Ynda: Ekki aumingjavæðing að styðja þá sem eiga við veikindi að stríða

Hin Reykjavík

25. Ynda Gestsson
Hin Reykjavík

„Ég heiti Ynda Gestsson og er Reykvíkingur í þriðja og fjórða lið og hef unnið ýmis störf. Eftir að hafa fengist við sölu- og lagerstörf, öryggisvörslu, hreingerningar, póstafgreiðslu, bókmenntagagnrýni, skáldskap  o.fl. störf lauk ég BA prófi í sagnfræði frá HÍ árið 1997 með pólitíska sögu og listasögu að megin viðfangsefnum.

Ég á tvö uppkomin börn og tvö barnabörn.

Árið 1999 hélt fjölskyldan til Leicester á Englandi þar sem ég lét langþráðan draum rætast og lauk MA prófi í listfræði frá De Montfort University árið 2000. Að auki lauk ég MA prófi í safnafræði frá University of Leicester árið 2002 og kom svo útúr skápnum sem hinsegin árið 2008.  Ég útskrifaðist síðan með doktorspróf í safna- og gallerífræðum frá University of Leicester árið 2010.

Þegar farið var að hylla undir lok námsins hrundi efnahagskerfið á Íslandi. Það hafði þau áhrif á mig og mitt líf að pundið rauk upp og peningar sem áttu að duga til framfærslu fyrir mig og yngra barnið mitt gufuðu upp allt of hratt. Eftir að ég hafði borgað leigu og reikninga var ekkert eftir fyrir mat, þannig að ég þurfti að fara að vinna ýmis lausastörf m.a. við háskólann og tafði það námið um sinn auk þess sem ég slasaðist í bílslysi árið 2007 sem hamlaði getu minni til vinnu. Það voru mjög erfið ár fyrir okkur tvö.

Eftir að hafa reynt fyrir mér í harðnandi frjálshyggjukapítalisma íhaldsflokksins á Bretlandi, og verið atvinnulaus um langt skeið ákvað ég að flytja aftur til Íslands haustið 2014 og hef síðan verið stundakennari í listfræði við HÍ og LHÍ auk þess að kenna listasögu við Myndlistaskólann í Reykjavík. Einnig hef ég byrjað að hasla mér völl sem sjálfstætt starfandi fræðimanneskja síðustu árin.

Þeir sem hafa reynt sig í starfi stundakennarans þekkja vel réttindaleysi okkar. Við höfum ekkert tækifæri til að vinna okkur inn punkta í akademíska kerfinu m.a. með greinaskrifum og höfum því takmarkað svigrúm til að festa okkur í sessi og njótum ekki starfsöryggis. Ég finn sérlega fyrir þessu núna þegar efri árin eru farin að banka í bakið á mér. Auk  þess er ekki litið á stundakennara sem samningsaðila og verða þess að fá að greiða í stéttarfélag. Því miður virðast stéttarfélög ekki hafa mikinn áhuga á að taka réttindi okkar inn í kjarasamninga.

Auk þess að búa við algert öryggisleysi sem stundakennari hef ég verið atvinnulaus um lengri og skemmri tíma milli verkefna. Ég veit að ég er ekki ein í þessum sporum og að þurfa að auki að glíma við að borga af háum námslánum gerir lífið ekki einfaldara.

Skömmu eftir að ég kom aftur til Íslands gekk ég til liðs við Samtökin ´78 og hef unnið þar sem sjálfboðaliði. Ég lagði grunn að Galleríi 78 sem hóf starfsemi í húsi samtakanna í október 2015 og hefur starfsemin notið stuðnings stjórnar og framkvæmdastjóra frá byrjun. Með þessu starfi hefur verið hægt að hvetja fólk til lifandi þátttöku í skapandi listrænu starfi og sýningarstjórnun. Galleríið sýnir eingöngu myndlist hinsegin listafólks (LGBTIQAK+) og opnaði fjórtánda sýningin nýlega.

Ég vil efla menningu, listir og menntun í borginni og tryggja að börn og ungt fólk hljóti stuðning þeirra sem eldri eru til að framkvæma sínar eiginn byltingar og umskipti því þau eru með eyrun við jörðina og heyra hófatak framtíðarinnar.

Það er mér mikið kappsmál að halda áfram að efla mannréttindabaráttu hinsegin fólks í Reykjavík og styðja hælisleitendur til lifandi þátttöku í samfélaginu. Það sama á við um aldraða, öryrkja og aðra hópa sem eiga undir högg að sækja. Tími ómaganna er liðinn og ungir og gamlir þurfa að eiga vísan stuðning ef eitthvað bjátar á. Það er ekki í mínum augum aumingjavæðing að styðja þá sem eiga við erfið andleg og líkamleg veikindi að stríða og geta þess vegna ekki tekið þátt í vinnumarkaðnum. Daglega les ég fréttir af dauðsföllum aldraðra og öryrkja á Bretlandi sem hafa lent í hræðilegri kvörn starfsgetumats sem rekið er af harðlyndum einkafyrirtækjum í umboði auðvaldssinnaðra stjórnvalda. Slíkt má ekki gerast í Reykjavík.

Húsnæðismál eru annað brýnt málefni. Það er full þörf á að efna til félagslegrar byggingaráætlunar sem tryggir borgarbúum ódýrt og traust húsnæði til frambúðar svo við þurfum ekki að greiða okurleigu langt umfram getu bara til að njóta þeirra grunn réttinda að hafa þak yfir höfuðið.“

Ynda Gestsson er í framboði fyrir sósíalista í Reykjavík #valdiðtilfólksins

Kjósið Sósíalistaflokkinn

Stefna

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram