Burt með elítustjórnmál

Ritstjórn Áætlanir

Erindi Sósíalistaflokksins í kosningum til alþingis 25. september 2021: Sjöunda tilboð til kjósenda lagt fram um verslunarmannahelgina:

BURT MEÐ ELÍTUSTJÓRNMÁL

Á undanförnum árum hafa stjórnmálin færst frá því sem kalla mætti alþýðustjórnmál yfir í það sem er í eðli sínu elítustjórnmál. Stjórnmálaflokkarnir eru ekki lengur virk almannasamtök heldur eru þeir að mestu reknir fyrir styrki frá ríki og sveitarfélögum. Þróunin hefur verið sú að forysta flokkanna hefur orðið óháð grasrótinni. Nýrri flokkar eru sumir hverjir lítið annað en skel utan um forystuna.

Í stað þess að sækja stefnu, afl og umboð til virkrar þátttöku almennra félaga kaupir forystan ráðgjöf til að styrkja sig á vettvangi elítustjórnmála, sem fyrst og fremst eru fréttir og umfjöllun fjölmiðla. Og fjölmiðlarnir eru hluti þessara elítustjórnmála, jafn útilokandi og flokkarnir fyrir meginþorra almennings.

Niðurstaðan er sviðsett stjórnmál sem eru sambandslaus við líf almennings, stjórnmál sem ná ekki að fjalla um það óréttlæti sem stór hluti landsmanna býr við.

Þessu vill Sósíalistaflokkurinn breyta.

Sósíalistaflokkurinn er grasrótarsamtök

Og Sósíalistaflokkurinn byrjar heima. Skipulag flokksins er þannig að fámennur hópur forystufólks getur ekki beygt flokkinn undir vilja sinn. Grasrót flokksins gefur ekki frá sér mótun stefnunnar eða niðurröðun á framboðslista heldur er hvort tveggja unnið í slembivöldum hópum almenns flokksfólks. Skipulag flokksins er ekki þríhyrndur valdastrúktur, eins og annarra flokka, heldur hefur flokkurinn margar miðjur og ólíkar stjórnir, sem allar eru jafn settar og sækja jafnt umboð til Sósíalistaþings. Allir félagar hafa rétt á setu á Sósíalistaþingi og innan flokksins gilda reglur um hámarkssetu félaga í stjórnum. Sósíalistaflokkurinn hefur því varnir gegn klíkuvæðingu innbyggðar í skipulag sitt.

Og það er rík ástæða fyrir því. Skipulag Sósíalistaflokksins er byggð á reynslu annarra flokka. Ef flokkar hafa ekki innbyggðar varnir gegn klíkumyndun verða þeir klíkuvæðingunni að bráð. Það sýnir sagan. Það á ekki aðeins við um stjórnmálaflokka heldur öll almannasamtök. Þau sem komast til valda nota völdin til að auka enn við eigin völd og til að verja þau. Þetta hefur verið kallað járnlögmál klíkuvæðingarinnar.

Sósíalistaflokkurinn er ungur flokkur, enn á leikskólaaldri. Flokksfólk veit vel að skipulag flokksins og uppbygging er ekki fullmótuð. En þau eru meðvituð um að ef flokkurinn á að gagnast alþýðunni þarf hann að ná að laða til sín sem flesta félaga, virkja þá til starfa og verja flokkinn fyrir klíkumyndun.

Hvernig starfar alþýðuflokkur innan elítustjórnmála?

Sósíalistaflokkurinn hefur ekki mótað þá umgjörð sem elítuflokkarnir hafa byggt í kringum sjálfan sig. Kjörnir fulltrúar flokksins ganga inn í ofurlaunakerfi sem elítustjórnmálafólk hefur smíðað kringum sjálft sig, flokkurinn fær úthlutað sömu aðstöðu og elítuflokkarnir hafa búið sér og hann fær sömu styrki og elítuflokkarnir hafa skammtað sér.

Sósíalistaflokkurinn þarf því að ákveða hvernig hann bregst við innan þessa spillta umhverfis. Og flokkurinn mun bregðast svona við:

Kjörnir fulltrúar flokksins munu fara að dæmi Sönnu Magdalenu Mörtudóttur borgarfulltrúa og gefa inn í styrktarsjóð Vorstjörnunnar hluta af launum sínum svo þau það sem eftir situr sé á við miðlungs millistéttarlaun, ígildi launa yfirkennara eða iðnaðarmanns. Þetta er leið sem sósíalískir flokkar hafa farið víða um heim. Vorstjarnan styrkir hagsmuna- og frelsisbaráttu þeirra hópa sem hafa ekki efnahagslega burði til að heyja sína baráttu og sem hafa enn ekki náð að byggja upp skipulagðar heildir. Þetta á við um leigjendur, fátækt eftirlaunafólk, innflytjendur, atvinnulausa og marga aðra hópa.

Alþingi greiðir aðstoðarfólki þingflokka laun. Sósíalistar líta svo á að þingmenn flokksins verði hluti breiðrar alþýðuhreyfingar og að starf þeirra verði betra eftir því sem hreyfingin verður sterkari. Aðstoðarfólkið mun því starfa með hreyfingunni allri, ekki aðeins þingflokknum. Uppbygging hreyfingarinnar mun efla þingflokkinn. Þingflokkur án róta í breiðri alþýðufylkingu er einskis virði.

Ríkið styrkir stjórnmálaflokka um háar upphæðir. Sósíalistar munu nota þetta fé til að efla hagsmunabaráttu hópa sem standa veikt fjárhagslega, byggja upp fjölmiðlun í samstarfi við Alþýðufélagið/Samstöðina, sem er vísir af róttækum fjölmiðli, og ýta með öðrum hætti undir baráttu alþýðunnar gegn óréttlæti og kúgun kapítalismans.

Sósíalistar munu því flytja þá fjármuni og aðstöðu sem elítuflokkarnir hafa skammtað sjálfum sér út í hreyfingu alþýðunnar. Það þjónar best markmiðum Sósíalistaflokksins. Flokkurinn mun ekki gera neitt gagn nema sem hluti slíkrar hreyfingar. Flokkur án djúpra og virkra tenginga út í hreyfingu alþýðufólks er einskis virði og í raun hindrun í vegi baráttunnar. Það á við um elituflokkanna og þannig flokkur vill Sósíalistaflokkurinn ekki vera.

Hvernig vill Sósíalistaflokkurinn laga stjórnmálin?

Sósíalistaflokkurinn vill lækka laun þingmanna og annarra kjörinna þjóna almennings svo þau séu á við ágæt millistéttarlaun. Þannig voru þessi laun fyrir fáeinum áratugum. Á nýfrjálshyggjuárunum hækkuðu laun þingmanna mikið og var það réttlætt með því að hærri laun myndu lokka betra fólk á þing. Sú hefur ekki orðið raunin. Fólk sem sækist í stjórnmál vegna launanna á ekkert erindi inn á lýðræðisvettvanginn. Þingmenn ættu að vera með sambærileg laun og yfirkennarar og ráðherrar viðlíka og skólastjórar.

Leggja þarf af það sem eftir lifir af upphafningu stjórnmálanna sem rekja má til konungsríkja miðalda. Stjórnmálafólk ætti ekki að kalla hvort annað háttvirt og enn síður hæstvirt. Það er hreint hlægilegt á þingi sem nýtur sáralítils traust meðal landsmanna. Leggja á af ráðherrabíla, einkabílstjóra og allt slíkt tildur og snobb.

Leggja á af styrki til stjórnmálaflokka. Þeir bæta ekki lýðræðið heldur veikja það, auka völd forystu flokkanna á kostnað grasrótar. Til að efla lýðræði á ríkið að styrkja og styðja við hagsmunabaráttu þeirra hópa sem standa verst og hafa minnst fjárráð. Þar liggur vandi lýðræðisins. Hin fátækari hafa of lítil völd. Og forysta stjórnmálaflokka tilheyrir ekki hinum fátæku og valdalausu.

Til að tryggja jafnræði á lýðræðisvettvangi á að banna fégjafir fyrirtækja og hagsmunasamtaka fjármagns- og fyrirtækjaeigenda til stjórnmálaflokka. Lýðræðið er vettvangur almennings, tæki hans til að vega upp á móti ógnarvaldi auðsins. Til að draga úr áhrifum fjármuna á kosningabaráttu ætti að banna kosningaáróður í auglýsingum ljósvakans. Auður á ekkert erindi í stjórnmál, það eru næg völd sem fylgja auðnum og hann á ekki að snerta stjórnmál almennings.

Ef þurfa þykir má styrkja framboð í kosningum til að halda úti skrifstofu og lágmarkskynningu 2-3 mánuði fyrir kosningar svo kjósendur hafi gott aðgengi að upplýsingum um stefnu og erindi framboðanna.

Sjöunda tilboð sósíalista

Sjöunda tilboð Sósíalistaflokksins til kjósenda í tilefni af kosningum til alþingis 25. september 2021 er þetta:

  • Þingmenn Sósíalista munu lækka laun sín með því að gefa hluta þeirra til Vorstjörnunnar
  • Aðstoðarfólk þingflokks sósíalista mun starfa fyrir hreyfingu almennings, ekki aðeins þingflokkinn
  • Styrkir til Sósíalistaflokksins verða notaðir til að byggja upp hreyfingu hinna fátæku, ekki flokkinn
  • Sósíalistar munu lækka laun kjörinna fulltrúa við fyrsta tækifæri
  • Sósíalistar munu leggja af ofurstyrki elítuflokkanna við fyrsta tækifæri
  • Sósíalistar munu leggja af ráðherrabíla, einkabílstjóra og allt slíkt snobb og tildur. Stjórnmálafólk eru þjónar, ekki herrar

Samþykkt á sameiginlegum fundi framkvæmda- og málefnastjórna Sósíalistaflokksins sunnudaginn um verslunarmannahelgina 2021.

Kosningaáætlanir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram