Jón Kristinn: Við eigum að geta gert vel við alla
29.04.2018
—
16. Jón Kristinn Cortez
Hin Reykjavík
Hin Reykjavík
„Ég er fæddur í hundraðogeinum en flutti sjö ára í Laugarneshverfið. Æskan var fín, þótt auðvitað hafi verið peningaleysi endrum eins. Pabbi vann ansi mikið, megnið hjá Íslenskum Aðalverktökum á Keflavíkurflugvelli, Gufuskálum og nefndu það, við sáum lítið til hans.
Þegar ég kom í MR ætlaði ég að taka því létt, leika sama leikinn og í grunnskóla, en þá var ég farinn að spila músík. Það eyðilagði MR fyrir mér og ég flosnaði upp úr námi, sem var mikið happ, því þá byrjaði ég að gera það sem mér þótti gaman. Ég fór að spila með hljómsveitinni Toxic í Breiðfirðingabúð, Silfurtunglinu og Glaumbæ og hóf síðar nám við Tónlistarskólann í Reykjavík.
Á þessum árum var mikil pólitík í gangi, en ég hafði ekki sérstakt skynbragð á hvað var að gerast. Maður hafði ekki tíma fyrir þetta, var bara að vinna, og tíðarandinn var þessi; að vinna nógu mikið til að fá þak yfir höfuðið. Ég man samt eftir gengisfellingunum. Þær voru alltaf sagðar vera þjóðhagslega hagkvæmar. Mér sýndust þær samt þjóðhagslega hagkvæmari fyrir suma en aðra. En ég fann ekki sérstaklega fyrir þeim fyrr en ég gifti mig.
Við hjónin byggðum okkur íbúð í Seljahverfinu. Maður hugsar ekki beint til þess með hryllingi, en díses hvað það var erfitt. Ég minnist þess að borða slátur í hvert mál, sem var búið að matreiða á alla mögulega og ómögulega vegu. Það eina sem maður óskaði sér var að eiga fyrir næsta reikning fyrir smíðunum. Við fórum inn um leið og húsið væri fokhelt og pípulagt og kláruðum verkið sjálf. Þetta eru auðvitað líka ánægjulegar minningar, frá tímum þar sem maður hafði vinnuþrek.
Um tíma kenndi ég tónlist við grunnskóla. Þá var vinnudagurinn andskoti langur, frá átta á morgnana og svo var spilað á kvöldin. Draumurinn var alltaf að komast til útlanda í nám, en ég átti ekki rétta foreldra. Þó hef ég talið mig heppinn að hafa ævistarf sem ég hef alltaf jafn mikla ánægju af, sem er bæði hobbí og vinna.
Þegar hrunið varð, og drottinn blessaði landið, þá hugsaði maður: díses hvað við vorum heppin að kaupa ekki bíl á jen-lánum. Við höfðum gamlar minningar um gengisfellingar sem gerðu okkur tortryggin gagnvart þeim, en bílakaup voru svo sem ekki mikið í talinu hjá okkur heldur. En konan mín missti séreignasparnaðinn og draumar um að eiga húsið okkar skuldlaust á ævikvöldinu voru fyrir bí.
Á þessum tíma var ég mikill stuðningsmaður Samfylkingarinnar og Jóhönnu, þar til hún sveik mig um nýja stjórnarskrá. Þá sagði ég mig úr flokknum. Stjórnarskráin hefur alltaf verið í fyrsta sæti hjá mér, út af þjóðareigninni á auð hafsins. Á Íslandi hefur lengi tíðkast að breiða yfir ranglæti með því að kalla það þjóðhagslega hagkvæmt, en þessi ríka þjóð á alveg að geta séð sínum þegnum fyrir öllu því sem nauðsynlegt er. Þetta hugsa ég um þegar ég keyri upp Hringbrautina og sé gömlu verkamannabústaðina. Með þeim var ekki bara reynt að redda þeim sem voru alveg baklandslausir, heldur var hugsjónin stærri. Við eigum að geta gert vel við alla.“
Jón Kristinn Cortez er í framboði fyrir sósíalista í Reykjavík #valdiðtilfólksins