Hildur: Maður þarf að spá í allt, það má ekkert klikka
29.04.2018
—Hin Reykjavík
„Ég heiti Hildur og er 39 ára gömul og er 75% öryrki. Ég er einstæð móðir tveggja yndislegra stráka. Ég er sem sagt strákamamma. Mig langar til að segja ykkur aðeins frá sjálfri mér.
Frá því að ég var 13 ára gömul byrjaði ég að vinna og bera ábyrgð á sjálfri mér, ég hef alltaf verið mjög sjálfstæð og mjög virk í mínu daglega lífi. Ég átti aldrei í neinum erfiðleikum að leita mér að vinnu og var oftast ráðin á staðnum. Því að í mínum meðmælum stóð að ég væri dugleg, fljót að læra og væri mjög jákvæð persóna.
Ég kem af yndislegri fjölskyldu. Ég á þrjár systur og frábæra foreldra. Við vorum sex á heimilinu. Ég ólst upp við þær aðstæður að maður þurfti að hafa fyrir lífinu. Við systurnar fengum ekki hlutina beint í hendurnar. Móðir okkar var mikill saumakona og saumaði mikið á okkur systurnar. Faðir minn vann við fiskiðnað og kom með fisk heim. Fengum kjöt úr sveitinni og þau tóku slátur á hverju hausti til að eiga nóg af mat í kistu. Þannig ég ólst við gott uppeldi.
(Þó að ég hafi verið að vinna og allt ljómandi í kringum mig fór að bera pínu á þunglyndi hjá mér en lét engan vita og var í afneitun með sjálfri mér. Þetta gerðist fyrst árið 1996. En svona liðu árin mér.)
Árið 2002 átti ég mitt fyrsta barn sem átti að vera minn hamingju tími en fann lítið fyrir því. Málið er ég þurfti að standa í mjög erfiðu faðernismáli sem tók mikinn toll að mínu daglega lífi og minni líðan. Árið 2004 lauk loks málinu og þá gerðist það að heimurinn hrundi hjá mér það var hreinlega ekkert eftir sem kallast orka, jákvæði né gleði. Ég fékk taugaáfall. Ég var greind með þunglyndi, þráhyggju röskun og félagsfælni.
Þarna þetta ár 2004 breytist allt hjá mér. Fór úr þessari glaðlegri persónu yfir í allt annan heim og varð að viðurkenna að mín andlega hlið væri eitthvað biluð. Mér var einfaldlega bannað að vinna. Læknar og sálfræðingur sögðu mér að frekar vinna í sjálfri mér og byggja mig upp. Þetta var gríðarleg breyting fyrir mig þar sem ég hef alltaf unnið.
Þarna var ég sett á bætur frá TR. Fyrst hélt ég að allt myndi breytast en svo gerði ég mér grein fyrir að þessar bætur voru ekki að duga mér og syni mínu fyrir öllum reikningum, né fyrir lyfjum og hvað þá mat. Ég þurfti að leita eftir frekari hjálp. Mér var bent að á fara til Hjálparstarfs kirkjunnar og mæðrastyrksnefndar til að fá hjálp með mat. Á þessum tímapunkti þurfti ég að lækka mitt eigið sjálfsmat og stappa í mig stálinu og taka þau erfiðu skref að sækja um aðstoð fyrir mat. Sú tilfinning varð mér erfið og skrefin voru mjög þung. Það var eins og ég væri með þung lóð bundin um ökkla mér. En í dag man ég eftir þessari tilfinningu, hún var svo sterk að hún mun aldrei gleymast.
Í 14 ár hef ég þurft á þessari aðstoð að halda. Ég hef ekki bara fengið mataraðstoð, heldur einnig fyrir fatnaði, æfingargjöldum og sumarfrístund fyrir eldri strákinn minn. Og fékk einnig aðstoð til að ferma strákinn minn. Ég hef ekki setið auðum höndum öll þessi ár, ég farið á námskeið og lét ein af mínum draumum rætast þegar ég fór í skóla sem þau hjá Hjálparstarfi kirkjunnar styrktu mig með.
Þegar ég skrifa þetta fæ ég hreinlega tár í augun því að þetta var ekki inn á mínu framtíðarplani. Ég er manneskja eins og hver annar. Ég var að ræða við vinkonu mína og samstarfskonu, sem ég vinn með í Pepp (samtök fátækra á Íslandi), hvað mig langar að losna við þessa tilfinningu og að þurfa ekki lengur að hafa áhyggjur. Losna við þessa hugsun um hvernig hver mánuður og hver vika verður hjá mér. Á þessum stað sem ég og fleiri erum á, þarf maður að spá í allt, það má ekkert klikka.
Þetta er brot af minni sögu. Og svona eru sögurnar hjá fleira fólki sem hefur verið í sömu stöðu og ég.
Í tvö ár hef ég verið að vinna með samtökum sem kalla sig Pepp á Íslandi. Þar kemur saman fólk sem býr við fátækt eða hefur lifa við hana og vill berjast gegn henni. Líka fólk sem hefur upplifað hvorugt en vill samt berjast gegn fátækt. Þetta er rosalega flottur og jákvæður hópur sem vill finna góðar lausnir til að útrýma fátækt. Við erum alltaf á vakt.
Í heilt ár hef ég unnið í verkefni sem heitir Breiðholtsbrúin og fer fram í Breiðholtskirkju. Þar er boðið upp á mat alla mánudaga. Tilgangur með þessu verkefni er að hjálpa fólki að komast út úr einangrun. Breiðholtsbrúin er samstarfsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar, Breiðholtskirkju og Pepp Ísland.
Hvað finnst mér hvað mætti betur gera og þarf að breyta? Það þarf stórt kraftaverk í húsnæðismálum og góðar lausnir til að breyta húsnæðismarkaðinum. Það þarf að grípa til aðgerða til að vinna gegn þeirri stöð sem sást í þeim skýrslum sem hafa verið unnar um fátækt á Íslandi. Það kom meðal annars fram að sex þúsund börn búa við fátækt. En það þarf að vinna með öðrum hópum líka, öryrkjum, ellilífeyrisþegum, þeim sem eru á skrá hjá félagsþjónustunni og svo er stór hópur láglaunafólks í fullri vinnu sem lifir við fátækt, stritandi fátækt. Það má svo ekki gleyma hópnum sem lifir við sára fátækt. Sá hópur var til fyrir Hrun og býr við enn verri stöðu í dag. Mér finnst þessi hópur hafa gleymst. Það talar enginn um hann.
Við erum fámenn þjóð sem býr í stóru landi. Við erum rík. Við getum haft samfélagið okkar miklu betra og gert betur við þau sem eru í mestri neyð.“
Hildur Oddsdóttir er í framboði fyrir Sósíalistaflokk Íslands í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík #valdiðtilfólksins