Sósíalíska bókahornið: Pelle Erobreren eftir Martin Andersen Nexø

Jóhann Helgi Heiðdal Pistill

Pelle Erobreren kom út á árunum 1906-1910 og er eitt af helstu verkum norrænna verkalýðsbókmennta. Höfundurinn, Martin Andersen Nexø (1869-1954), ólst upp í Christianshavn í Kaupmannahöfn við mikla fátækt og drykkfelldan og ofbeldisfullan föður. Eftir að hafa byrjað í læri á skósmíðaverkstæði (eins og Pelle í bókinni) fór hann í skóla í Askov þar sem hann kynnist umhverfi sem var undir sterkum áhrifum félagslegra hugmynda danska prestsins N.F.S. Grundtvig. Hafa sumir fræðimenn viljað leiða líkur að því að þessi reynsla, frekar en fræðileg sannfæring um nauðsyn stéttabaráttu, hafi haft hvað mest áhrif á kommúnisma Nexø.

Stórvirki Nexø er líklega minnst þekkta verkið í þessari pistlaröð um sósíalískar bókmenntir. Það er þá kannski helst kvikmyndin frá 1987 sem fólk man eftir, en í henni lék Max von Sydow aðalhlutverkið og vann hún Óskar sem besta erlenda myndin. Myndin er þó einungis byggð á fyrsta bindi verksins og hversu lítið verkið í heild er lesið í dag er synd að mínu mati. Myndi ég ganga svo langt að kalla hana skyldulesningu fyrir norræna sósíalista.

Pelle Erobreren er að forminu til Bildungsroman, eða þroskasaga ungrar manneskju á skáldsagnaformi. Í gegnum fjögur bindi (Barndom, Læreaar, Den store kamp og Gryet) fylgjumst við með uppvexti Pelle: frá hræddum og veiklulegum litlum stráki í erfiðisvinnu á Bornholm með kúguðum föður sínum, til Kaupmannahafnar þar sem hann lærir hjá skómeistara, kynnist sósíalisma og stéttabaráttu og verður á endanum að forystumanni í hreyfingunni og sá sem aðrir líta upp til sem hetju. Í fjórða og síðasta bindinu hefur Pelle eignast tvö börn með konu sinni, Ellen, ásamt öðru barni sem þau taka inn á sig vegna þess að móðir þess, nágranni þeirra, dó í fæðingunni. Það gengur mjög brösulega hjá þeim, þau reyna að stofna hótel sem endar illa og þau eru að drukkna í skuldum. Þau kynnast þó auðmanni, Brun, sem hjálpar þeim fjárhagslega. Hann kaupir upp skuldir þeirra og með hans hjálp kaupa þau jörð út á landi þar sem þau stofna eins konar verkamannakommúnu sem þau nefna Gryet.

Þrátt fyrir að verkið fari ekkert í felur með pólitíska hollustu sína (Nexø var meðlimur í danska kommúnistaflokknum), þá er samt engan veginn um að ræða einhvers konar heilalausan áróður í bókinni. Í henni má finna djúpar hugleiðingar um þau vandamál sem sósíalismi stendur frammi fyrir (þá og nú) og harða gagnrýni á algeng mistök og deilur innan sósíalistahreyfinga ásamt mjög næmri rannsókn á þeim persónulegu fórnum sem sósíalísk barátta felur nauðsynlega í sér (a.m.k. á þeim tíma sem bókin var skrifuð og ennþá á mörgum stöðum í heiminum) og hvort slík barátta sé þess virði. Endir verksins er einnig mjög óvæntur og áhugaverður og hefur verið túlkaður á margan ólíkan hátt.

Áhugverðasti kafli verksins gerist í þriðja bindi, Den store kamp. Verkalýðshreyfingin stendur í ótrúlega harðri baráttu þar sem hún færir gríðarlegar fórnir. Á endanum eru þó leiðtogarnir, Pelle þar á meðal, neyddir að samningaborðinu. Niðurstaðan verður sú að „status quo er viðhaldið“ eins og Nexø lýsir því. Lýsingarnar á þessari baráttu eru mjög áhugaverð lesning í dag. Því þrátt fyrir að mikill sigur hafi náðst, og ástand og kjör verkalýðsins í dag ekki nærri því sú sama og Nexø lýsir, þá var verkalýðurinn á þessum tíma þó talinn vera aðili sem nauðsynlegt var að semja við – hann var tekinn alvarlega. Ef við lítum yfir samfélag nútímans komumst við tæpast að þeirri niðurstöðu að verkalýðurinn ráði miklu eða að hann hafi mikið að segja um hvers konar samfélag hann býr í. Öllu heldur er verkalýðshreyfingin mestmegnis orðin hluti af auðvaldinu, hvers hlutverk er að hafa stjórn á verkalýðnun – hreyfing sem er beint á móti honum frekar en tæki til að ná fram hugsjónum hans. Leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar eru þannig orðnir sannfærðir um að hagsmunir þeirra og auðvaldsins fari á einhvern hátt saman.

Þetta er og verður blekking í stéttskiptu samfélagi kapítalismans og einn mikilvægasti boðskapur Pelle Erobreren í dag er að minna okkur á þessa staðreynd.

Verkið hefur verið þýtt yfir á íslensku af Gissuri Ó. Erlingssyni og nefnist þá Pelli Sigursæli.

Jóhann Helgi Heiðdal

Meira úr bókahorninu:

Sósíalíska bókahornið: Hard Times eftir Charles Dickens

Sósíalíska bókahornið: Les Misérables eftir Victor Hugo

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram