Sólveig Anna: Grundvallarréttindi alls fólks að fá að njóta lífsins

Hin Reykjavík

6. Sólveig Anna Jónsdóttir
Hin Reykjavík

„Ég er fædd árið 1975 í Reykjavík. Foreldrar mínir fluttu þegar ég var fimm ára í verkamannabústað í Breiðholtinu og þar bjuggum við þangað til ég var 11 ára. Þá fluttum við í Fossvoginn, líka í verkamannabústaði. Foreldrar mínir unnu alltaf mjög mikið en það voru samt aldrei til miklir peningar heima hjá mér, blankheit voru staðreynd. Samt bárust þau aldrei nokkurn tíma á, sumarfríin voru í Munaðarnesi og á Eiðum og við keyrðum um á Wartburg og Skoda. Þau voru aðeins auðug af einu og það var menning. Bernskuheimili mitt var fullt af allskonar menningu, í bóka og blaðformi og ekki síst í tónlistarformi, en tónlistarsigurinn sem jazz er, menningarlegt afrek hinna píndu, kúguðu, arðrændu og þjáðu, var alltumlykjandi, nokkurskonar minnismerki um það að mannleg tilvera getur unnið fallegustu og mögnuðustu sigrana á kúgurunum einfaldlega með því að nota mennskuna til að rísa yfir niðurlægingu.

Ég bjó í Minnesota frá árinu 2000-2008 og eftir nokkurra ára dvöl þar fylltist ég brennandi löngun til að reyna að skilja í alvöru kerfið sem ég lifði inn í; kynþáttafordómana, misskiptinguna, hernaðarhyggjuna, ofbeldismenninguna, og svo það sem orsakaði allt þetta sem ég upplifði sem grundvallar misrétti og í raun samfélagslega glæpi, sjálfan kapítalismann. Það voru nokkur atriði sem gerðu það að verkum að mér fannst ég sjá inn í hjarta myrkursins en ég varð gríðarlega upptekin af því að fylgjast með fréttum þegar ég sá að fáfræði mín var vissu leiti glæpsamleg og mér bar siðferðileg skylda til að reyna að skilja hvers vegna farið var svo skelfilega illa með fólk.

Eitt af því sem hafði stórkostleg áhrif á mig var úttekt í virtu blaði um einkavæðingu elliheimila í Flórída en lýsingar á vanrækslu og niðurlægingu gamals fólks fylltu mig djúpri sorg og mér fannst óbærilegt að hugsa til þess að allar þessar mannlegu þjáningar væru til komnar aðeins vegna þess að einhverjir þyrftu að fá að græða peninga. Þessi lesning opnaði augu mín algjörlega og endanlega fyrir því hversu ógeðslegt það er að útbúa kerfi, sérhannað til að kapítalistar geti grætt á því sem gerir fólk að fólki, eins og því að upplifa veikindi og það að eldast.
Önnur svona upplifun var meðferðin á hermönnum sem höfðu slasast í hinum hræðilegu og glæpsamlegu innrásarstríðum blóðþyrstrar valdaelítu í Írak og Afganistan. Þeir þjáðust á fjársveltum og niðurníddum sjúkrahúsum þar sem rottugangur og legusár voru daglegt brauð, þrátt fyrir að hafa gert svokallaða skyldu sína á vígvöllum auðvaldsins. Þarna opinberaðist algjörlega fyrir mér að stríð kapítalískra heimsvaldasinna eru ekki saman sett af einum glæp hér og öðrum þar, heldur er lygin algjör og alls staðar og hvergi sannleiksörðu að finna, því að sjálfur grunnurinn, þjóðernishyggja notuð í þágu fésjúkrar og sturlaðar yfirstéttar, er stærsta lygin af öllum.

Að lokum nefni ég fellibylinn Katarínu, en í kjölfar hans afhjúpaðist endanlega fyrir mér ógeðslegur rasisminn sem gegnsýrir alla ákvarðanatöku þjóðríkisins, þegar stórkostlegur fjöldi svartra Bandaríkjamanna var látinn drukkna á meðan stjórnvöld spiluðu golf og keyptu sér lúxusvarning, algjörlega áhugalaus um þjáningar þeirra svörtu og fátæku. Á meðan fólk var bókstaflega að deyja voru fjölmiðlar fullir af fréttum um þjófnaði úr verslunum í New Orleans, þegar fólk í neyð var einfaldlega að verða sér út um mat og drykk. Á þessari stundu sá ég fullkomlega sjúkleika samfélagsins og það fyllti mig angist að geta ekkert gert nema vona að siðvillingarnir við völd hlytu makleg málagjöld, þrátt fyrir vitneskju um að slíkt væri aldrei að fara að gerast.

Árið 2008 flutti ég ásamt fjölskyldu minni aftur til Íslands. Ég hafði ekki hugmynd um það hversu æðisgengnum árangri spillt valdastétt í samvinnu við kapítalista, hafði náð í því að láta óra hugmyndafræðinga nýfrjálshyggjunnar verða að veruleika og gekk því algjörlega grunlaus beint í fangið á hruninu. En á undarlegan máta var ég gríðarlega vel undirbúinn, vegna þess að dvölin í úrkynjuðu heimsveldinu var á endanum besti skólinn þegar kom að því að skilja og berjast við konsensus þann að þrátt fyrir allt saman, þrátt fyrir spillinguna, vanhæfnina og yfirborðsmennskuna, væri samt alltaf best að rugga engum bátum og leyfa valdastéttinni að halda áfram óáreittri að stjórna. Sem róttækling og einhverskonar kunnáttumanneskju í brjálsemi hinnar kapítalísku yfirstéttar fannst mér kröfur um slíkt í besta falli hlægilegar og í versta falli glæpsamlegar og ég gladdist mjög yfir því að fá loksins tækifæri til að mótmæla hátt, mikið og oft firringu og glæpum nýfrjálshyggjunnar. Ég dembdi mér út í aktivisma og á árunum eftir hrun starfaði ég með hinum og þessum, stofnaði Attac á Íslandi með frábærum félögum en við vorum m.a. virk í baráttunni gegn fjármagnsöflunum og vorum t.d. í fámennum hópi Íslendinga sem gagnrýndi og hafnaði Icesave á forsendum andstöðunnar við kapítalismann. Það kom mér mjög á óvart á þessum árum að á meðan við í Attac upplifðum mikinn og góðan stuðning frá félögum okkar víðs vegar um heiminn, fólki sem upplifði alveg eins og við að baráttan gegn Icesave snerist ekki síst um lýðræðislegan rétt almennings til að hafna því að bera byrgðar auðstéttarinnar, þá voru íslensku vinstriflokkarnir algjörlega helteknir af því að sanna fyrir alþjóðlegum kapítalistum að Ísland ætlaði sannarlega að halda áfram að spila eftir leikreglum þeirra, þrátt fyrir að heimsmyndin sem þeir höfðu skapað, væri hrunin sökum innbyggðra mótsagna og grundvallar glæpa-eðlis. Þetta, ásamt öðru, m.a. þátttöku vinstri stjórnarinnar í hinni viðbjóðslegu árás á Líbíu, þrátt fyrir háfleyg orð um friðarstefnu, gerði það að verkum að ég gafst algjörlega upp á hinu hefðbundna íslenska vinstri, og upplifði mjög sterkt að á milli skoðana minna og þeirra væri í raun grundvallarmunur þannig að það væri hrein tímasóun að vinna innan vébanda hinna ó-róttæku vinstri flokka.

Ég starfaði einnig með No Borders, kannski fyrst og fremst vegna þess að ég einfaldlega þoldi ekki að stjórnmálastétt vesturlanda tæki ávallt þátt í því að kasta sprengjum í brúnt fólk í fjarlægum löndum annars vegar en tæki svo aldrei nokkra ábyrgð á hörmungunum sem fylgdu í kjölfarið, hvorki pólitíska né siðferðilega og neitaði að koma örvæntingarfullu fólki til aðstoðar, neitaði td. að beita sér fyrir úrbótum eða afnámi á meingölluðu og sjúklega grimmu kerfi því sem Útlendingastofnun styður sig við. Skeytingarleysi valdafólks gagnvart þeim sem þurfa skjól og aðstoð hættir aldrei að koma mér á óvart. Þarna sést svo greinilega kerfisbundin útlendingandúð sú sem gegnsýrir allt stjórnkerfið.

Árið 2012 fylltist ég miklum áhuga á stöðu láglaunakvenna á íslenskum vinnumarkaði. Ég er sjálf ómenntuð laglaunakona og hafði verið í fullri vinnu sem slík frá 2008. Allt í einu gat ég ekki lengur litið fram hjá því að ég sjálf, ásamt samstarfskonum mínum, var sannarlega fórnarlamb kvalalosta hinna samtvinnuðu kerfa kúgunnar: Kapítalismans og kvennakúgunarinnar. Ég hafði alltaf litið á sjálfa mig sem femínista, en allt í einu fór ég að velta því fyrir mér hvað það þýddi að vera femínisti í samtímanum. Fólk sem sá ekkert athugavert við stéttaskiptingu og arðrán kallaði sig femínista eins og ekkert væri og krafan var sú að við, láglaunakonurnar sem strituðum til þess eins að eiga fyrir nauðsynjum, gleddumst yfir sigrum kvenna innan kerfis nýfrjálshyggjunnar, sýndum samstöðu með þeim sem ekki svo mikið sem litu í átt að okkur öðru hvoru.

Allt í einu gat ég ekki hætt að hugsa um hvað þetta var algjörlega svívirðilegt og á skjön við allt það sem ég taldi vera femínisk gildi; samhygð, samstöðu, baráttu gegn kerfisbundnu óréttlæti, baráttu gegn gömlum og grimmum gildum arðránskerfisins um að sumt fólk sé einskis virði, baráttuna fyrir friði o.s.frv. Allt í einu fór ég að hugsa: Hvernig stendur á því að femínisk barátta samtímans á Íslandi beinir sjónum sínum aldrei að stöðu verka og láglaunakvenna? Hvernig stendur á því að femínisk barátta hefur meiri áhuga á framgangi kvenna innan karla-kerfanna heldur en því að umbylta þessum kerfum svo að öll fái að blómstra á eigin forsendum? Hvernig stendur á þessari undirgefni og þessu samþykki á kapítalismanum og nýfrjálshyggjunni?

Ég las Nancy Fraser sem hafði mikil áhrif á mig en gagnrýni hennar á samkrull femíniskrar baráttu á vesturlöndum við nýfrjálshyggjuna og hegemóníu-verkefni hennar opnaði augu mín algjörlega fyrir hinum stórkostlega galla á meginstraums kvennabaráttu nútímans; að hafna því sem er auðvitað algjört grundvallaratriði: Baráttunni fyrir efnahagslegu frelsi kvenna af lægri stéttum og kröfunni um efnahagslegt réttlæti í samfélaginu, sem eitt sinn var auðvitað eitt af aðalatriðum hinnar alþjóðlegu kvennahreyfingar. Upp úr þessu fór ég að kalla mig sósíalískan femínista og kalla mig það enn, enda hefur ekkert breyst og því engin ástæða til að breyta um kúrs.

Ekki aðeins varð ég á þessum tímapunkti upptekin af því að skilja hvað fælist í femíniskri baráttu heldur varð ég fljótlega sannfærð um að verkalýðsbarátta væri á endanum eina leið láglaunakvenna til frelsunar, vegna þess að á endanum var eina valdið sem við höfðum aðgang að vald okkar sem vinnuafls. Ég las mér til um stórmerkilegar kven-verkalýðshetjur, aðallega í Bandaríkjunum og varð mjög innblásin af afrekum þeirra. Ég horfðist í augu við að við láglaunakonurnar áttum okkur bókstaflega enga málsvara hér á Íslandi samtímans og það eru ekki einu sinni ýkjur; enginn talaði máli okkar, enginn stóð með okkur í erfiðleikunum við að komast af, enginn viðurkenndi stórkostlegt mikilvægi okkar á vinnumarkaði og enginn tók að sér að semja fyrir okkar hönd svo nokkur sómi væri að. Þegar ég horfðist í augu við þetta, að ekki aðeins væru engin stjórnmálaöfl sem hefðu áhuga á lífskjörum okkar heldur væri forysta okkar eigin verkalýðshreyfingar líka búin að samþykkja að það væri einfaldlega hlutverk okkar að vera vinnuafl á niðursettu verði fylltist ég gríðarlegri bræði. Eldheit bræðin breyttist í fullvissu um það að ég sjálf þyrfti að stíga fram og tala máli láglaunakvenna, að ég gæti ekki beðið eftir því að annað fólk tæki það að sér, enda þyrfti ég þá að bíða að eilífu.

Fyrir okkur sem tilheyrum stétt verkafólks og láglaunafólks hefur svo ótrúlega margt um eðli samfélagsins og kerfisins afhjúpast á síðustu áratugum. Við vorum fórnarlömb glæpa kapítalismans þegar fótunum var kippt undan okkur í efnahagslegu tilliti en við það var auðvitað ekki látið sitja, heldur vorum við látin bera ábyrgð á brjálseminni enda er það eitt af aðalsmerkjum nýfrjálshyggjunnar; að láta almenning ávallt axla byrðarnar eftir óhófsverk auðstéttarinnar til að tryggja að auðurinn haldi áfram að renna í rétta átt, upp á við til þeirra sem una sér ekki hvíldar fyrr en allt er komið í þeirra hendur. Auðvitað er ótrúlegt að sjá það hversu áhangendur markaðstrúarinnar eru forhertir og algjörlega ófærir um að horfa í eigin barm, algjörlega ófærir um að viðurkenna að uppspretta þeirra stórkostlegu vandamála sem heimsbyggðin glímir nú við eins og skelfilegan ójöfnuð, umhverfiskatastrófu af áður óþekktri stærð, misnotkun á vinnuafli um alla veröld og algjörlega hömlulausa græðgi og grimmd efnahagslegrar yfirstéttar, en uppsprettan er auðvitað og augljóslega kapítalisminn.

En það er líka gott að geta loksins sagt: Það fer ekki lengur á milli mála hvernig hlutunum er hagað í samfélaginu og það fer ekki lengur á milli mála við hverja við erum að berjast. Hið fornkveðna er nefnilega rétt: Sannleikurinn mun gera okkur frjáls, og fyrsta skrefið í átt að frelsi er að horfast í augu við það sem heldur okkur ófrjálsum.

Sósíalistar erum í raun raunsæjasta fólkið á pólitíska sviðinu; við horfumst í augu við vandann sem er efnahagskerfi arðránsins, drögum ekki úr honum og mætum honum með lausnum. En við erum líka bjartsýnasta fólkið og tökum ekki þátt í því að draga úr væntingum fólks til samfélagsins, líkt og hinir hefðbundnu vinstri flokkar gera vegna þess að þeir trúa því, þrátt fyrir allt saman, að best sé á endanum að leyfa efnahagslegri yfirstétt að skipuleggja tilveruna, að hlutverk vinstrisins sé aðeins að fá að hafa örlítið taumhald á hinum raunverulegu stjórum, fulltrúum auðstéttarinnar. Við sósíalistar trúum á drauminn um frelsi, jafnrétti og bræðralag, á samfélag byggt á gildum samhygðar, samvinnu og samhjálpar. Við trúum því að það sé grundvallarréttindi alls fólks að fá að njóta lífsins, njóta þess að vaxa og dafna á eigin forsendum og njóta þess að slaka á, í þeirri vitneskju að við eigum aðeins eitt líf og því er algjörlega fráleitt að eyða því í áhyggjur, stress og endalausa vinnu. Við trúum því að á endanum sé ekki hægt að sætta sig við neitt minna en raunverulegt frelsi og vitum að án efnahagslegs frelsis vinnandi fólks eru aldrei hægt að byggja samfélag raunverulegs réttlætis og jöfnuðar.

Karl Marx ritaði ein mest hjartskerandi orð sem til eru: Tíminn er allt, maðurinn ekkert, hann er í mesta lagi hræ tímans. Og á endanum lít ég svo á að um þetta snúist barátta sósíalista: Að við, manneskjur, fáum að vera eitthvað meira en hræ tímans, að við fáum loksins að ákveða sjálf hvernig við lifum, að við fáum að ákveða hvað við þurfum til að lifa góðu lífi, að við fáum að ráða yfir eigin tilveru, í þeirri vitneskju að líf hverrar manneskju er einstakt og af þeirri einföldu ástæðu er ekki ástæða til neins annars en að krefjast þess sem okkur dreymir um: Líf án arðráns.“

Sólveig Anna Jónsdóttir er í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn í Reykjavík#valdiðtilfólksins

Kjósið Sósíalistaflokkinn

Stefna

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram