Elsa Björk: Svakalegt kjaftshögg að koma heim í hruninu miðju
20.04.2018
—Hin Reykjavík
„Ég brenn fyrir mannréttindum og þoli ekki valdníðslu. Ein birtingarmynd hennar er að kúga fólk peningalega. Ég er fimmtugur öryrki og einstæð móðir og þekki því vel þann veruleika að eiga erfitt með að brauðfæða mig og dóttur mína. Þrátt fyrir það er ég ákaflega bjartsýn, jákvæð og lífsglöð.
Kerfið sem við neyðumst til að reiða okkur á virðist því miður gera ráð fyrir því að öryrkjar hafi sterka fjárhagslega bakhjarla því að kjörin sem okkur eru skömmtuð gera ekki einu sinni ráð fyrir allra brýnustu nauðþurftum. En það eru bara fáir sem geta reitt sig á stuðning annarra og því eru öryrkjar sennilega betur læsir á fjármál en annað fólk því að þeir þurfa mikið hyggjuvit til að komast af.
Fyrir sextán árum tóku verkir yfir líf mitt sem að hluta til má rekja til læknamistaka. Ég beit á jaxlinn og hélt áfram að vinna. Í sex ár var ég með stöðuga verki sem á endanum leiddu til varanlegs heilsubrests og vefjagigt bættist þar við. Fólk á oft erfitt með að skilja vefjagigtina en á köflum hef ég varla getað gengið, þrekið er afar takmarkað og yfir vetrarmánuðina heldur kuldinn mér mikið til inni.
Fljótlega eftir að ég fór á örorku sá ég fram á að hafa ekki aðgang að ýmsum grunnþörfum sem eru forsendur fyrir hamingjuríku lífi. Þá á ég ekki bara við fæði, klæði og öruggt húsnæði, því að ef þú hefur ekki tækifæri og efni á að taka þátt í tómstundum og félagsstarfi þá einangrastu. Það má alls ekki vanmeta þann þátt á leiðinni til betri heilsu.
Ég ákvað því að flytjast til Danmerkur og reyna að búa okkur mæðgum betra lif. Þar tókst mér að lifa á bótunum en hálfu ári seinna dundi hrunið yfir. Vorið eftir urðum við að flytjast aftur heim því að gengisfall krónunnar þýddi að útilokað var að lifa á íslenskum örorkubótum í Danmörku. Sem betur fer fengum við íbúð á langtímaleigu við heimkomuna þar sem við höfum búið síðan, en það er þó óvíst hversu lengi það verður.
Að koma heim í hruninu miðju var svakalegt kjaftshögg eins og ástandið var en ég var samt vel undirbúin. Áður en við fórum heim þræddi ég útsölur í Danmörku með fimm ára dóttur minni og fataði hann upp til tólf ára aldurs. Það var eins og ég væri að búa mig undir stríðsástand eða aðrar hörmungar og sú forsjálni kom sér aldeilis vel.
Við mæðgurnar höfum aðlagað okkur fjárhagslegum aðstæðum okkar með mikilli útsjónarsemi. En ég skar líka strax niður allt sem við mögulega getum verið án og stundum meira til. Svo er ég stöðugt að hugsa fram í tímann og búa í haginn þegar ég sé möguleika á því.
Til þessa að félagsveran ég geti umgengist annað fólk og tekið þátt í lífinu er ég háð því að hafa bíl, sérstaklega yfir vetrarmánuðina. Það var svo loksins í fyrra sem ég fékk bílastyrk frá Tryggingastofnun. Það hefur breytt lífi mínu til hins betra og aukið samfélagsþátttöku mína mikið, en lengi þurfti ég að bíða.
Svona litlir hlutir, eins og styrkur til bílakaupa, geta skipt sköpum fyrir öryrkja, aukið virkni þeirra, stytt bataferli og aukið líkurnar á að við getum komist aftur til vinnu, samfélaginu til hagsbóta á allan hátt. Nú kemst ég í sund þegar ég vil sem er mikilvægt fyrir mig vegna vefjagigtarinnar þar sem ég á miklu auðveldara með að hreyfa mig og liðka skrokkinn í vatni. Svo fór ég að syngja í kór og dreif mig á námskeiðið Gæfuspor fyrir konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi. Það hefur byggt mig svo upp að ég treysti mér meira að segja til þess að taka þátt í stjórnmálastarfi og hingað er ég komin.
Ég er ekki sami öryrkinn og ég var, nú hef ég sæmilega einbeitingu og svolítið meira þrek. Ég vonast eftir og hlakka til að geta byrjað að vinna aðeins aftur, en því miður er allt hirt af okkur með skerðingum á móti þannig að það myndi lítið bæta kjör mín. Ég er lausnamiðaður einstaklingur en það það eru takmörk fyrir því hvernig hægt er að bjarga sér og lyfta upp úr fátækt meðan kerfið er svona.
Ef við ætlum að byggja upp gott og réttlátt samfélag þurfa sem flestar raddir að fá að komast að. Nú er kominn tími til að við, sem reiðum okkur á þjónustu borgarinnar og annarra opinberra aðila, fáum sæti við borðið þegar ákvarðanir eru teknar um líf okkar, kjör og stöðu. Það höfum við ekki fengið fram að þessu.
Elsa Björk Harðardóttir er í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn í Reykjavík #valdiðtilfólksins