Eggert: Þurfum ekki að eiga allt okkar undir grimmum og gráðugum peningaöflum
13.05.2018
—Hin Reykjavík
Flokksblöðin á síðustu öld voru mjög mótandi um stjórnmálaskoðanir fólks. Moggann las ég í uppvexti mínum og ég varð hlynntur Sjálfstæðisflokknum eins og blaðið ætlaðist til. Svo gerðist það að elsti bróðir minn fór að kaupa Alþýðublaðið og þar voru greinar eftir ýmsa vinstri krata vöktu sérstaka athlygli mína og vöktu mig til umhugsunar. Ég gekk að kjörborðinu fyrst árið 1970 í borgarstjórn og kaus Alþýðuflokkinn. Ári seinna hafði ég enn færst til vinstri og kaus Samtök frjáslyndra og vinstri manna. Í HÍ 1970-74 og kynntist mörgum vinstrimönnum. Í Englandsdvölinni 1974-77 og færðist ég enn til vinstri. Einn íslensku stúdentanna fékk sendan dagblaðapakka nokkrum sinnum á vetri og þar drakk ég í mig Þjóðviljann sem var róttækt og mjög vel skrifað blað á þeim árum.
Eftir heimkomuna reyndi ég að kynna mér stefnu róttækustu vinstri flokka landsins á þeim tíma en það var erfitt því þeir skrifuðu langar fræðilegar greinar sem erfitt var að skilja fyrir aðra en innvígða. Ég lét þar við sitja. En var harðákveðinn í að reyna að berjast gegn peningaöflunum.
Upp úr 1980 gekk ég svo í Alþýðubandalagið. Ég gekk líka í Kaupfélag Hafnfirðinga því mér fannst samvinnuhugsjónin anga af sósíalisma. Eina starfsemi þess kaupfélags var að reka smásöluverslun. Ég komst að því að kaupfélagið var undir hælnum á heildsalanum Sambandi Íslenskra samvinnufélaga (SÍS). Svo til allar vörur voru keyptar keyptar dýru verði af SÍS. Þarna var ekkert hægt að gera og ég hætti. Í Alþýðubandalaginu í Hafnarfirði og kynntist ég mörgum góðum sósíalistum.
Flutti svo aftur til Reykjavíkur 1987. Um það leyti ákvað Alþýðubandalagið að ganga inn í ríkisstjórn. Sú ríkisstjórn ákvað að framlengja lög á kjarasamninga og þá fór ég úr flokknum. Aftur kom Alþýðubandalagið að lagasetningu á kjarasamninga launafólks 1990 þegar kjarasamningar kennarafélagsins míns voru afnumdir með lögum. Þeir kjarasamningar höfðu kostað 6 vikna mjög erfitt verkfall.
Ég hafði kvænst í Englandi en uppúr því hjónabandi slitnaði og konan fór með son okkar aftur til Englands. Uppúr 1990 stofnaði ég aftur fjöldsklyldu. Barnsmóðir mín féll frá 1995 og ég varð einstæður faðir með tvö börn, þriggja og fjögurra ára. Nú var ég með svo mikið á minni könnu að pólitík kom mér ekki við lengur. En þegar börnin uxu úr grasi og um hægðist komst ég að því að ég hafði ekki breyst, réttlætistilfinningin var enn jafnsterk og mér fannst ég enn vera sami róttæki vinstrimaðurinn. Gekk þó í engan flokk en kaus jafnan VG. Nú er samband mitt við þann flokk á enda eftir að hann leiddi Sjálfstæðisflokkinn til valda.
Sem betur fer var Sósíalistaflokkur Íslands stofnaður og þar fann ég mikinn hljómgrunn með skoðunum mínum. Ég hef líka átt þess kost að kynnast vinnubrögðunum þar og mér líst vel á. Þarna er fullt af velinnréttuðu fólki sem ég treysti til farsællar baráttu fyrir íslenskt alþýðufólk. Ég er enn þeirrar trúar að samvinnuhugsjónin samræmist sósíalismanum vel. Flokkurinn þarf að vinna að því að löggjöfin um samvinnufélög verði endurskoðuð þannig að tveir eða þrír menn geti stofnað með sér samvinnufélag. Þetta hefur verið gert á hinum Norðurlöndum. Einhvern veginn verðum við að búa svo um hnútana að við þurfum ekki að eiga allt okkar undir grimmum og gráðugum peningaöflum.
Eggert Lárusson er í framboði fyrir sósíalista í Reykjavík #valdiðtilfólksins