Hver er þessi verkalýður?

Ása Jóhanns Pistill

Á Íslandi trúum við því að við séum öll jöfn. Þegar við tölum um samfélagið við erlenda vini okkar nefnum við oft fræga fólkið sem dæmi. Heimsfrægar söngkonur geta farið í Vesturbæjarlaugina í friði, Hollywood leikarar, skáld og rokkstjörnur geta rölt í miðbænum og farið í ræktina án þess að það líði yfir neinn. Allir fá sitt rými af því að við erum öll jöfn.

Stutt á milli okkar?
Það gerir okkur örugg að vita að forsetinn geti sprangað um í Vestmannaeyjum á fótboltamóti með bakpokann eins og allir hinir foreldrarnir. Okkur hlýnar um hjartarætur. Við erum ekkert of langt frá þeim sem eru á toppnum. Við vorum líka með sumu af þessu fólki í barnaskóla, gaggó eða menntaskóla. Sú staðreynd að við getum rekist á hvern sem er af fyrrum og núverandi borgarstjórum, ráðherrum og forsetum við kassann í kjörbúðinni hlýtur að þýða að hér sé stutt á milli okkar. Að hér sé enginn stéttaskipting. Við stöndum jú öll í sömu röðinni.

Engin stéttaskipting?
Þessi hversdagslega nálægð telur okkur trú um að hér sé bara ein stétt og að við tilheyrum henni svona nokkurn veginn öll. Hún sé reyndar frekar víðfeðm og teygist aðeins upp og niður en í grunninn sé Ísland opið samfélag þar sem jöfnuður ríki milli manna.

Hér var aldrei nein aðalstétt, engar lafðir eða lávarðar. Þannig myndaðist ekki þessi stéttaskipting sem við þekkjum frá öðrum Evrópulöndum. Okkur finnst að á Íslandi sé bara ein stór millistétt sem allir tilheyra, alveg sama hvaða vinnu þeir vinna. Enginn vill tilheyra neinni annarri stétt. Allra síst verkalýðsstétt. Og auðvitað vill enginn gangast við því að hér sé til einhver yfirstétt.

Allir hafa sömu tækifæri?
Á Íslandi hafa allir sömu tækifæri. Jú, það eru til einhverjir fátækir, en það eru jú bara fatlaðir og öryrkjar sem ekki geta unnið almennilega og einhverjir sem nenna ekki að vinna yfirvinnu. Yfirvinna er dyggð og alltaf hægt að hífa sig upp með yfirvinnu. Jú, það eru líka til nokkrir vel stæðir viðskiptamenn, en þeir eru ríkir af því að þeir eru klókir og duglegir. Þeir voru búnir að vinna sér inn fyrir öllu sem þeir hafa núna, líka kvótanum. Aflaklærnar sem þeir voru.

Öllu tali um mismunandi stéttir, stéttaskiptingu og stéttabaráttu er því iðulega eytt. Enginn tilheyrir verkalýðnum. Það vill enginn tilheyra hóp sem sögulega séð á að vera undirokaður, kúgaður og arðrændur. Það er ekki neitt sem fólk vill samsama sig með.

Hver er þessi verkalýður?
Þrátt fyrir að þessi trú Íslendinga um samfélag jöfnuðar sé gömul mýta sem hrundi ásamt öllu öðru í fjármálakreppunni er ákveðinn sannleikur í þessari heimsmynd. Sá sannleikur er þó annar en fólk vill gangast við dags daglega. Sannleikurinn er nefnilega sá að það er rétt að hér tilheyra flestir bara einni stétt. Og sú stétt er verkalýðsstéttin.

Ég og þú
Hver er þessi verkalýður? Jú, hann er við. Ég og þú. Við öll. Þú tilheyrir verkalýðnum ef þú þiggur laun fyrir þína vinnu. Ef þú lifir á arðgreiðslum tilheyrir þú líklegast ekki verkalýðnum. En ef þú átt ekki fyrirtækið, framleiðslutækin, auðlindina eða kerfið sem greiðir þér laun fyrir verk þín þá tilheyrir þú verkalýðnum. Allir ómenntaðir, fagmenntaðir og háskólamenntaðir launamenn tilheyra verkalýðnum. Öll verkalýðsbarátta er því barátta okkar allra.

Hin stéttin
Þeir sem eiga fyrirtækin, framleiðslutækin og fjármagnið tilheyra annarri stétt. Þeir eru ekki með okkur hinum í hóp. Þeir lúta ekki sömu lögmálum eða takmörkunum og við hin. Borga ekki einu sinni sömu skatta og við. Við höfum ekki sama vald og þeir yfir okkar eigin örlögum. Ekki sama vald og þeir yfir eigin tíma eða afkomu. Við þurfum að fara að sjá þá í réttu ljósi í okkar samfélagi. Þó þeir standi með okkur í röðinni í kjörbúðinni deila þeir ekki með okkur kjörum.

Ása Jóhanns

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram