Vindum ofan af nýfrjálshyggjunni

Ritstjórn Áætlanir

Erindi Sósíalistaflokksins í kosningum til alþingis 25. september 2021:
Áttunda tilboð til kjósenda lagt fram 6. ágúst:

VINDUM OFAN AF NÝFRJÁLSHYGGJUNNI

Eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna er að ráða niðurlögum nýfrjálshyggjunnar svokölluðu. Þetta er hugtak sem allir hafa heyrt einhvern tímann, án þess þó að skilja endilega við hvað sé átt. Það er ekki furða, enda er fólk líklegra en ekki til þess að heyra þetta hugtak í málflutningi þeirra sem vilja neita því að nýfrjálshyggja sé fyrirbæri sem er yfirhöfuð til. Þeir aðilar sem gera slíkt hafa góðu ástæðu til þess að halda því fram. Enda er nýfrjálshyggja í rauninni ekkert annað en heitið yfir ríkjandi stjórnmála- og efnahags ástand Vesturlanda og gjörvalls heimsins síðustu áratugi.

Hugtakið nýfrjálshyggja er gríðarlega mikilvægt greiningartól, þar sem það lýsir og útskýrir efnahagsstefnu og hugmyndafræði Vesturlanda síðustu áratugi sem samhangandi og heildstætt fyrirbæri. Það auðveldar fólki þannig að skilja þær efnahagslegu- stjórnmálalegu og samfélagslegu breytingar sem hafa átt sér stað – sem og stöðuna í dag – á skýran hátt. Ekki síður mikilvægt er að með því að skilja breytingar síðustu áratugi sem heildstætt fyrirbæri – sem hefur mjög skýr einkenni, kennisetningar, og hugmyndir – þá auðveldar það fólki á sama tíma að streitast á móti þessari þróun.

Það er einmitt það sem ríkjandi hagsmunaöfl í samfélaginu vilja síst af öllu – enda hefur nýfrjálshyggjuþróunin síðustu áratugi verið þeim mikið í hag og þau vilja með engu móti breyta um kúrs.

Nýfrjálshyggja er mjög raunverulegt fyrirbæri. Hún hefur haft stóralvarlegar afleiðingar á svo gott sem öllum sviðum samfélagsins, alveg frá stórum alþjóðlegum stofnunum til og inn í innstu hugarkima einstaklinga.

En til að skilja hana til hlítar þarf í rauninni að sjá hana frá tveimur hliðum.

Tvær hliðar nýfrjálshyggjunnar

Nýfrjálshyggjan hefur annars vegar stjórnmála-hagfræði hlið. Þá er átt við þær fræðilegu kenningar í hagfræði og stjórnmálaheimspeki sem notaðar eru sem leiðarvísir í stefnumótun stjórnvalda og þeim efnahagsaðgerðum sem gripið er til. Hér er grundvallar kennisetningin sú að frjálsir markaðir séu fyrirbæri sem munu ávallt komast að bestu niðurstöðunni. Ríkið getur aldrei vitað meira en frjáls markaður, og þar með aldrei tekið betri ákvarðanir um hvernig samfélagið ætti að vera skipulagt og efnislegum gæðum þess skuli skipt. Efnahagsstefna nýfrjálshyggjunnar miðar þannig að því að minnka sem allra mest „afskipti“ ríkisins og lýðræðislega kjörinna fulltrúa af efnahagslífinu. Þetta er gert með ýmsum ráðum, einna helst með niðurskurði á hinum ýmsu stofnunum samfélagsins sem gerir þeim ókleift að sinna hlutverki sínu (sérstaklega þeim sem sinna einhvers konar eftirlitshlutverki). Þetta er því eitt allra augljósasta einkenni nýfrjálshyggjunnar: ofurtrú á markaðinn og getu hans til að leysa öll samfélagsleg vandamál.

Hin hlið nýfrjálshyggjunnar er hins vegar ekkert síður mikilvæg. Hún er það sem kalla mætti hugmyndafræðilegu hliðina. Því nýfrjálshyggjan ríkir ekki yfir samfélaginu einungis í gegnum efnahagsaðgerðir og ákvarðanir stjórnmálamanna og hagfræðinga ráðgjafa þess. Ástæða þess að haldið er endalaust áfram sömu aðgerðunum, þrátt fyrir að háalvarlegur skaði þeirra sé löngu kominn í ljós, er sú að almenningur er að miklu leyti ógagnrýninn á þessar aðgerðir. Flestir líta á þær sem sjálfsagðan hlut, jafnvel einhvers konar náttúrulögmál þar sem ekkert annað er í boði.

Þetta er ekki vegna þess að almenningur sé neitt sérstaklega vitlaus. Öllu heldur er þetta vegna þess að nýfrjálshyggjan er ríkjandi hugmyndafræði samfélagsins.

Þessi hugmyndafræðilega hlið byggist fyrst og fremst á róttækri einstaklingshyggju sem kveður á um að hver er sinnar gæfu smiður. Hvað sem kemur fyrir einstaklinginn, gott eða slæmt, er einstaklingnum sjálfum að kenna. Ef einstaklingurinn er auðugur, er það vegna hans eigin dugnaðar. Ef einstaklingurinn er hins vegar fátækur og býr við slæman aðbúnað og erfiðleika, er það á sama hátt vegna hans eigin persónubresta. Með öðrum orðum er það einstaklingnum sjálfum að kenna – og er ábyrgðinni þannig varpað frá þeim sem tekið hafa þær ákvarðanir sem leiddu til samfélags þar sem fólk býr við slíkar aðstæður.

Þessar tvær hliðar nýfrjálshyggjunnar hanga þannig saman og gerðu henni kleift að ná hreint fáheyrðum árangri á síðustu áratugum. Síðan í byrjun 8. áratugarins hefur nýfrjálshyggjan náð að smeygja sér inn í hvern krók og kima mannlegrar tilveru. Hvort sem það er í ákvörðunum sem teknar eru í Alþjóðlegum stofnunum, eða í háttsemi áhrifavalda á Instagram. Alls staðar er einstaklingnum, einkaframtakinu, og hinum svokallaða frjálsa markaði hampað á kostnað samfélagslegra dygða.

Afleiðingar nýfrjálshyggjunnar

Það er engum ofsögum sagt að afleiðingar nýfrjálshyggjunnar hafi verið katastrófískar á nánast alla mælikvarða.
Svo einungis eitthvað af því mest kunnuglega sé nefnt:

 • Ójöfnuður í svimandi hæðum sem á sér fá fordæmi í mannkynssögunni
 • Stöðnuð eða versnandi kjör vinnandi fólks á Vesturlöndum
 • Endalaus heimsvaldasinnuð stríð Vesturlanda í hverju fátæka landinu eftir öðru (í þeim tilgangi að “opna” markaði og efnahagskerfi þeirra fyrir Vestrænum stórfyrirtækjum)
 • Síaukið atvinnu- og tilvistarlegt óöryggi
 • Fáheyrð krísa í geðheilbrigði sem geisar nú eins og sinueldur í svo gott sem öllum Vestrænum löndum og víðar
 • Svo ekki sé minnst á loftslagsbreytingar – sem eru beinlínis afleiðing þess að stórfyrirtækjum er leyft að ráða ráðum sínum sjálf í nafni einkaframtaks og frelsis.

Til þess að vinda ofan af nýfrjálshyggjunni nægir ekki að kjósa aðra stjórnmálamenn til valda sem lofa annarri efnahagsstefnu en frjálsa markað nýfrjálshyggjunnar. Svo lengi sem hugmyndafræðilega hliðin hefur þetta tangarhald á samfélaginu, þá munu sömu stjórnmálamennirnir, með sömu gömlu „lausnirnar“ ávallt komast óhjákvæmilega til baka til valda – og halda áfram á sömu gömlu brautinni.

Nýfrjálshyggjan vinnur á mörgum ólíkum sviðum. Til að berjast gegn og vinna bug á henni, þarf baráttan því einnig að fara fram á ólíkum sviðum. Það er ekki nóg einungis að gagnrýna nýfrjálshyggjuna. Önnur hugmyndafræði, sem boðar annars konar gildi og áherslur, þarf að koma í staðinn.

Þetta er nákvæmlega það sem sósíalismi er. Sósíalismi er ekki einungis stjórnmálastefna, heldur á sama tíma hugmyndafræði í beinni andstöðu við nýfrjálshyggjuna og gildi hennar.

Gegn einstaklingnum teflir sósíalismi samfélaginu

Gegn einstaklingsdugnaði teflir sósíalismi samstöðu

Gegn samkeppni teflir sósíalismi samvinnu.

Gegn sjálfselsku og sjálfsdýrkun teflir sósíalismi samúð og samhjálp

Sósíalismi boðar í grunninn það sem hægt er að kalla með réttu samfélag. Fjármálakrísan 2008, sem leiddi til íslenska efnahagshrunsins, var dauði nýfrjálshyggjunnar. Þar opinberaðist svo ekki verður um villst hvernig þessi hugmyndafræði, ásamt efnahagsstefna hennar, hafi verið stórhættuleg fantasía. Þó hefur nýfrjálshyggjunni tekist með undraverðum hætti að lifa áfram, sem eins konar uppvakningur. Enginn hefur ástríðu fyrir henni eða trú á henni lengur. Samt heldur nýfrjálshyggjan áfram að drottna yfir samfélaginu og stýra bæði ákvörðunum stjórnmálamanna og upplifunum sjálfsins á tilverunni.

Það eina sem getur loksins komið nýfrjálshyggjunni í gröfina þar sem hún á heima er sósíalismi. Það er einfaldlega enginn annar valkostur.

VIII. tilboð sósíalista: Vindum ofan af nýfrjálshyggjunni

 • Hætt verður að lækka skatta á hin ríku og skattalækkunum síðustu ára verður snúið við.
 • Engin sala ríkiseigna. Öll tilfærsla á verðmætum almennings í hendur einkaaðila verður stöðvuð og þessari þróun snúið við
 • Einkavæðing auðlinda verði stöðvuð og barist verður fyrir að koma auðlindum þjóðarinnar úr höndum einkaaðila og til almennings
 • Einka- og arðsemisvæðing grunnkerfa verður stöðvuð. Hætt verður alfarið að líta á grunnstofnanir og þjónustu samfélagsins sem tækifæri fyrir auðmenn til að maka krókinn
 • Útvistun á opinberri þjónustu verður hætt. Ólíkt því sem ríkjandi hagsmunaöfl halda fram, þá hefur samfélagið meira en nóg efni á að halda úti allri þeirri þjónustu og velferð og það vill
 • Gjaldtaka fyrir grunnkerfi er fullkomlega til skammar og verður alfarið afnumin
 • Sósíalistaflokkurinn mun ávallt berjast gegn niðurbroti verkalýðshreyfingarinnar og styðja við verkalýðsbaráttu með öllum mögulegum ráðum
 • Sveltistefna gagnvart opinberri þjónustu verður alfarið hætt
 • Það eina sem mun svelta undir stjórn Sósíalistaflokksins eru bankareikningar auðmanna í skattaskjólum.

Samþykkt á sameiginlegum fundi framkvæmda- og málefnastjórnar Sósíalistaflokks Íslands 5. ágúst 2021

Kosningaáætlanir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram