Narirat: Myndi muna miklu ef leigan væri lægri
22.04.2018
—Hin Reykjavík
„Ég fæddist í Tælandi. Þegar ég var ung kom stundum íslenskur karl til mömmu. Eftir að ég varð tvítug vantaði konu í fjölskyldunni hans pössun, svo þau buðu mér að koma sem au pair til Akureyrar. Ég gerði það í eitt ár og leist ágætlega á Ísland, og fór eftir það að vinna hjá Samherja. Þegar Samherji lokaði vinnslunni 2008 fór ég til MS.
Fyrir nokkrum árum kynntist ég þýskum manni og flutti með honum út. En hann var alltaf að vinna og ég var alltaf heima. Ég var búin að læra íslensku en kunni enga þýsku, svo ég var alltaf bara að bíða eftir honum. Loks gafst ég upp á þessu og fór til Íslands aftur. Núna er hann alltaf að senda mér skilaboð, biðja mig að koma aftur. En ég segi honum bara: Nei, kom þú!
Þegar ég kom til baka fór ég að vinna hjá HB Granda. Það er mjög fínt, við fáum frítt strætókort og ódýran mat. Fyrst um sinn bjó ég í herbergi hjá einni vinkonu í tvo mánuði og annarri í sjö til átta mánuði, með tvö börn. Það var frekar þröngt um okkur. En svo var ég að fá úthlutað íbúð frá Félagsbústöðum, sem er mikill léttir. Það væri allt of dýrt fyrir mig að leigja með tvö börn, og það gengur ekki að vera öll í einu herbergi. Hér er ég mjög sátt, brosi eyrna á milli.
Yngri sonurinn minn er með bæklaðan fót. Við þurfum oft að fara til læknis að láta sníða á hann skó og spangir. Hann vex svo hratt, svo hann þarf alltaf nýja! Ég veit ekki hvort verkstjórinn er ánægður, ég þarf svo oft að skipta um vaktir til að komast með strákinn til læknis. En þeim ætti að fara fækkandi, þessum ferðum. Og til allrar lukku hjálpar Tryggingastofnun með kostnaðinn.
Það er svolítið vandamál að ég get bara unnið sjö tíma á dag, því það tekur svo langan tíma að koma börnunum í skólann og taka strætó í vinnuna. En í næsta mánuði kemst yngri sonurinn í leikskóla hérna við hliðina á húsinu okkar. Þá get ég bætt á mig hálftíma á dag. Það verður fínt, þá get ég átt smá fyrir húsgögnum hingað inn. Hingað til hef ég bara sótt það nauðsynlegasta úr Góða hirðinum. Leiguverðið er líka of hátt, þótt ég sé hjá Félagsbústöðum. Það myndi muna miklu fyrir mig ef íbúðaverð væri lægra.“
Narirat Prasunin er í framboði fyrir sósíalista í Reykjavík #valdiðtilfólksins