Sólveig: Ójöfnuðurinn í samfélaginu er ekki lögmál – það er mannanna verk

Hinn Kópavogur

12. Sólveig María Þorláksdóttir
Hinn Kópavogur

„Ég er fædd og uppalin í sveit austur á fjörðum, nánar tiltekið í sveitinni á Norðfirði. Líkt og aðrir krakkar í sveit á þessum tíma fór ég mjög snemma að taka þátt í verkefnum sem vinna þurfti á stóru heimili. Ég fór svo sem unglingur að vinna á sumrin í frystihúsi út á Neskaupstað, við unnum oft langan vinnudag þar. Ég kláraði gagnfræðapróf og eftir það lá leiðin til Reykjavíkur þar sem mig langaði til að læra að gerast tónmenntakennari. Til að gera langa sögu stutta þá breyttist sú áætlan mín og ég fór endanlega út á vinnumarkaðinn. Fljótlega fór ég að starfa við skrifstofustörf og hef haldið mig við þann vettvang sl. 40 ár. Ég hef alltaf unnið 100 % starf utan heimilis og oft rúmlega það.

Fyrstu árin mín hér á höfuðborgarsvæðinu var ég á leigumarkaði. En á því herrans ári 1981 keypti ég mína fyrstu íbúð, en þá var ég komin með tvær litlar dætur og því ótryggt að vera á leigumarkaði þar sem alltaf vofði yfir sú hætta að missa húsnæðið. Ég keypti litla 3ja herbergja íbúð í blokk. Auðvitað átti ég engan pening til að leggja í íbúðarkaupin og þurfti því að taka lán fyrir allri upphæðinni. Á þessum tíma var verðtryggingin komin til sögunnar á öll lán til íbúðarkaupa og eftir þessi kaup varð ég eins og þræll sem barðist við að vinna fyrir afborgunum lána og hafa ofan í okkur og á.

Upphaflega var verðtryggingin sett bæði á lán og líka laun en eftir 2 eða 3 ár var verðtryggingin tekin af launum en ekki af lánum. Sjálfstýringin á vaxtaokrið var komin til að vera, bankar og aðrar lánastofnanir bólgnuðu út en við almenningur duttum inn í hamstrahjólið og gerðumst þreytt þar. Ég vil helst sem minnst hugsa um það hvað ég er búin að greiða í gegnum tíðina í vexti og verðbætur vegna húsnæðiskaupa og er því miður enn á bólakafi í vaxtaokrinu þar sem ég þurfti nánast að byrja upp á nýtt að byggja mér upp heimili þegar ég var í kringum fimmtugt. Ég er samt heppnari en margir sem hafa verið í minni stöðu að því leyti, að ég hef ekki verið láglaunamanneskja. Þrátt fyrir að ég sé ekki með neina stóra háskólagráðu þá er ég í góðu starfi og hef verið metin þar af verðleikum.

Hvað pólitíkina á Íslandi varðar er ég lengi búin að vera nánast skák og mát. Þegar hrunið varð þá blasti dökk mynd við okkur sem höfðum fram til þess tíma talið að við værum með menn í vinnu bæði á alþingi og eins í vinnu við að passa upp á að farið væri eftir lögum og reglum í samfélaginu. En nei, við vöknuðum upp við þann vonda draum í miðju góðærinu að glæpamenn höfðu með einbeittum brotavilja náð því fram að mergsjúga hagkerfið okkar og oft koma auðnum undan í skattaskjól á aflandseyjum. Spillingin og valdníðslan í samfélaginu okkar blasti við, og blasir enn við, því aldrei hefur hún verið grímulausari en nú. Nú er verk að vinna við að koma þessum valdaklíkum frá, sjálftökuliði sem hér stjórnar öllu í krafti auðs og valda sem peningarnir færa mönnum.

Við stofnun Sósíalistaflokks Íslands sá ég að þar var komið afl með markmið sem samræmdist öllum mínum gildum þ.e. jöfnuður, samkennd og frelsi. Ég hef sterka réttlætiskennd og hreinlega þoli ekki að horfa hjálparlaus upp á það hvernig þeir ríku verða sífellt ríkari og hversu nákvæmlega þeim stendur á sama um aðra. Eina sem vakir fyrir þeim er að safna meiri auði. Í hugarheimi sjálftökuliðsins á fólk sem varla á til hnífs og skeiðar að færa fórnir til þess að viðhalda “stöðugleikanum” svokallaða.

Okur á leigumarkaði er augljóst dæmi sem blasir við okkur í dag, á markaði þar sem fjárfestar hafa komist upp með að byggja upp veldi sitt — allt á kostnað þeirra sem misstu húsnæðið í bankahruninu og þeirra sem ekki hafa efni á að kaupa sér þak yfir höfuðið á uppsprengdu verði. Allt er þetta gert í boði stjórnvalda og hagsmunaklíkunnar sem heldur fast um stjórnartaumana.

Við sjáum þessa aðila auka hagnað sinn með lágmarkslaunum til sem flestra stétta og hreinlega verður að segjast eins og er að við verðum vitni að algjörlega siðlausri framkomu varðandi erlent vinnuafl, bæði hvað varðar laun og aðbúnað.

Ég gæti haldið lengi áfram í þessum dúr, ég er svo reið og vonsvikin inn í mér yfir hvernig samfélagið á okkar litla landi hefur þróast í gegnum tíðina. Við sem gætum öll haft það svo gott á þessu landi sem gaf okkur frá náttúrunnar hendi auðlindir á borð við heitt vatn, orku, nægar uppsprettur hreins vatns og gjöful fiskimið.

Það sem brennur á mér er að taka þátt í því að byggja upp samfélagið mitt hér í Kópavogi, þannig að við getum öll vel við unað. Það er nefnilega þannig að við getum hvert og eitt lagt okkar að mörkum við að breyta og bæta samfélögin sem við búum í. Við erum öll einstök — við skiptum öll máli — og eigum heilagan rétt til að geta notið lífsins á jafnréttisgrundvelli.

Við verðum að sjá til þess að allir hafi aðgang að mannsæmandi húsnæði, það sé heilagur réttur hvers og eins. Við þurfum að tryggja öryggi eldri borgara sem þurfa á hjálp að halda, hvort sem það er í formi hjúkrunarheimila eða íbúða á vegum sveitarfélagsins. Sama gildir um þá einstaklinga sem enn geta að stóru leyti hugsað um sig sjálfir. Við þurfum að hækka laun allra sem vinna fyrir sveitafélagið, þ.e. við aðhlynningu og eins laun fólks sem vinnur í skólunum okkar. Þar á ég sérstaklega við leikskóla og grunnskóla. Það er nefnilega ekki nægjanlegt að tala á tyllidögum um framtíðarauðinn sem sem liggur í börnunum okkar og mannauðinn sem starfar á þessum stöðum. Já mannauðurinn er svo sannarlega fyrir hendi á þessum vinnustöðum sem og öðrum. En þetta fólk þarf bæði að fá mannsæmandi laun fyrir sína dýrmætu vinnu og eins góðan aðbúnað á vinnustað.

Og ég vil minna á að sameinuð stöndum við til allra góðra verka. Látum ekki auðvaldið og elítuna lengur heilaþvo okkur með endalausum áróðri um það hversu allir hafi það gott á Íslandi og að allir hafi hér sömu tækifæri. Það er einfaldlega ekki rétt. Gleymum því ekki að spillingin og ójöfnuðurinn í litla samfélaginu okkar er ekki lögmál – það er einfaldlega mannanna verk. Færum valdið til almennings í landinu“.

Sólveig María Þorláksdóttir er í framboði fyrir sósíalista í Kópavogi #valdiðtilfólksins

Kjósið Sósíalistaflokkinn

Stefna

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram