Novita: Vald yfirmannsins yfir starfsmönnum er gífurlegt

Hin Reykjavík

21. Herianty Novita
Hin Reykjavík

Ég er frá Jakörtu í Indónesíu og kom til Íslands fyrir átján árum síðan, með tveimur börnum og þáverandi eiginmanni mínum, Íslendingi sem ég kynntist í Sádi-Arabíu. Líf mitt í Indónesíu var gott en mig langaði til að skapa fjölskyldu minni líf hérna á Íslandi. Árið 2003 skildum við fyrrum eiginmaður minn og þá varð ég einstæð móðir með þrjú börn. Yngsta barnið mitt fæddist á Íslandi árið 2002. Ég hef mætt ýmis konar erfiðleikum í gegnum árin en alltaf með bros á vör, enda er ég afslöppuð manneskja. Við höfum gengið í gegnum mikla fjárhagserfiðleika. Eitt sinn hafði ég ekki efni á að halda jól fyrir börnin mín en við fengum aðstoð frá Hjálparstarfi kirkjunnar. Ég er mjög þakklát fyrir alla þá hjálp við höfum fengið en stundum hefur þetta verið mjög erfitt og ég þekki það vel á eigin skinni hvernig er að leita eftir mataraðstoð frá Mæðrastyrksnefnd. Vegna persónulegra áfalla fékk ég taugaáfall. Ég man hvernig ég gat ekki hægt að gráta og ofanda. Þegar manneskja er undir miklu álagi og hefur verið sterk í mjög langan tíma, endar það með því að eitthvað gefur sig. Ég á vinkonu sem var mér mjög góð og hjálpaði mér heilmikið á þessum tíma.

Í dag er ég 75% öryrki vegna bakmeiðsla og annarra eftirkasta bílslyss. Árið 2016 byrjaði ég að vinna ég hjá stóru fyrirtæki. Ég átti að vinna í tvær og hálfa klukkustund á hverjum degi og aðra hvora helgi. Árlega þurfti ég svo að endurgreiða ákveðna upphæð til Tryggingastofnunar vegna „krónu á móti krónu“-skerðingarinnar. Það er ekki mikill hvati fyrir þá sem geta unnið smávegis að vera virkir. Stundum vann ég meira en tvær og hálfa klukkustund til að leysa af vegna veikinda eða að það vantaði starfsfólk. Bakmeiðslin tóku á, líkamlegt ástand mitt varð æ verra og langir vinnudagar tóku stóran toll af heilsu minni. Eitt sinn læstist bakið á mér og ég gat ekki staðið upp úr stólnum. Eitt kvöldið þurftu eiginmaður minn og dóttir mín að hjálpa mér í rúmið því ég átti í svo miklum erfiðleikum með að hreyfa mig. Ég hafði spurt tvisvar í fyrirtækinu sem ég starfaði fyrir hvort hægt væri að færa mig yfir í aðra deild eða í annað verkefni sem reyndi ekki eins mikið á bakið á mér. Þetta var stór deild með margvíslegum verkefnum og ýmsum undirdeildum. Svarið sem ég fékk var að það væri ekki hægt að finna vinnu fyrir mig í annarri deild, vegna þess að ég ynni aðeins í tvær og hálfa klukkustund. Þau voru ekki mjög sveigjanleg. Eftir að hafa beðið tvisvar um að vera færð yfir í aðra deild, var mér farið að líða eins og mér væri mismunað vegna fötlunar minnar. Ég var hins vegar vel fær um að gera fleira í fyrirtækinu heldur en að vinna í eldhúsinu.

Eitt sinn var ég kölluð á fund vegna þess að fyrirtækið hafði óvart borgað mér of mikið og þau ásökuðu mig fyrir að hafa ekki tilkynnt það, en sannleikurinn var sá að ég hafði ekki vitað af því. Ég útskýrði þetta fyrir yfirmanninum mínum en hún trúði mér ekki.

Síðar komst ég að því í gegnum Eflingu, stéttarfélagið mitt, að ég á rétt á að fá greitt fyrir fjórar klukkustundir að lágmarki, jafnvel þótt vaktin sé styttri en það.

Vegna þessarar ofgreiðslu, sem ég hafði fengið yfir langt tímabil án þess að vita af því, leitaði ég til Eflingar og þau staðfestu að ég hafði ekki gert neitt ámælisvert. Hvernig átti ég að vita af þessu? Þetta átti sér stað yfir marga mánuði. Ég vissi ekki að launadeildin hafði gert mistök og það var erfitt að eiga við yfirmanninn því hún sakaði mig um að hafa gert eitthvað rangt. Síðar sagði yfirmaðurinn við mig að við gætum komist að samkomulagi, bara okkar á milli. Hún vildi að ég myndi vinna út mánuðinn og hætta í mánuðinum á eftir og þá þyrfti ég ekki að endurgreiða þeim það sem ég „skuldaði þeim“. Hún sagði að þau myndu meira að segja halda kveðjuhóf fyrir mig. Mér leið ekki vel með þetta og hugsaði með mér að þetta væri ekki rétt. Þau hundsuðu alveg réttindi mín, yfirmaðurinn kom illa fram og það tók virkilega á fyrir mig.

Að lokum sagði ég uppi vinnunni. Ég hefði ekki átt að skrifa undir uppsagnarpappírana. Stórfyrirtæki virðast komast upp með mjög margt án þess að þeim sé refsað. Vald yfirmannsins yfir starfsmönnum sínum er gífurlegt. Mig langar til að leggja mitt fram til samfélagsins en tækifærin eru ekki mörg þegar fólk sem getur ekki unnið í öllum kringumstæðum eða fullan vinnu dag mætir mismunun. Vegna líkamlegs ástands míns er margt mjög erfitt fyrir mig, en ég reyni samt sem áður að vera eins virk og ég get. Við þurfum að aðlaga vinnumarkaðinn að starfsfólkinu, við þurfum að búa til lausnir fyrir fólk sem getur aðeins unnið hlutastörf, svo að allt fólk geti lagt sitt fram til samfélagsins. Það að vera þátttakandi styrkir sjálfstraustið og við ættum að auðvelda þeim sem geta tekið þátt að gera það.

Allt fólk ætti að hafa möguleika á að taka þátt í samfélaginu, burtséð frá líkamlegri eða andlegri getu. Við þurfum að gefa fólki möguleika á því að vera virkt, að taka þátt og að leggja sitt fram til samfélagsins. Vinnumarkaðurinn gerir ekki ráð fyrir fólki með skerta starfsgetu. Það ætti að vera grundvallaratriði að fólki sé ekki mismunað eða það útilokað frá þátttöku. Orðræðan í samfélaginu er á þann hátt að bótaþegar séu latir eða þeir vilji ekki vinna. Enginn velur að vera á örorkubótum, fólk endar á þeim eftir að hafa unnið of mikið, reynt of mikið á líkamann og hann brestur undir álaginu.

Í dag er ég meðlimur í fjölmenningarráði Reykjavíkur. Það er mikilvægt að ná til þeirra innflytjenda sem hér búa, að hlusta á vonir þeirra og hugmyndir. Við erum brúin á milli þeirra og þátttöku í samfélaginu. Oft þekkir fólk ekki réttindi sín og það er mikilvægt að fólk af erlendu bergi brotnu viti hvar það getur nálgast upplýsingar um réttindi sín og skyldur sem borgarar. Til dæmis gætum við aðstoðað meira þá sem eru með erlendan bakgrunn og eru að reyna að læra íslensku og gætum boðið upp á fleiri úrræði á því sviði. Við þurfum að starfa saman, þau sem tala íslensku og þau sem hafa ekki náð tökum á tungumálinu. Við ættum öll að starfa saman að því að bæta samfélagið, svo að öllum líði vel hér. Við gætum verið að gera mun meira í því að kynna fyrir fólki ólíka menningarbakgrunna þeirra sem hér búa, og einblínt á að byggja brýr á milli fólks.

Herianty Novita er í framboði fyrir sósíalista í Reykjavík #valdiðtilfólksins

Kjósið Sósíalistaflokkinn

Stefna

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram