Við erum komin aftur

Haukur Arnþórsson Frétt

Við erum komin aftur. Og hver erum við? Við erum sósíalistar. Sósíalistar voru öflugt baráttuafl á Íslandi hér áður fyrr. Þeir börðust í verkalýðshreyfingunni, í félagsmálum, velferðarmálum og í stjórnmálum. Og þeir eiga stóran þátt í því að við búum í velferðarþjóðfélagi. Þeir börðust fyrir almannatryggingum, sjúkrasamlögum, styttri vinnuviku, byggingu verkamannabústaða og síðar Breiðholts og fyrir félagslega húsnæðiskerfinu – alveg rétt, sem var lagt niður – og þeir börðust fyrir mörgu fleira sem varðaði hagsmuni þeirra sem voru fátækir og stóðu veikt.

Af hverju erum við komin aftur? Við erum komnir aftur af því að velferðarþjóðfélagið hefur veikst. Þeir sem eru ungir og þeir sem eru aldnir finna það vel. Húsnæðisþörf almennings hefur verið gerð að féþúfu enda þótt það jaðri við að vera mannréttindabrot – í mannréttindasamþykktum er kveðið á um að stjórnvöld sjái til þess að allir hafi heppilegt húsnæði. Fátækt er hlutskipti margra aldraðra og öryrkja, láglaunafólkið er í fátæktargildru og einkavæðing opinberra verkefna er á fullri siglingu. Við erum andsvarið við Gamma og álíka félögum – við erum svarið við kalli tímans.

Við erum líka komin af því að baráttuhreyfingarnar okkar hafa veikst og þær hefur borið af leið. Bæði verkalýðshreyfingin og stjórnmálin. Vinstrið er orðið að miðju eða hægri. Við boðum öflugt starf í endurreistri verkalýðshreyfingu – sem við höfum unnið mikið grasrótarstarf við að endurreisa og eigum enn meira óunnið – og við munum nota stjórnmálin til að koma málstað þeirra sem minna mega sín á framfæri – þeirra sem ekki hafa átt málsvara síðustu árin.

Og það eru margir farnir að skjálfa. Árásirnar á Sósíalistaflokkinn eru á fullu í samfélagsmiðlum en þær herða okkur og treysta í þeirri trú að við séum hið endurnýjaða baráttuafl.

Sósíalistaflokkurinn er kominn til þess að takast á við fátækt og misskiptingu. Og ég er frambjóðandi hans af því að ég tel ekki sæmandi í landi með þriðju hæstu meðaltekjur á mann í heiminum að láta þá misskiptingu sem hér er óátalda.

Misskiptingu sem bíður þeim sem búa á elli- og hjúkrunarheimilum uppá 68 þús. kr. í vasapeninga á mánuði, misskiptinu sem telur strípaðar bætur almannatrygginga boðlegar, þær eru um 100 þús. kr. lægri en framfærslumörk, misskiptingu sem leggur þungar skerðingar á þau sem lagt hafa fyrir í lífeyrissjóði alla ævi þannig að þau njóta ekki sparnaðar síns, misskiptingu sem gerir ekkert til að tryggja jafnan rétt allra til mannsæmandi húsnæðis.

Margir bíða á biðlistum borgarinnar eftir félagslegu húsnæði, hvað haldiði að biðtíminn sé nú langur. Einmitt, mörg ár, jafnvel heilt kjörtímabil. Margir eru á almennum leigumarkaði en strípaðar bætur nægja ekki fyrir íbúðarleigu. Og í dag liggja hundruðir aldraðra á spítölum og geta ekki útskrifast af því að engin hjúkrunarrými eru til.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað niðurfellingu fasteignagjalda sem aðeins á að renna til þeirra sem hafa of háar tekjur til þess að geta notið niðurfellingar eða afsláttar þeirra.

Raunar er það svo að við erum ekki andvíg því að opinbert fé sé notað til þess að bæta stöðu aldraðra – en við erum þeirrar skoðunar að allir eigi að njóta þess jafnt og siðlaust sé að gefa það bara ríkasta hópnum. Okkar hugur er hins vegar meira hjá þeim sem ekki eiga húsnæði, sem er allt að helmingur aldraðra. Og hjá þeim sem þurfa stuðning og þjónustu, þrif, mat og annað. Sá hópur þarf í dag að greiða fyrir heimaþjónustu, enda þótt ljóst sé að þjóðfélagslega heppilegt sé að fólk haldi heimili eins lengi og hægt er.

Gott fólk. Mörg okkar erum á þeim aldri að við munum eftir baráttu sósíalista. 5 vikna verkföllum. Baráttunni fyrir byggingu Breiðholtsins. Baráttunni fyrir lífeyrissjóðunum, sem ríkið tekur nú sinn skerf af. Sósíalistar eru komnir aftur. Baráttan er að hefjast að nýju. Í verkalýðsfélögunum í öðru félagsstarfi og pólitíkinni. Tökum höndum saman.

Ræða flutt á fundi Félags eldri borgara og Gráa hersins í Ráðhúsi Reykjavíkur 5. maí 2018

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram