Natalie: Skylda mín að leggja megináherslu á málefni aldraðra og öryrkja
29.04.2018
—Hin Reykjavík
„Ég fæddist í Bandaríkjunum en var send til Íslands í pössun til afa og ömmu þriggja mánaða gömul, mamma mín sem sagt íslensk en pabbi bandarískur af afrískum uppruna. Svo fór að afi og amma ættleiddu mig og ég ólst upp hjá þeim í Þingholtunum og þar var gott að vera.
Skólagangan hófst í Ísaksskóla. Ég var eitt ár í Austurbæjarskólanum, þaðan lá leið mín í Suðurhlíðaskóla og svo í Hagaskóla í 9. – 10. bekk. Ég æfði nefnilega körfubolta með KR og fannst Hagaskóli liggja beinast við. Að lokinni útskrift úr Kvennó lagði ég m.a. stund á tungumálanám, heima og í útlöndum, en svo varð tónlistin æ stærri hluti af mínu lífi og nú sinni ég henni af lífi og sál.
Pabbi minn lést þegar ég var 15 ára. Það var sárt en afi hafði alltaf verið pabbi minn og amma mamma mín.
Ég kom heim frá Þýskalandi árið 2011 en afi minn, blindur öryrki, hafði þá greinst með krabbamein. Afi missti sjónina á báðum augum og hægri höndina 10 ára þegar tundurdufls hvellhetta sprakk, spilaði þó bæði á harmonikku og gítar, vann hjá Sambandinu og starfaði í Blindrafélaginu. Amma treysti sér ekki til að takast á við „kerfið“ fyrir hans hönd og ég steypti mér í þá ótrúlegu baráttu. Sú reynsla var bitur; að sjá hvernig réttindi manns sem hafði strögglað allt sitt líf við að standa við skuldbindingar sínar voru beinlínis reytt af honum í kjölfar hruns af völdum fjárglæframanna. Og nú tekst ég á við sama „kerfi“ fyrir hönd ömmu.
Sumum finnst kannski skrítið að plötusnúður, DJ, leggi megináherslu á málefni aldraðra og öryrkja í kosningabaráttunni en mér finnst það skylda mín í ljósi reynslu minnar af baráttunni fyrir hönd afa og ömmu. Ekki aðeins efnahagsleg málefni heldur ekki síður framkomu og þankagang gagnvart þessum samborgurum okkar og þær aðstæður sem þeim eru búnar. Ég vil stuðla að breytingum, breyta og bæta, og því er ég á lista Sósíalistaflokks Íslands í sveitarstjórnarkosningunum í maí.“
Natalie Gunnarsdóttir er í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn í Reykjavík #valdiðtilfólksins