Lýðræði vætlar ekki niður – það rís upp

Benjamín Julian Staðreyndir

Í aldanna rás hefur lítil klíka ríks fólks og stjórnmálamanna farið með völd í langflestum samfélögum. Þessi misdreifing valds er sláandi, bæði í þingræði og í einræði. Alls staðar þiggja almennir borgarar skipanir frá yfirvöldum, lögreglu, embættismönnum og stundum einræðisherrum. Borgararnir gefa ekki skipanir sjálfir, heldur fá þeir stundum að tjá forgangsröðun sína um afmarkaðan þátt ríkisstarfseminnar í formi krossaspurningar. Þessar smávægilegu kosningar eiga að réttlæta að ríki kallist lýðræðisleg. Það er rangnefni.

En hvað er þá réttnefnt lýðræði?

Þegar Alexis de Tocqueville ferðaðist um Bandaríkin og skoðaði stjórnmálin þar uppúr 1831 var júlíbyltingin nýbúin að fleyta enn einum Loðvík til valda heima í Frakklandi. Tocqueville sá að Bandaríkjamenn stærðu sig af ítökum almennings í stjórnmálum lands síns, en fannst munurinn milli landanna ekki liggja í neinum grundvallaratriðum. Sú hugmynd að almenningur ráði væri meira eða minna „í grunni allra mannlegra stofnana“.¹ Vald hans væri vissulega „óskýrara, síður augljóst og minna staðfest í lögum“ gagnvart kóngi Frakka en gagnvart forseta Bandaríkjamanna, en væri þó yfir báða þeirra sett. „Í Ameríku verkar það með kosningum og úrskurðum, í Frakklandi með byltingum“.² Alexis sá skýrt og greinilega að lýðræði er ekki einfaldlega af eða á, heldur gæti það verið misgott, til dæmis eftir því hve ströng skilyrði væru um kosningarétt.³

Lýðveldi
Á sama hátt og kosningar eru ekki eina leiðin til að hafa áhrif á yfirvöld í lýðveldum, þá eru byltingar það ekki heldur í konungsríkjum. Uppreisnir og óeirðir voru áður fyrr álitin, bæði af almenningi og yfirvöldum, eðlileg aðferð til pólitískrar tjáningar.⁴ Vissulega var talað um „múginn“ af mikilli fyrirlitningu, en hann var ekki hunsaður. Reynt var að beisla hann og halda honum í skefjum með bitlingum, en fá kerfi virðast hafa náð að sefa fólk betur en þau sem bjóða reglulega uppá almennar kosningar, svokölluð lýðveldi. En jafnvel þar hafa óeirðir sinn þátt í stjórnarfarinu, sérstaklega í djúpum efnahagskreppum.

Í lýðveldi þiggur almenningur skipanir frá yfirvöldum sem hann fær að manna að litlu leyti á óbeinan hátt á nokkurra ára fresti. Þetta er ekki lýðræði í neinni djúpstæðri merkingu, en í slíku felst að ákvarðanir og vald spretti frá almenningi. Þessháttar fyrirkomulag hefur hinsvegar sætt óttablandinni og taugaveiklaðri gagnrýni af hálfu vel stæðra manna í nokkurþúsund ár, enda byggir staða þeirra á að samfélagslegum og efnahagslegum ójöfnuði sé viðhaldið.

Til dæmis hefur allt frá blábyrjun pólitískrar heimspeki verið álitið vandamál við lýðræði að í því muni hinir fátæku reyna að endurdreifa eignum fámennrar auðstéttar.⁵ Mörgum af stofnfeðrum Bandaríkjanna var þetta hugleikið, enda voru þeir nær allir auðmenn sjálfir,⁶ og á stjórnlagaþinginu árið 1787 mátti heyra þá kveinka sér undan múgnum og „ótrúlegu ofbeldi og óreiðu lýðræðisandans.“⁷ „Almenningur ætti að hafa sem minnst að segja um ríkisstjórnina,“ básúnaði Roger Sherman. Elbridge Gerry tók undir og sagði að vandamálin þeirra mætti rekja til „ofgnóttar lýðræðis“.⁸ James Madison taldi að útbreiðsla hugmynda um efnahagslegan jöfnuð myndi skapa „hættur í framtíðinni“.⁹ Landeigendur yrðu að eiga hlut í ríkinu til að „vernda hinn auðuga minnihluta gegn meirihlutanum.“¹⁰

Þessir menn, stofnfeður Bandaríkjanna, skrifuðu stjórnarskrá landsins, margir hverjir með þessar vangaveltur í huga. Verkefni þeirra var í stuttu máli ekki að koma á fót lýðræði, heldur að hefta það og beisla.

Að ráða og velja
Norður-ameríska byltingin, líkt og sú franska, varð í einni af stóru byltingaröldum sögunnar, þeirri sem sagnfræðingurinn R. R. Palmer kallaði „lýðræðisbyltinguna“.¹¹ Orðið „lýðræði“ var þó ekki almennt notað um hinar nýju stjórnarhugmyndir fyrr en löngu eftir að þeirri byltingu var lokið. Robespierre notaði það þó í nokkuð nútímalegri merkingu nokkrum mánuðum áður en fallöxin þaggaði endanlega niður í honum. Hann sagði í febrúar 1794 að raunverulegt lýðræði fælist í „jöfnuði og fullum borgaralegum réttindum“ til handa öllum mönnum. Lýðurinn væri fullvalda, „gerir allt sjálfur sem hann getur, og með hjálp fulltrúa það sem hann getur ekki“.¹²

Það er vert að benda á kaldhæðnina í því að vænisjúkur einræðisherra skyldi hafa sett fram þessa nútímalegu skilgreiningu „lýðræðis“. Hann, líkt og þorri einræðisherra á eftir honum, rökstuddi tilkall sitt til alvalds með því að segja sig vera einmitt slíkan fulltrúa almannaviljans, og lét skína í að það sem almenningur „gæti ekki“ gert (og þyrfti þar með sína hjálp við) væri næstum allt. Samkvæmt þessu viðhorfi þýðir lýðræði að almenningur ráði sér í öllum málum nema stjórnmálum, þar þurfi hann fulltrúa. Með öðrum orðum, lýðræði sé stjórnmálafyrirkomulagið þar sem lýðurinn ræður engu.

Þetta viðhorf er vissulega ekki ríkjandi núna, en áhrifin af því eru augljós. „Sjálfræði fólksins“ er sagt rót alls pólitísks valds, á tyllidögum er jafnvel talað um að „fólkið ráði“, en allt þetta vald birtist, líkt og fyrir töfra, nær aldrei í gjörðum almennra borgara. Opinbera skýringin á þessu er að við höfum sjálfviljug afsalað okkur þessu valdi, svo í raun séum við enn sjálfráð. En hvenær gerðist það? „Ekkert af ofantöldu“ er aldrei í boði á kjörseðlinum, því við megum ekki segja okkur úr stjórnmálakerfinu sem við gengum aldrei í. Ef maður skilar auðu er atkvæðið manns hundsað við mönnun embætta. Þegar reynt er að þvinga vilja almennings uppá ríkið, einsog þegar krafist var þjóðaratkvæðagreiðslu um inngöngu í NATO, er lögreglan boðin og búin að koma í veg fyrir það og svæla mótmælendur burt með táragasi. Sannleikurinn er sá að við erum einfaldlega ekki sjálfráð. Það eina sem við fáum að velja er milli kosta sem valdamenn setja okkur.

Valdið til að semja spurningarnar sem lagðar eru fyrir almenning, til að skrifa reglur kerfisins sem gerir fólk að fulltrúum, til að fá að athafna sig við rekstur ríkisins, er valdið sem nútímastjórnmál hafa úthlutað stétt stjórnmálamanna og flokkseigenda. Þetta vald tilheyrir með réttu almenningi. Að hafa það í höndum fámennisstéttar er mjög lýðræðisheftandi, ef lýðræði á að þýða eitthvað á borð við að lýðurinn ráði. Stjórnmálafræðingar viðurkenna þetta vandamál undir rós þegar talað er um „þátttökulýðræði“. Það sem við höfum er þá væntanlega „áhorfslýðræði“, þar sem við getum klappað upp eða púað niður atriði (á fjögurra ára fresti) en megum aldrei fara uppá svið – nema ef við viljum að öryggisverðirnir hendi okkur niður.

Kosin af tilviljun
Eitt frægustu dæmanna um þátttökustjórnmál er að finna í vöggu lýðræðisins. Þegar pólitískir fræðimenn rannsökuðu stjórnarhætti lýðræðisríkjanna í Grikklandi til forna brá þeim í brún. Þeir gátu fellt sig við að sameiginlegt þing allra borgara tæki ákvarðanir í sameiningu. Vissulega voru „borgararnir“ bara efnaðir karlar sem höfðu gegnt herskyldu, sem einfaldaði málin talsvert. En sögulegar heimildir staðhæfðu líka að skipað var í embætti ríkisins af handahófi! Þetta gat ekki verið rétt. Flóknar kenningar um fjölræða merkingu orðsins „handahóf“, um sjálfsblekkingu Forngrikkja og spillingu, voru settar fram. En allt kom fyrir ekki. Sögurnar voru allar á einn veg. Embættismenn grískra lýðræðisríkja voru venjulegt fólk sem gegndi starfinu í stuttan tíma í einu og ríkið gekk samt sinn vanagang.¹³

Þessi aðferðafræði hefur verið tekin alvarlega undanfarin ár af stjórnspekingum á borð við James Fishkin, sem hafa prufukeyrt þing slembivalinna borgara. Þessi þing geta fengist við samningu laga eða gefið ítarlegt álit eða í raun hvað sem hugurinn dirfist að ímynda sér. Sérgrein Fishkin er svonefnd „rökræðukönnun“, þar sem álit borgara er ekki fengið með einfaldri spurningu og óundirbúnu svari, heldur með yfirvegaðri samræðu slembiúrtaks samfélagsins. Hundrað manns komast að útpældum og víðfeðmum niðurstöðum sem eru ekki jafn viðkvæmar fyrir orðalagi og hagsmunapoti einsog hinar einfaldari (eða einfeldingslegri) skoðanakannanir.

Fjöldamörg önnur dæmi um tilraunir í lýðræði er að finna hér og hvar í veröldinni: Tímabundin þing almennra borgara sem skrifa fjárhagsáætlun, tillöguréttur almennings á Alþingi gegnum undirskriftasöfnun, afturköllun stjórnmálamanna úr embættum að beiðni almennings og beinni völd yfir opinberum stofnunum – til dæmis með kjöri forstjóra þeirra, frekar en tilnefningu þeirra af hendi ráðherra.

Margar leiðir eru færar til að efla lýðræði – og nóg er þörfin. Sumar eru flóknar, aðrar einfaldari. Í grunninn er hugmyndin þó einföld: Frumkvæðið að valdi, uppspretta þess og stjórn á því, þarf að liggja hjá almennum borgurum, ekki sérlegri stétt embættismanna eða stjórnmálaelítu. Raunverulegt lýðræði byggist á algerri kollvörpun þeirrar hugmyndar að lítill hópur yfirboðara leggi öllum almenningi lífsreglurnar. Raunverulegt lýðræði felst í að við öll fáum færi á að smíða áætlanir, yfirvega þær og taka um þær ákvarðanir. Það gerist ekki bara á þingi – það gerist útum allt samfélagið.

Heimildir

1. Democracy in America, 1. bindi, 4. kafli.
2. Sama heimild, 1. bindi, 8. kafli.
3. Sama heimild, 1. bindi, 4. kafli.
4. Primitive Rebels, bls. 116.
5. Pólitíkin eftir Aristóteles, 3. bók, 10. hluti.
6. An Economic Interpretation of the Constitution of the United States, 5. kafli.
7. Max Farrand, The Records of the Federal Convention, útgefin 1911, 1. bindi, bls. 289.
8. Sama heimild, bls. 48.
9. Sama heimild, bls. 424.
10. Sama heimild, bls. 431.
11. Sjá tveggja binda verk hans, The Age of the Democratic Revolution.
12. Sama heimild, fyrra bindi, bls. 16-17.
13. Election by Lot at Athens, bls. 1-13.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram