsárunum og hún var jafnvel farin að skaða sjálfa sig. Henni leið greinilega mjög illa og ég var orðin viss um að þetta væri staðan. Hún fékkst samt ekki til að opna sig fyrir sálfræðing og dró bara húfuna niður. Það var virkilega erfitt að fá að hjálpa henni.
Barnavend greip þó að lokum í taumana og allt komst upp og pabbi hennar fékk á endanum fimm ára fangelsisdóm. Hann sat þó aðeins inni helminginn af tímanum og greiddi henni aldrei þær bætur sem honum var gert að greiða henni. Hann hefur heldur aldrei viðurkennt gjörðir sínar þrátt fyrir að lífsýni hafi sannað glæpi hans. Að misnota barn kynferðislega er í mínum huga ekkert öðruvísi en að taka manneskju af lífi.
Í kjölfarið á þessu fór svo barnavernd fram á að hún sækti meðferðarúrræði á Árbót og þar varð hún aftur fyrir því að starfsmaður misnotaði hana. Það mál var líka kært en þær voru tvær stúlkurnar sem urðu fyrir þessu þar. Hin stúlkan fékk bætur en mál dóttur minnar var fellt niður. Hún reykti ekki sígarettur þegar hún fór inn á Árbót en þar hitti hún krakka sem voru í neyslu fíkniefna og kom þaðan út fíkill. Þetta var einfaldlega rangur staður fyrir hana. Hún fór smám saman að nota harðari efni sem svo endaði með því að hún tók of stóran skammt af lyfjum og lést árið 2014.
Ekki átti maður nú gott uppeldi sjálfur en ég átti fósturpabba sem var helvíti að alast upp hjá. Það var sko heldur ekkert skemmtileg og stundum finnst mér eins og sagan endurtaki sig og þetta taki bara engan enda. Ég fékk fljótlega mjög skakka ímynd af samböndum og það er eins og maður forritist af einhverju rugli. Ég er ekki í sambandi við móður mína og marga í fjölskyldunni í dag því þau hafa ekki reynst mér vel.
Ég er núna í þeirri stöðu að vera að missa leiguhúsnæðið mitt hér í Kópavoginum en hér hef ég búið síðastliðin þrjú ár. Mig langar helst til þess að búa áfram í Kópavoginum, er búin að skoða helling af íbúðum en hef ekkert fundið því þetta er allt bara á verðinu 200 þúsund plús.
Þetta er rosalegt ástand og náttúrulega ferlega erfitt fyrir fólk sem er ekki með ríkan maka eða einhver súper laun. Tryggingin er samt verst því ef íbúðin sjálf kostar 250 þúsund þá eru þrír mánuðir í tryggingu þar til viðbótar og því spurning um að eiga heila milljón. Þetta er bara rugl. Manni fannst húsaleigan há þegar hún var fimmtíu þúsund hér áður en það er bara fyndið í dag.
Ég keypti sjálf upphaflega í Verkó þegar það kerfi var enn til staðar en seldi þá íbúð og flutti til Danmerkur með mínum fyrrverandi. Þegar ég kom svo heim tveimur árum síðar var ég húsnæðislaus og í hrakningum svo ég fékk félagslegt húsnæði hjá borginni. Ég hafði þá áform um að kaupa aftur mitt eigið í gegnum Verkó en það kom aldrei til þess þar sem kerfið var lagt niður í millitíðinni. Ég bjó því á Melunum í vestubænum í Reykjavík í tíu ár og sakna oft þess hverfis en ég hef engan veginn efni á því að búa þar í dag enda er það orðið eitt dýrasta hverfið á höfuðborgarsvæðinu.
Eftir endalausa erfiðleika í hruninu hér heima, missandi vinnu og í húsnæðishrakningum ákvað ég að flytja til Noregs en þá var dóttir mín farin að búa sjálf svo ég fór þangað árið 2013. Þar fann ég hversu gríðarlega mikill munur var á velferðarkerfinu þar ytra og hér heima. Ef eitthvað var að þá hjálpaði kommúnan mér og bara með alla hluti. Þar er kerfið miklu mannúðlegra og sterkara og mikið meira gert fyrir fólkið. Ég var atvinnulaus á tímabili og í leit minni að vinnu flutti ég frá norður Noregi til suður Noregs en kommúnan greiddi mér uppihald á meðan og greiddi allar mínar skuldir sem ég mátti svo greiða til baka á eðlilegan máta þegar ég var komin með vinnu. Það fer ekkert í skít þar því þeir hjálpa manni að greiða úr hlutunum.
Í Noregi eru svo til allskyns svona húsnæðiskerfi eins og verkó og afborganir af öllu viðráðanlegar. Meira að segja er leigumarkaðurinn í Kaupmannahöfn mun viðráðanlegri en hér á Íslandi. Ég gæti leigt nýja íbúð í Kaupmannahöfn á 160 þúsund krónur í stað 250 þúsunda hér heima. Maður er bara að skoða út fyrir landsteinana aftur því maður er að fá upp í kok af þessu.
Ég er með allskyns menntun en ekki háskólamenntun. Ég er núna að læra félagsliðann samhliða fimmtíu prósent starfi sem stuðningsfulltrúi og hef íhugað að fara á sjúkraliðabrúna en ég skráði mig líka í byggingatækniskólann í haust því ég ætla að fá karlavinnu og karlalaun svo ég geti lifað. Það þýðir ekkert að vera í kvennastéttinni. Það er bara litið niður á þig. Vertu bara úti elskan! Það er sko ekki sama af hvaða kyni þú ert.
Mér finnst launin hjá háskólafólki líka til skammar. Fólk er jafnvel búið að læra í mörg ár í háskóla, kemur svo út á vinnumarkaðinn og fær laun eins og fyrir verkamannavinnu. Yfirvöld geta ekki einu sinni séð sóma sinn í því að borga fólki laun í samræmi við menntun. Ef þú værir að koma úr námi í Danmörku eða Noregi þá fengir þú bara súper fín laun jafnvel sem sjúkraliði.
Mér finnst líka hræðilegt hvernig er komið fram við innflytjendur á Íslandi. Fólk fær jafnvel bara húsnæði og fæði en varla nein laun. Og allskyns vinnuþrælkun sem virðist vera að aukast. Fólk er að leita sér að betra lífi, en svo er komið fram við það á þennan hátt. Þetta er náttúrulega bara ógeðslegt.
Græðgin og spillingin er bara endalaus og mér finnst þetta bara fara versnandi. Bilið á milli ríkra og fátækra eykst sífellt og millistéttin er að hverfa. Þetta er óviðunandi ástand.“
Elísabet Viðarsdóttir er í framboði fyrir sósíalista í Kópavoginum #valdiðtilfólksins