Ævar: Lengi langað í skóla en það er ekki hægt eins og kerfið er í dag
28.04.2018
—Hin Reykjavík
„Ég er fæddur á Höfn í Hornafirði. Mamma var í miklu basli í sínu lífi og pabbi líka, svo ég fór í fóstur fjögurra ára gamall. Eftir nokkra flutninga lenti fósturfjölskyldan á Akranesi, þar sem ég bjó í sautján ár. Þar fékk pabbi starf í Norðuráli á Grundartanga þegar það var stofnað, en hann hafði áður verið sjómaður.
Við misstum íbúðina í hruninu og haustið 2009 lenti ég í bílslysi. Ég fór á endurhæfingarlífeyri hjá Virk, sem var mjög fínt, og fékk árið 2011 starf hjá Bönunum ehf. Því fylgdi mikið álag og árið eftir var ég alveg farinn í bakinu og hætti þar. Árið 2015 var mér skóflað úr bótakerfinu. Þá varð ég lyftaramaður hjá Eimskipum í tvö ár og er núna á lager hjá Húsasmiðjunni.
Heilsan mín er góð í dag, ég hef tekið mig á og ég fékk ágætan stuðning frá Virk. Starfið á lagernum er mjög fínt, þannig lagað. Heiðarlegt láglaunastarf. Við erum sex í minni deild, karlarnir sem ég vinn með eru allir yfir fimmtugt. Sumir hafa verið þarna í þrjátíu ár. Ég sé ekki fram á að vera þarna svona lengi.
Mig hefur lengi langað að fara í skóla og læra sálfræði, en það er ekki hægt eins og kerfið er í dag. Ég þarf vinnuna til að halda mér á floti.
Ég var mjög lengi einn á leigumarkaðnum, sem var mjög íþyngjandi. Það munaði miklu að fá betri helminginn inn í desember. Við borgum 170.000 fyrir sextíu fermetra, námslán myndu seint dekka það. Ef húsnæðismarkaðurinn myndi kólna, þá myndi ég hiklaust fara í nám. Það væri skemmtilegt. Maður vonar.“
Ævar Þór Magnússon er í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn í Reykjavík #valdiðtilfólksins