Laufey: Hef barist við öll möguleg kerfi borgarinnar

Hin Reykjavík

9. Laufey Líndal Ólafsdóttir
Hin Reykjavík

„Ég er ekki fædd, en upp alin í Reykjavík frá blautu barnsbeini. Amma mín fæddist á Spítalastíg árið 1919 svo ég á hingað rætur rekja ef svo má segja. Ég er þessi umtalaða miðbæjarrotta, hafralatteleptjandi bómullartrefill úr 101. Gekk í Austurbæjarskóla, en svo tók við mikið flakk milli framhaldsskóla, MR, Fjölbraut við Ármúla, Listdansskóli Íslands, jafnvel smá stopp í öldungadeild MH, en flakkið endaði í London þar sem ég eyddi mestöllum tíunda áratugnum. Kom til baka tveimur börnum ríkari og hef hrakist um á íslenskum húsnæðismarkaði síðan í Reykjavík hinna ósýnilegu.

Ég hef barist sem einstæð móðir við að mennta mig og tekist að ná mér í stúdentspróf og BA gráðu. Er að vinna í meistaragráðunni og komin með meira af skuldum á bakið í því ferli en ég kæri mig um að rifja upp. Hef barist við öll möguleg kerfi borgarinnar, sem eru langt frá því að vera funkerandi og almennt sett upp til að þjóna sjálfum sér frekar en notendum. Ég hef unnið fyrir félagasamtök og kynnst baráttu þeirra fyrir lífsviðurværi, sem er einnig ábótavant. Félagasamtök vinna gríðarlega mikla vinnu fyrir ríki og borg en ganga ekki næstum því öll að öruggu fjármagni fyrir þjónustu sína. Félagasamtök eru oft milliliður milli borgara og stofnana og veita fólki nauðsynlega aðstoð í að skila og berjast við hverfið.

Miðbærinn verður alltaf hverfið mitt, en það er löngu búið að afhenda það gráðugum fjármagnseigendum sem hafa enga sál eða tilfinningu, né nokkurn áhuga, fyrir sögu hverfisins. Það er búið að ýta okkur, fólkinu sem gaf hverfinu þessa sögu, út úr því og við getum bara búið annars staðar. Það hefur orðið fjöldaflótti úr hverfinu og allt sem gerði það sérstakt er horfið. Ferðamenn hafa sannarlega komið með mikið líf í hverfið, sem er ekki slæmt í sjálfu sér, en því miður var þar öll menning drepin í leiðinni svo að túristarnir ganga að mestu um og mynda hvern annan. Fólkið er flúið.

Ég á þrjú börn, 22 ára, 16 ára og 8 ára. Ég hef barist um alls kyns þjónustu fyrir þau og horft upp á máttleysi margra stofnana við að þjónusta börn. Ég hef horft á hvernig sama skólakerfi og hentaði mér illa er að henta börnunum mínum jafn illa, en þótt margt sé breytt til hins betra frá því að ég var í skóla, hefur einnig ýmislegt horfið sem áður var til staðar. Viðhorfið til menntunar sem staðlaðs fyrirbæris er enn til staðar, og er í raun fáránlegt í okkar síbreytilega umhverfi.

Mínar áherslur eru jafnréttismál – jafnrétti ALLRA, ekki bara sumra. Þjónustu borgarinnar á að vera stýrt af notendum (notendastýrð þjónusta), raddir þeirra um nytsemi sé notuð í stefnumótun og hætt sé að þröngva stöðluðum úrræðum upp á fólk í stað þess að bjóða því lausnir sem raunverulega gera gagn.

Og húsnæðismál. Borgin á að kaupa og byggja miklu fleiri leiguíbúðir svo ekki séu biðlistar eftir húsnæði. Það vantar líka neyðarhúsnæðis fyrir fólk í bráðavanda.“

Laufey Líndal Ólafsdóttir er í framboði fyrir Sósíalista í Reykjavík í vor #valdiðtilfólksins

Kjósið Sósíalistaflokkinn

Stefna

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram