Vilhelm: Já, ég er kommi og ég er stoltur af því

Hin Reykjavík

40. Vilhelm G. Kristinsson
Hin Reykjavík
Þegar ég var að alast upp meðal alþýðufólks á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar, var „kommi“ mikið skammaryrði borgarastéttarinnar og notað yfir alla þá sem kysstu ekki skilyrðislaust á vöndinn. Langafi minn sem ól mig upp, vinstrikrati af gamla skólanum og verkalýðshetja frá Patreksfirði, þurfti að sitja undir þessu skammaryrði, en notaði sjálfur aldrei þetta orð sem hnjóðsyrði; hafði hljóðláta samúð með sönnum kommum og leit fremur á þá sem bandamenn en andstæðinga. Í hans huga var „íhald“ mun verra en „kommi“. Það var langafa mínum mjög þungbært að horfa upp á flokkinn sinn, Alþýðuflokkinn, breytast í það sem hann nefndi spillta hækju íhaldsins.
 
Móðurafi minn var hins vegar „hreinræktaður kommi“ og bar mikla virðingu fyrir Einari Olgeirssyni og Sovétríkjunum. Hann var verslunarstjóri hjá KRON, kaupfélagi hinna vinnandi stétta; ávallt fínn í tauinu, í stífstrauaðri hvítri skyrtu með bindi og velburstuðum skóm. Ekki er ólíklegt að hann hafi verið nefndur „stofukommi“ eða „sófakommi“ af borgarastéttinni, án þess ég viti það. En þrátt fyrir klæðaburðinn og rakspírann hafði hann ríka samkennd með þeim sem minna máttu sín og lagði sitt af mörkum í baráttuni fyrir réttlátara samfélagi.
 
Ég fór snemma að íhuga pólitík og vafalaust voru hugmyndir mínar mótaðar áhrifum frá öfum mínum. Þannig vafðist mjög fyrir mér hvernig „kommi“ gæti verið skammaryrði, því „kommar“ berðust fyrir réttlæti til hinna undirokuðu, fátæku og sjúku. En „kommarnir“, sem gátu verið í hvaða stjórnmálaflokki sem var, kannski að einum undanskildum, ógnuðu veldi hinna ríku, forréttindastéttarinnar sem skammtaði alþýðunni skít úr hnefa og því mátti ekki spara þeim hnýfilyrðin. Ég bar hugmyndir mínar ekki á torg; í mínum huga var mikilvægara að eiga góðan félagsskap og spila fótbolta með strákunum í hverfinu, sem flestir voru úr borgarastétt, heldur en að standa í pólitísku orðaskaki. Ef til vill var það veikleikamerki.
 
Tíminn leið, hugmyndirnar þroskuðust smátt og smátt og þar kom að því upp úr 1960 að ég gekk fyrst Keflavíkurgöngu til þess að mótmæla herstöðinni á Miðnesheiði og yfirgangi Bandaríkjamanna víðs vegar. Á leiðinni heim í Hagavagninum eftir gönguna hitti ég strák úr hverfinu, son mjög umsvifamikils heildsala. Hann hafði farið niður í miðbæ til þess að horfa á gönguhyskið staulast síðustu metrana og komið auga á mig í hópnum. Og þá sagði hann í vagninum þessa setningu, sem enn hljómar í huga mér, enda sögð af miklum tilfinningum og botnlausri fyrirlitningu: „Villi, ekki vissi ég að þú værir kommi!“. Þegar ég hafði melt þessa yfirlýsingu eitt andartak gerðist nokkuð merkilegt: Í huga mér birtust svipmyndir úr verund leikfélaga míns: Vínberjatunnurnar og eplakassarnir, rándýru reiðhjólin, fallegu fötin af nýjustu tísku, utanlandsferðirnar, fínu bílarnir, kvikmyndatökuvélarnar, bjarndýrsfeldurinn á stofugólfinu, nautasteikurnar, kanasjónvarpið og erlenda vinnukonan í kjallarakytrunni. Og ég svaraði: „Já, ég er kommi og ég er stoltur af því“.
 
Vilhelm G. Kristinsson er í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn í Reykjavík #valdiðtilfólksins

Kjósið Sósíalistaflokkinn

Stefna

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram