Anna: Hef verið á leigumarkaði við verstu aðstæður

Hin Reykjavík

27. Anna Eðvarðsdóttir
Hin Reykjavík

„Ég kem að norðan, fæddist þar og ólst upp. Ég varð fyrir mörgum áföllum þar og veiktist, svo ég flutti til Reykjavíkur með ekkert milli handanna og fór á endurhæfingarlífeyri. Þar lærði ég hvernig það er að vera með engan pening og eiga hvergi heima! En þannig kom ég mér aftur á beina braut.

Upp frá því, í um fimm ár, hef ég verið á leigumarkaði við verstu aðstæður. Nafnið mitt er ónýtt hjá bönkunum. Ég má hvergi leigja hjá leigufélögum, því þau fletta mér öll upp í Creditinfo og maður má ekki skulda neitt. Margir misstu allt í hruninu og komu úr því með skuldir á bakinu, eru í þessari sömu stöðu.

Í dag hef ég komist í dálítið skjól hjá góðum leigusala. Ég er samt hrædd sérhver mánaðamót um að missa leiguna. Ég er ekki kvíðasjúklingur, en fyrir mánaðamótin fæ ég alltaf kvíða. Þetta er engin höll, en þetta er staður sem ég get lifað á. Ef ég dett á leigumarkaðinn aftur enda ég í fátæktargildru, þrátt fyrir að vera ágætlega menntuð. Margir segja þetta sama, menntun bjargar manni ekkert.

Mér finnst heimilið, öruggt húsaskjól, vera grundvallarmannréttindi. Ég meina, hvað ef ég myndi veikjast? Og hvað á ég að gera þegar ég fer á eftirlaun? Ég hef fylgst með félagi aldraðra og ég finn svo til með þeim, og ég sé fram á að lenda í einmitt þeim hryllingi sem þau lýsa. Einu sinni hélt ég að ég gæti farið að spóka mig á Kanarí í ellinni, en það er úti um svoleiðis drauma. Nema ég nái mér í einhvern ríkan kall.

Svo er ég farin að heyra að það sé kreppa í leikskólamálum, að það vanti leikskólapláss. Ég man að þegar ég var að ala upp dóttur mína fékk varla nokkur leikskólapláss nema einstæðar mæður og háskólafólk. Ég skráði mig í háskóla til að fá leikskólapláss, og skammaðist mín svo mikið fyrir að hafa gert það, fyrir að hafa svindlað. Mér finnst svo furðulegt að þetta skuli aftur hafa orðið vandamál í dag.

Ég vinn á velferðarsviði Reykjavíkurborgar, þar sem lægstu launin eru. Vinnan er samt mjög gefandi og góð. Svo er ég í dálitlu námi með fram vinnunni í Háskóla Íslands. En mig vantar alvöru heimili. Þess vegna brenna húsnæðismál á mér, þau hvetja mig til dáða. Meirihlutinn í borginni montar sig af úthlutun lóða til óhagnaðardrifinna félaga, en það eru næstum bara íbúðir fyrir nemendur. Það er fullt af fólki sem missti allt í hruninu sem er læst inn á þessum brjálaða leigumarkaði. Og mörg af þeim, eins og ég, fá ekki einu sinni að leigja hjá kapítalistunum. Við þurfum öruggt húsnæði líka.“

Anna Eðvarðsdóttir er í framboði fyrir sósíalista í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor #valdiðtilfólksins

Kjósið Sósíalistaflokkinn

Stefna

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram