Kærleikurinn ætti að vera leiðarljós stjórnvalda

Stjórnir flokksins Tilkynning

Sameiginlegur fundur framkvæmda- og málefnastjórna Sósíalistaflokksins varar við vaxandi grimmd í samfélaginu og fordæmir ráðafólk sem ýtir undir slíkt.

Í erindi Sósíalista Kærleikshagkerfið segir meðal annars: 

„Þess eru engin dæmi í mannkynssögunni um að samfélög hafi tortímt sér með því að styðja um of við hin veiku, fæða hin fátæku eða reisa við hin föllnu. Kærleikurinn er græðandi afl en ekki eyðandi. Þess eru hins vegar mýmörg dæmi úr sögunni að samfélög hafa fallið vegna græðgi yfirstéttarinnar, yfirgangs þeirra sem komist hafa yfir auðlindir almennings og notað afl sitt og völd til að kúga almenning og brjóta niður aflið sem býr í samvinnu milli fólks.

Öll helstu afrek sín hefur mannskepnan unnið í samvinnu. Það er einkenni okkar sem tegundar. Við erum félagsverur, rísum hæst þegar samfélag okkar er heilbrigðast, réttlátast og jafnast. Besta leiðin til að reisa gott samfélag er að byggja það út frá þörfum þeirra sem þurfa mest á samfélaginu að halda. Vonir og væntingar hinna fátæku, veiku, útilokuðu og kúguðu eru leiðarljós að góðu samfélagi. Kærleikshagkerfið er byggt upp frá þörfum hinna veiku.“

Sósíalistar hafa lagt til að nýr samfélagssáttmáli verði myndaður nú þegar samfélagssáttmáli nýfrjálshyggjunnar er hruninn. Við þurfum að breyta um stefnu.

Í erindi Sósíalista Vindum ofan af nýfrjálshyggjunni segir meðal annars: 

  • Gegn einstaklingshyggjunni teflir sósíalismi samfélaginu
  • Gegn einstaklingsdugnaði teflir sósíalismi samstöðu
  • Gegn samkeppni teflir sósíalismi samvinnu.
  • Gegn sjálfselsku og sjálfsdýrkun teflir sósíalismi samúð og samhjálp

Við erum nú að koma út úr skammarlegu tímabili nýfrjálshyggjunnar, sem hélt því fram að besta leiðin til að byggja upp samfélag væri að gera það út frá kröfum og hagsmunum hinna sterku, þeirra sem síst eru háð samfélagi manna. Þetta hefur reynst afleitt leiðarljós. Með því að elta hagsmuni þeirra sem upplifa samfélagsleg sjónarmið sem ógn við athafnafrelsi sitt, höfum við í raun brotið niður samfélagið, veikt þær stofnanir sem byggðar voru upp af sósíalískri verkalýðsbaráttu síðustu aldar og fært völd frá lýðræðislegum vettvangi, þar sem hver maður hefur eitt atkvæði, yfir á hinn svokallaða markað, þar sem hver króna hefur eitt atkvæði. Nýfrjálshyggjan er í grunninn valdaafsal almennings til auðvaldsins.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram