Lucyna: Ég skil ekki hvers vegna fólk er ekki brjálað úti á torgum að mótmæla

Hinn Kópavogur

9. Lucyna Dybka
Hinn Kópavogur

Ég er frá Póllandi, en ég er búin að búa á Íslandi í 23 ár og er með íslenskan ríkisborgararétt. Ég er á leigumarkaðnum í dag að greiða 200 þúsund krónur í húsaleigu. Ég talaði einhverntímann við bankann til að reyna að kaupa húsnæði, en með mín laun við umönnun þá komst ég ekki í gegnum greiðslumat. Samt sem áður á ég að geta greitt þessa háu húsaleigu.

Fólki er oft boðið upp á allskyns gluggalausar holur, jafnvel herbergi á 130 þúsund, án sturtu og eldunaraðstöðu. Leigusalar vilja svo oft ekkert af leigjendunum vita en vilja bara fá peningana þeirra. Oft á tíðum má fólk ekki einu sinni hengja upp myndir á veggina og þarf að reyna að festa allt upp með kennaratyggjói.

Verkafólk þarf að hrökklast um í óörygginu á leigumarkaðnum með börnin sín og börnin þurfa jafnvel að skipta um skóla ítrekað sem getur reynst þeim algjörlega um megn. Þetta óöryggi er ekki boðlegt og álagið á fjölskyldurnar er þvílíkt að það veldur oft á tíðum hjónaskilnuðum. Þar eru konur verr settar enda geta karlmennirnir frekar bara greitt þeim meðlag og látið sig hverfa.

Þegar ég bjó í Póllandi gaf móðir mín mér að borða, en núna hér á Íslandi þarf ég að reyna að láta mína enda ná saman og reyna að hjálpa dóttur minni sem er einnig á leigumarkaðnum með barn. Það er svo eitt að geta greitt tryggingargjaldið með fyrstu leigu en bara það að finna íbúð er skelfilega erfitt og dóttir mín er í dag í svo lítilli íbúð að barnabarnið mitt er ekki einu sinni með sér herbergi.

Ég skil heldur ekki þetta virðingarleysi sem viðgengst gagnvart starfsfólki á leikskólum og skólum sem kemur fram í lágum launum þeirra því þetta er fólkið sem er að passa það dýrmætasta sem við eigum, gullin okkar. Þetta er óskiljanleg forgangsröðun.

Þegar ég kom upphaflega til Íslands að vinna var ástandið mun betra. Jú, launin voru léleg, en húsnæðismarkaðurinn var ekki svona hryllilega erfiður og dýr. Ég hef því fylgst með ástandinu hérna fara sífellt versnandi og í gegnum umönnunarstarf mitt sé ég einnig hvernig velferðinni gagnvart gamla fólkinu hrakar. Þetta er fólkið sem er búið að vinna jafnvel alla sína tíð og ganga í gegnum erfiða tíma en greiða sína skatta og skyldur til samfélagsins. Það ætti ekki að þurfa að greiða neitt fyrir þjónustuna á efri árum og það á betra skilið en það sem það fær.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að ástandið er ekkert endilega skárra víða erlendis enda sama þróun í gangi víðar, en þetta þarf alls ekkert að vera svona hérna. Við sem búum við þessi erfiðu kjör verðum að láta í okkur heyra og mótmæla þessari þróun. Ég skil eiginlega ekki hvers vegna fólk er ekki bara brjálað úti á torgum að mótmæla.

Allt á Íslandi er svo klíkuvætt að til þess að finna sér vinnu eða íbúð þarf það að gerast í gegnum einhver tengsl. Ég sé ekki alveg muninn á einhverju mafíósasamfélagi og Íslandi hvað það varðar, auk þess sem hvert spillingarmálið rekur annað. Þegar fólk heldur því fram að það sé ekkert mál að fá vinnu þá er það einfaldlega lygi. Það getur verið mjög erfitt að fá vinnu hér á landi nema einna helst í umönnunargeiranum, en það er jafnvel erfitt fyrir þá sem ekki tala tungumálið. Og hér er fullt af fólki með mjög fjölbreytta tungumálakunnáttu og jafnvel menntun sem ekki nýtist.

Ég hef séð margt ljótt í umönnunargeiranum og mismunun gagnvart erlendu vinnuafli. Íslendingarnir vinna til dæmis aldrei á jólunum heldur er það erlenda vinnuaflið sem tekur þær vaktir og við höfum sjaldnast fengið að ráða því hvenær við tökum sumarfrí, en þar virðast Íslendingarnir ganga fyrir. Við getum reyndar bara þakkað fyrir ef við getum tekið sumarfrí, en ástandið er þannig að maður þarf helst að taka aukavaktir og vinna í öllum fríum til að eiga í sig og á. Ef maður ætlar að leyfa sér eitthvað eins og að taka sumarfrí og fara eitthvert þá krefst það mikillar útsjónarsemi og maður þarf að safna fyrir því í langan tíma á undan og halda svo áfram að vinna fyrir því eftir að maður er kominn heim.

Ég er svona týpa sem segi það sem mér finnst og læt í mér heyra ef mér finnst á mér brotið, en ég hef oft í gegnum tíðina orðið vör við mikinn ótta hjá hinum konunum sem hafa unnið með mér, enda hafa sumir yfirmenn beinlínis níðst á starfsfólkinu og talað við það eins og smákrakka. Sem betur fer er ég ekki í þeirri stöðu þar sem ég vinn í dag. Ég hef samt alveg fengið að heyra spurninguna um hvers vegna ég fari ekki bara heim til mín ef ég er óánægð með eitthvað.

Það er svo mikið virðingarleysi í gangi og það er eins og fólk gleymi því að við innflytjendur erum líka fólk. Ég er íslenskur ríkisborgari og ég hef greitt mína skatta hér í áratugi og ég á alveg jafn mikinn rétt og aðrir á því að komið sé fram við mig af virðingu. Það er eins og við eigum að vera endalaust þakklát fyrir alla hluti. Við eigum að vera þakklát fyrir óíbúðarhæft húsnæði og illa launaða vinnu. Við eigum ekki að láta bjóða okkur slíkt. Við láglaunafólk höldum samfélaginu uppi með hlutfallslega háum skattgreiðslum, en fáum svo jafnvel ekki það sem okkur ber og erum föst í einhverju basli. Verkafólk fær kannski 4% launahækkanir á meðan forstjórar og yfirmenn fá 40% launahækkanir.

Á tímabili vann ég í þremur vinnum, en í dag er ég á einum vinnustað en vinn mikið og tek mikið af aukavöktum. Ég rek bíl enda þarf ég að fara töluverða vegalengd til og frá vinnu og samgöngurnar á Íslandi eru allt of dýrar og lélegar. Þessi borgarlínuumræða finnst mér líka fáránleg því hvers vegna er ekki byrjað á því sem skiptir mestu máli? Komum fyrst þaki yfir höfuðið á fólki og lögum strætósamgöngurnar eins og þær eru í dag og tölum svo um borgarlínu.

Ég hef líka starfað við ræstingar og sú þróun sem hefur verið í gangi þar er skelfileg, en þar er allskyns einkavæðing í gangi og alltaf verið að gera meiri kröfur á færri vinnandi hendur. Starfsfólkið kemst oft ekkert yfir þrifin almennilega og fær svo skít og skammir fyrir að það sé of illa þrifið. Það verður að laga svo margt í þessu samfélagi.

Fólk verður oft svo hrætt þegar það heyrir orðið sósíalismi og heldur að Pútín sé bara mættur á svæðið, en ég hef búið í sósíalísku samfélagi og ég veit hver grundvallarmunurinn er. Þegar sósíalisminn var við líði í Póllandi þá fengu þó allir húsnæði og það fengu allir vinnu. Kirkjan gaf ekkert, enda vill kirkjan alltaf bara fá peninga frá fólkinu en ekki gefa þá, en hjá fyrirtækjum ríkti mun meiri samvinnuhugsun og fyrirtækin hugsuðu oft sérstaklega vel um börnin í samfélaginu. Fólk fékk fremur lág laun, en það vissi allavegana hvar það átti heima.

Lucyna Dybka er í framboði fyrir Sósíalistaflokk Íslands í Kópavogi #valdiðtilfólksins

Kjósið Sósíalistaflokkinn

Stefna

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram