Sanna Magdalena: Stundum borðuðum við ekkert í langan tíma

Hin Reykjavík

1. Sanna Magdalena Mörtudóttir
Hin Reykjavík

„Ég ólst upp hjá einstæðri móður sem vann í tveimur störfum, sem leiðbeinandi á leikskóla og eftir fullan vinnudag skúraði hún leikskólann. Sama hvað, þá dugðu launin aldrei út mánuðinn, ekki einu sinni fyrir helstu nauðsynjum. Á tímabili þegar hún skúraði ekki leikskólann, vann hún við þrif í Kaupþingi, bláfátæk svöng kona að þrífa fyrir ríku viðskiptamennina. Ég held að margir geri sér raunverulega ekki grein fyrir því að hér á landi sé fólk sem á ekki eina einustu krónu og getur ekki keypt sér mat. Leit að klinki er eftirminnileg úr minni æsku. Þá var leitað í öllum vösum og töskum og sófapullum snúið við í von um að finna klink. Sófinn líkt og önnur húsgögn fengum við gefins, því við höfðum ekki efni á slíku. Einu sinni áttum við mæðgur bara eitthvað tuttuguogníu krónur og það eina sem við höfðum efni á, var rúlla af póló myntum sem við skiptum á milli okkar. Þarna er búið að tæma alla reikninga, hjóla með allar flöskur og fara í Mæðrastyrksnefnd. Við lifðum dag frá degi en stundum reddaðist þetta bara alls ekki og við borðuðum ekkert í langan tíma.

Á tímabili áttum við ekki ísskáp, síma né þvottavél, við áttum þó gamalt sjónvarp, það kom mynd en reyndar ekkert hljóð. Þegar mamma fyllti út eyðublöð á skrifstofum, skildi hún síma, gsm og netfang eftir autt, því við höfðum ekki efni á þessum tækjum. Svo þegar veikindi áttu sér stað þurfti að labba í tíkallasíma til að tilkynna það en þá þarftu náttúrulega að eiga klink. Í veikindum hefur maður ekki heilsuna til að rölta út í síma en svona er þetta, það er rosalega mikið vesen sem fylgir því að vera fátækur. Eftir tæpa þriggja ára bið fengum við félagslega íbúð í efra Breiðholti, þá var ég tíu ára og við fluttum þá úr Austurbænum. Rúmu ári áður hafði birst viðtal við mömmu í Fréttablaðinu um okkur „mæðgur á götunni“ ásamt stórri mynd af okkur á blaðsíðu númer tvö. Þegar ég mætti í skólann daginn eftir, benti bekkjarbróðir minn í átt til mín í frímínútum og kallaði upphátt „hún býr á götunni“. Þá hugsaði ég með mér að tæknilega séð byggjum við ekki á götunni, við myndum fá að vera tímabundið hjá ömmu. Við yrðum samt húsnæðislausar ef við fyndum ekki íbúð á viðráðanlegu verði. Þarna var maður með þessa meðvitund, ný orðin níu ára og vissi að leigulistinn væri ekki að bjóða upp á neitt.

Í dag er móðir mín á örorkubótum því fátæktin bugaði hana andlega, hversu ógeðslegt er það að kerfisbundið óréttlæti geri fólki þetta. Hef horft upp á hana í kvíðakasti þar sem hún heldur að hún sé að deyja, þetta er það sem streitan í kringum fátækt gerir fólki. Einu sinni kom ég að móður minni rænulítilli liggjandi á eldhúsgólfinu. Sama hvað ég gerði þá rumskaði hún ekki, ég endaði með að hringja á sjúkrabíl. Þegar hún rankar við sér á sjúkrahúsinu tjáir hún mér að hafa ekki borðað svo lengi, þess vegna hafi verið komið svona fyrir henni. Þar sem hún vildi ekki valda mér óþarfa áhyggjum, hafi hún ekki sagt mér frá því hversu slæmt ástandið væri.

Í dag er ég mannfræðingur að mennt og er stórskuldug eftir BA og MA nám. Erfitt var að sinna vinnu samhliða námi og tíðum mígrenisköstum. Námslánin eru ekki raunhæf, sem rekur mann í gin annarra stofnanna, það er ekkert elsku mamma og pabbi í boði. Himinhá yfirdráttarheimild, Framtíðin lánasjóður í eigu GAMMA, Netgíró til að greiða fyrir mat og smálán er eitthvað sem maður þekkir vel. Ég hef tekið lán til að borga lán, það er nefnilega dýrt að vera blankur. Þetta gerir maður af þörf þrátt fyrir meðvitund um himinháa vexti. Mér finnst algjörlega út í hött að margir sem sitja við stjórnvölin hafa oft enga innsýn í reynslu almennings og lifa margir í algjörri forréttindabubblu. Fjármagnseigendur ættu ekki að hafa það vald að hagnast á viðkvæmri stöðu einstaklinga, gróði þeirra ætti ekki að byggja á örvæntingarneyð einstaklinga. Mannúðlegra kerfi er eitthvað sem ég vil sjá, þar sem ekki er komið fram við fólk eins og einnota vél sem má henda á haugana þegar hún hættir að virka.“

Sanna Magdalena Mörtudóttir er í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn í Reykjavík #valdiðtilfólksins

Kjósið Sósíalistaflokkinn

Stefna

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram