Hildigunnur: Skólagangan verður alltaf dýrari og dýrari
17.05.2018
—Hinn Kópavogur
“Ég er 18 ára, fædd í Reykjavík og bjó á Fálkagötunni fyrsu árin. Móðir mín er hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum og faðir minn er hagfræðingur. Það kom fljótlega í ljós þegar ég var barn að mér leið ekki vel í venjulegum leikskóla svo foreldrar mínir fluttu mig í Valdorfskólann. Það hentaði mér mun betur og þar fékk ég góðan grunn að skapandi hugsun en í Valdorfskólum eru ekki keypt tilbúin leikföng heldur er allt búið til úr tilfallandi efnivið.
Við fjölskyldan fluttum svo á Álftanesið þar sem við bjuggum fyrst á bæ sem heitir Breiðabólsstaður en svo á Hliðsnesi og ég var í Álftanesskóla. Við vorum með hesta framan af og vorum alltaf með hænur og tvo ketti. Foreldrar mínir skildu árið 2008 en í vinsemd og gátu búið hlið við hlið á Álftanesinu svo ég fékk gott atlæti og hafði þau bæði nálægt mér.
Ég var átta ára þegar kreppan skellur á og þrátt fyrir ungan aldur tók ég eftir ýmsum breytingum í samfélaginu í kjölfarið. Ég man til dæmis mjög vel eftir því að hafa safnað mér inn pening fyrir leikfangi en sá svo sama leikfang í búðinni nokkrum mánuðum seinna á uppsprengdu verði.
Ég man líka vel eftir mótmælunum en faðir minn var mjög virkur í búsáhaldabyltingunni. Hann tók þátt í stofnun Borgarahreyfingarinnar og fór ég oft með honum á mótmæli og pólitíska fundi. Ef mér leiddist á fundum fékk ég ýmis hlutverk og var jafnvel send út að dreifa bæklingum. Svo fór pabbi á þing í kjölfarið. Það var dáldið sérstakt að fá að fara með honum í vinnuna og upplifa mötuneytið í þinghúsinu. Þar sat sama fólkið og reifst í pontunni í mesta bróðerni og borðaði hádegismatinn sinn saman. Ég komst líka að ýmsu um fríðindi alþingismanna sem fæstir vita eins og að í kjallaranum á Alþingi er sauna og líkamsræktarstöð sem mér finnst alltaf jafn fyndið.
Það var nokkuð sérstakt að alast upp á Álftanesi en ég fann fyrir stéttskiptingunni meðal samnemenda minna í Álftanesskóla. Ég fann til dæmis fyrir því í gegnum hluti eins og ferminguna en ég fékk svona það sem kalla má eðlilegar fermingagjafir þar sem stórfjölskyldan sló saman í veglega gjöf. Svo fékk ég einhverja peninga að auki og var hæstánægð með gjafirnar mínar. Þegar ég mætti í skólann eftir páskana og heyrði hvað samnemendur mínir höfðu verið að fá varð ég eiginlega bara miður mín. Þá leið mér allt í einu ömurlega með mínar gjafir. Ég var auðvita ánægð með það sem ég fékk en manni fer að líða illa með sitt þegar maður upplifir svona misskiptingu. Mér finnst fermingar vera svo mikið rugl og krakkar eru jafnvel að bjóða sem flestum til að fá sem mestan pening. Ég held að fæstir þrettán ára krakkar séu að ferma sig vegna trúarinnar. Ég er sjálf trúlaus þó ég hafi látið ferma mig á sínum tíma.
Ég fór mikið í sumarbúðir á vegum KFUM-og K sem barn. Mér finnst að allir krakkar ættu að upplifa það að fara í sumarbúðir. Ég átti í lestrarerfiðleikum sem barn og kennarinn minn í 1.- 4. bekk fylgdist mjög vel með mér. Eftir það voru kennarar ekki mikið að fylgjast náið með hverjum nemanda. Þegar ég var í 9. bekk voru foreldrar mínir orðnir nokkuð viss um að ég væri lesblind en skólinn hafði ekki frumkvæði að því að senda mig í greiningu svo það var gert á kostnað fjölskyldunnar. Ég var greind lesblind og með athyglisbrest.
Ég er ekki með slæma lesblindu en ég finn alveg fyrir henni í námi. Ég þarf oft að endurlesa klausur, sérstaklega í þungum fræðitextum svo ég þarf að taka mér lengri tíma í að lesa en margir aðrir. Ég fæ að taka próf í sérstofu í skólanum og lengdan próftíma. Ég er líka í góðu sambandi við námsráðgjafa og ég læt lesblinduna og athyglisbrestinn ekki stoppa mig. Ég hef metnað í náminu sem skilar sér í háum einkunnum. Maður finnur sér sínar aðferðir til að læra. Ég glósa til dæmis mjög myndrænt, handskrifa og teikna myndir við glósur.
Ég er núna að klára þriðja árið í Menntaskólanum við Hamrahlíð en ég er í síðasta árganginum sem getur tekið menntaskólann á fjórum árum í stað þriggja. Enginn af jafnöldrum mínum eru sáttir við styttingu framhaldsskólans. Styttingin setur aukna pressu á nemendur og getur valdið kvíða.
Ég stefni að því að klára stúdentinn af félagsfræðibraut en mig langar að fara erlendis í listfræðinám. Ég mála og finnst gaman að búa til litla skúlptúra eða vinna eitthvað skapandi með höndunum en ég vil samt hafa stúdent af bóknámsbraut. Ég hef einnig mikinn áhuga á heimspeki svo mín aðaláhersla liggur þar sem og á listasögu.
Ég er sjálf í tveimur vinnum með skólanum en ég vinn bæði í verslun eftir skóla nokkra daga í viku og á skemmtistað aðra hvora helgi. Þar vinn ég fastar vaktir föstudaga og laugardaga frá tíu á kvöldin til fimm á morgnana. Það vinna allir með skólanum í dag enda er dýrt að vera í framhaldsskóla. Ein bók getur kostað sjö þúsund krónur og þegar námsmaður þarf lágmark fjórar og allt upp í tólf bækur þá er þetta orðinn talsverður kostnaður. Ég bý hjá móður minni en ég þarf ekki að borga heim. Ég kaupi bæði mat og fötin mín sjálf auk námsgagnanna. Ég er líka að búa í haginn fyrir framtíðina og leggja fyrir því mig langar að fara í framhaldsnám erlendis. Grunnskólinn kosta líka sitt en skólagangan verður dýrari með hverju skólastiginu.
Mér finnst ekki mikið hafa gerst í þjóðfélagsmálunum undanfarin ár. Það kemur upp hvert spillingarmálið á fætur öðru. Allir verða brjálaðir í smá stund en svo er eins og það sé bara gleymt og grafið um leið. Það verða aldrei neinar afleiðingar. Mér finnst fólk vera of upptekið af því að tjá reiði sína án þess að gera neitt í því.
Samfélagsmál eru mikilvæg og þar sem ég get ekki bjargað heiminum si-svona þá finnst mér eðlilegra að byrja á því að reyna að hafa áhrif á nærumhverfið mitt. Mér finnst líka eðlilegt að greiða skatta og mér finnst fólk oft vera í einhverri hugsanavillu með skattana. Sérstaklega efnameira fólk. Það heldur alltaf að það sé að borga skatta fyrir aðra en sjálft sig en við erum fyrst og fremst að greiða skatta svo við sjálf getum komst undir læknishendur ef við veikjumst eða svo við getum notið náms. Skattar eru allra hagur og þeir sem hafa hæstar tekjur ættu að greiða hærri skatta. Ég hef heldur aldrei skilið það að fólk vilji ekki hjálpa öðrum.
Ég myndi vilja sjá fría heilbrigðisþjónustu og frítt nám. Ég vil einnig sjá námslán verða að námsstyrkjum. Það er mjög mikilvægt að fólk geti sinnt geðheilsunni sér að kostnaðarlausu en það hafa ekki allir efni á því að greiða þrettán þúsund krónur fyrir einn tíma hjá sálfræðingi. Andleg veikindi mega ekki gleymast. Það ætti að fylgjast betur með krökkum strax í grunnskóla. Ég vil líka bara að það sé tékkað á fólki. Það eru ekkert allir endilega að tala um hvernig þeim líður og samfélagið, hvort sem það er skólinn eða vinnustaðurinn, má alveg fylgjast markvisst með líðan fólks. Það eru heldur ekki bara unglingar sem þjást af þunglyndi. Það eru tímabil á öllum aldursskeiðum í lífi fólks þar sem það er viðkvæmara fyrri því að verða þunglynt og það væri gott ef samfélagið væri bara meðvitaðara og sýndi meiri samkennd.
Hildigunnur Þórsdóttir Saari er í framboði fyrir Sósíalistaflokk Íslands í Kópavogi #valdiðtilfólksins