Magdalena: Fólk þarf að vera í tveimur vinnum bara til þess að lifa af

Hin Reykjavík


Hin Reykjavík

„Mamma flutti hingað frá Póllandi á tíunda áratugnum. Ég heimsótti hana oft á sumrin og flutti svo til hennar eftir að ég kláraði menntaskóla. Í byrjun bjó hún í Stykkishólmi þar sem hún vann á dvalarheimilinu. Hún náði fljótlega að eignast hús og bíl. Vá hvað þetta er fínt land, hugsaði ég, maður getur keypt sér hús eftir nokkur ár í einni venjulegri vinnu.

Mamma hafði líka sagt mér að á Íslandi fengi maður meira útborgað ef maður myndi mennta sig – það var nefnilega ekki þannig í Póllandi. Ég kláraði ba-gráðu í ensku í háskólanum og fór síðan í master í þýðingafræði til að geta þýtt á milli íslensku og pólsku. Þegar ég kláraði var kreppan skollin á svo ég ákvað að flytja aftur út. Það höfðu verið orðið breytingar í stjórnmálunum í Póllandi svo ástandið virtist ætla að verða betra. Ég var fjögur ár úti og rak mitt eigið tískufyrirtæki. Svo flutti ég til Kanada í smá stund.

Þá var ég hins vegar farin að sakna mömmu og fjölskyldunnar. Ég hafði eignast minn stað á Íslandi, svo ég ákvað að flytja til baka. Vinir mínir vöruðu mig við: „Ekki gera það, ástandið er ekki eins og það var!“ Ha? Ég trúði þeim ekki og keypti flugmiða.

Þegar ég kom aftur fann ég strax að hlutirnir höfðu breyst. Það var algjört stríð að finna íbúð. Í tvo mánuði þurfti ég að búa inni á frænku minni í Njarðvík. Ég fór örugglega að skoða einhverjar hundrað íbúðir á þessum mánuðum. Það var alltaf löng röð af fólki og svo var maður tekinn í viðtal: „Hvaðan ert þú, hvað ertu búin að vera hérna lengi, hvar vinnur þú?“ Oh my god, ég var ekki einu sinni komin með vinnu.

Mér tókst loksins að finna íbúð í miðbænum en þurfti að borga 600 þúsund krónur og fyrsta mánuðinn fyrir fram. Ég var heppin að vera búin að safna smá pening og eiga mömmu sem gat lánað mér eitthvað svo mér tókst að eiga fyrir þessu. Þetta er samt bara tveggja herbergja íbúð og kostar 190 þúsund krónur á mánuði – vinkonur mínar voru að borga 90 þúsund krónur fyrir svipaðar íbúðir í miðbænum fyrir örfáum árum. Dóttir mín getur ekki einu sinni haft sitt eigið herbergi, en þetta var bara það eina sem var í boði. Það er mjög óþægilegt að vera í svona viðkvæmri stöðu, leigusalinn gæti alltaf hringt í mig sagt: „sorrí, þú þarft að flytja út.“ Og hvað gerir maður þá?

Ég fann líka hvernig ástandið á vinnumarkaði hafði breyst. Fyrir nokkrum árum var ekkert mál að fá fína vinnu. Jafnvel þó maður sé búinn að mennta sig er þetta rosalega erfitt í dag. Ég hafði verið með mitt eigið tískufyrirtæki úti og hugsaði að ég gæti þess vegna starfað sem verslunarstjóri í einhverri tískubúð – H&M var til dæmis að opna. En alls staðar þar sem ég sótti um var mér bara boðið 1400 krónur á tímann eins og ég væri krakki með enga reynslu. Ég ákvað þá frekar bara að fá vinnu á Kaffi París þar sem vinkona mín var líka. Það er ágætt, en ekki starf fyrir hámenntað fólk. Það er bara svo erfitt að finna góða vinnu.

Núna er ég komin í stjórn Eflingar. Í kosningabaráttunni hringdum við í mörg hundruð manns og spurðum fólk út í líðan þess. Ég sá um að hringja í Pólverjana og það var greinilegt að margir höfðu það mjög slæmt. Oft búa margir karlar saman í einu herbergi í eigu vinnuveitandans. Fólk er oft ekki með neinn samning. Vinnuveitendur hugsa oft að útlendingarnir skilji ekki íslensku og þekki ekki réttindi sín og þess vegna sé hægt að svindla á þeim.

Ég var aldrei neitt sérstaklega pólitískt en eftir að ég flutti aftur og sá hvernig hlutirnir höfðu breyst gat ég ekki horft upp á þetta. Í mínum huga hafði Ísland verði land þar sem maður gat unnið og haft tíma fyrir fjölskylduna, en núna þarf fólk að vera í tveimur vinnum bara til þess að lifa af og hefur engan tíma fyrir börnin. Ef ég get gert eitthvað til að hjálpa, standa með fólki til að breyta Íslandi þá er ég til í það. Það er ekki nóg að kvarta bara heldur verðum við að gera eitthvað í málunum. Við verðum að standa saman og segja: „nei, við sættum okkur ekki við þetta lengur!“

Magdalena Kwiatkowska, er í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn í Reykjavík#valdiðtilfólksins

Kjósið Sósíalistaflokkinn

Stefna

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram