María: Þekki fátækt, heilsubrest, lélegt og dýrt leiguhúsnæði, áföll og langvarandi álag
19.04.2018
—Hin Reykjavík
„Ég styð framboð Sósíalistaflokks Íslands því eins og segir í stefnu hans þá er hann „flokkur launafólks og allra þeirra sem búa við skort, ósýnileika og valdaleysi“.
Fátækt og heilsuleysi er í langflestum tilvikum ekki sjálfskaparvíti heldur afleiðing flókins pólitísks samspils sem er stjórnað af þeim sem hafa völd og fjármagn. Sveitarfélag getur gert margt til að auka jöfnuð og færa valdið til fólksins.
Hér á eftir vil ég vitna um mörg erfið vandamál borgarbúa sem stjórn borgarinnar gæti leyst eða verið leiðandi afl í að breyta.
Ég hef búið í Reykjavík sl. 40 ár ef frá er talin styttri búseta á nokkrum öðrum stöðum. Hverfið sem ég bý í núna er það fimmta í borginni sem ég bý í. Börnin mín eru öll fædd og uppalin í Reykjavík. Ég eignaðist þrjú börn, en það elsta lést á tuttugasta og fyrsta ári. Sjálf er ég fædd og uppalin á Vestfjörðum. Ég ólst upp við lítil efni og tók þátt í grunnatvinnuþáttum landsins s.s. landbúnaði, störfum á stóru sveitaheimili, fiskvinnu og útivinnu við beina uppbyggingu bæjarfélags auk ýmissa annarra starfa. Að vinna var jafn sjálfsagt og að draga andann.
Á þessum áratugum sem ég hef búið í borginni hef ég kynnst mörgum vanda sem ótal margir þurfa að búa við. Þar á ég m.a. við fátækt, heilsubrest, lélegt og dýrt leiguhúsnæði, áföll af ýmsum toga og langvarandi álag. Bæði hef ég og börnin mín verið í þessum aðstæðum og einnig hef ég kynnst málum í gegnum vinnuna mína og í kunningsskap við fjölmargt fólk.
Ég er hjúkrunarfræðingur og starfaði sem slík í nær þrjá áratugi. Stærstan hluta uppvaxtar barna minna var ég einstætt foreldri. Ég hef alltaf búið við mjög takmörkuð efni, áður sem námsmaður og seinna sem einstætt foreldri. Ég kom upphaflega af landsbyggðinni og þekkti ekki réttindi mín sem borgarbúi fyrstu 20 árin, en í uppvexti mínum úti á landi var það gjarnan mottó fólks að bjarga sér sjálft á eigin forsendum. Því miður er oft við ofurefli að etja þó viljinn til að bjarga sér sé fyrir hendi og nauðsynlegt fyrir fólk að fá upplýsingar og að þekkja réttindi sín.
Eitt af því sem Reykjavíkurborg þarf að breyta eru ýmir þættir í skóla – og vinnustaðamálum. Laun borgarstarfsmanna, ekki síst kvenna, eru allt of lág og vinnuálag mikið. Ég þekki það að vera einstætt láglaunaforeldri þriggja barna, sem þar að auki þurftu aukna umönnun vegna langvarandi heilsuvanda. Þannig staða þýðir ekki einungis fátækt heldur líka félagslega einangrun,viðvarandi andlega og líkamlega ofþreytu og dökka framtíðarsýn. Ég er ein af þeim mörgu konum sem varð öryrki fyrir miðjan aldur þó ég ynni hlutavinnu áfram og ofan á þetta bættust vandamál tengd skólagöngu barna minna. Öll börnin mín lentu í einelti og hópelti í nokkrum grunnskólum Reykjavíkur. Einelti og hópelti er alvarlegt ofbeldi, stundum lífshættulegt. Ég þurfti tvívegis að taka barn úr skóla og færa í annan í þeirri veiku von að sá næsti yrði skárri. Í annað skiptið heppnaðist það vel en ekki í hitt. Einelti og hópelti er samfélagsmein og stjórn borgarinnar gegnir mjög veigamiklu hlutverki í að draga úr einelti og hópelti bæði í skólum og á vinnustöðum. Það er mikið talað um aukna örorku meðal yngra fólks; gæti ekki verið að eineltisáhrif, meðfylgjandi fælni frá hópum s.s. skólum og vinnustöðum, ættu þar hluta að máli? Annars er lausnin stjórnunarlegs eðlis og þannig pólitísk, stjórn sveitarfélags á ekki að etja notendum og starfsfólki hvort gegn öðru þar sem einelti kemur upp og firra sig þannig allri ábyrgð. Reyndar þekki ég sjálf líka meinið á vinnustöðum almennt og skrifaði grein um málefnið sem birtist í Vísi 8. nóvember 2017.
Fjölskyldur sem búa við fátækt og heilsuleysi hafa ekki aðstæður til að taka þátt í menningarviðburðum, íþróttum,ferðalögum og tómstundariðkunum almennt. Það þekkjum við, ég og mínir afkomendur og margir aðrir sem ég hef hitt. Það er mjög andlega letjandi fyrir alla, ekki síst ungmenni, að geta ekki verið með og ástandið á sjálfsagt þátt í gífurlegri aukningu á þunglyndi og uppgjöf meðal ungs fólks á Íslandi.
Að húsnæðismálum. Í fyrsta leiguhúsnæðinu sem ég bjó í eftir háskólanámið kom upp falin mygla og ég er ekki frá því að það hafi orðið til þess að virkja þá sjúkdóma sem elsta barnið mitt fékk á síðasta ári okkar í íbúðinni. Þekking á eituráhrifum myglu var nær engin á þeim tíma en nú er sannað að mygla er skaðleg heilsu. Því miður er mörgum leigjendum og efnalitlum húsnæðiskaupendum boðið uppá sýkt húsnæði þrátt fyrir það.
Á 9. áratugnum keypti ég mér litla íbúð en það var mjög erfitt að ráða við afborganir vegna efnahagskreppunnar sem þá var. Eignarhlutur minn í íbúð á næstu 25 árum varð mest 15% vegna lánaumhverfis, endurfjármögnunar vegna viðhalds og vegna lágra launa minna sem orsökuðu vanskil á afborgunum. Ég gat ekki lengur staðið við skuldbindingar gagnvart hækkandi láni á árunum eftir hrun 2008 og á sama tíma stóð ég líka í gríðarlegum kostnaði vegna heilsufarsvanda. Þannig missti ég eignina og fór á almennan leigumarkað þar sem ríkti siðlaust frumskógarlögmál og reynslan skildi eftir óbragð í munni og algjört peningaleysi en síðan var ég svo heppin að komast í íbúð á góðum stað á vegum Öryrkjabandalagsins. Margir sem ég kannast við á leigumarkaði þurfa að flytja einu sinni á ári og jafnvel oftar. Það er algjörlega ólíðandi ástand sem eyðileggur jafnvel heilsu og hamingju fólks. Krafan hlýtur að vera að borgin byggi gæðahúsnæði fyrir fólk án gróðasjónarmiða.
Þá sárvantar hjúkrunarheimili fyrir þau sem á því þurfa að halda. Eldra fólk með skerta heilsu vill fá að ráða því hvort það býr áfram heima með aðstoð eða flytur á hjúkrunarheimili. Hvernig sem það er þá á umræðan að vera með þátttöku fólksins sjálfs og gildir þá að fólk hafi sjálft möguleika á að móta stefnuna og byrji helst í síðasta lagi um 60 ára því áratugum seinna gæti slæm heilsa skert möguleika fólks á þátttöku í þessari stefnumótun.
Það er þörf á góðum almenningssamgöngum í borginni sem menga sem minnst. Ég er ein af þeim sem hef ekki efni á að eiga og reka bíl og nota mikið strætó eða geng. Í fyrra setti ég inn tillögu í verkefni borgarinnar, „Hverfið mitt“ á netinu þar sem íbúum gafst kostur á að koma með tillögur eða kjósa tillögur. Mín tillaga var um stórbætta aðstöðu fyrir farþega Strætó í Mjódd því aðstaðan er svo léleg og sóðaleg að það er beinlínis niðurlægjandi fyrir notendur að vera þar. Þetta varð næstvinsælasta tillaga hverfisins, en samt hefur ekki mikið verið gert til bóta.
Ég styð Sósíallistaflokkinn vegna markmiða hans, m.a. um jöfnuð og samkennd. Ég vil að borgarmálin séu undir valddreifðri stjórn og að almannahagsmunir ráði för.“
María Gunnlaugsdóttir er í framboði fyrir sósíalista í Reykjavík #valdiðtilfólksins