Ragnheiður Ásta: Ég vil jöfnuð í þjóðfélaginu

Hin Reykjavík

31. Ragnheiður Ásta Pétursdóttir
Hin Reykjavík

„Ég er einkabarn foreldra minna, þeirra Birnu Jónsdóttur og Péturs Péturssonar útvarpsþular. Það má segja að ég hafi verið alin upp í ríkisútvarpinu. Ég man eftir útvarpsútsendingunum í Landssímahúsinu við Austurvöll þar sem útvarpið var, en ég fór oft með pabba þangað í vinnuna sem lítil stelpa.

Langamma mín keypti sig lausa frá vistarbandi árið 1894. Þá var henni heimilað að vera undanþegin vistarbandi og var frjáls ferða sinna. Þá var hún orðin 55 ára og vafalaust hokin af striti. Hún var vinnukona á Þorleifsstöðum í Fljótshlíð. En auðvitað var hún bara þræll fram að 55 ára aldursári þegar hún loksins fékk frelsið.

Dóttir hennar er síðan amma mín í föðurætt. Amma varð ekkja á Eyrarbakka, þá móðir 11 barna. Þessi amma mín var alltaf róttæk og mikil baráttukona í Alþýðuflokknum. Hún var skapmikil eins og og börnin hennar og öll voru þau vinstrisinnuð á sinn hátt, en fjölskyldan klofnaði þó í Alþýðuflokkinn og Kommúnistaflokkinn.

1. maí skiptist kröfugangan í tvær göngur sem voru mis róttækar. Ásgeir frændi og pabbi fóru í róttækari gönguna en hin fóru í venjulegu gönguna. Þá fór amma að hágráta af því að fjölskyldan gat ekki sameinast í sömu gönguna. Fjölskyldur voru samheldnar í þá daga, en það hefur breyst eins og margt annað. Sjálf fer ég enn í 1. maí gönguna þótt mér finnist hún vera orðin hálf fáránleg og ekki svipur hjá sjón, nokkrar hræður sem safnast saman á Ingólfstorgi.

Þegar ég fermdist 1955 var verkfall og pabbi og mamma gengu út frá því að það yrðu slagsmál á fermingardeginum sem var 1. maí. Baráttan var herská í þá daga. Sem betur fer leystist verkfallið fyrir ferminguna og ég fermdist í frið og spekt. En þetta segir mér að stéttabaráttan var miklu öflugri í mínu ungdæmi heldur en hún hefur verið undanfarin ár. Pabbi sagði mér sögur af vinnandi fólki og hvernig það barðist fyrir réttindum sínum, eins og vinkonu sinni sem var ófrísk en lét sig hafa það að fara eftir vinnu og grafa grunninn að Alþýðuhúsinu.

Þegar ég var ung með drengina mína tvo og bjó ég hjá pabba og mömmu sá ég auglýsingu í Alþýðublaðinu eftir konu í þularstarf. Ég sótti um starfið ásamt 100 öðrum konum og við vorum þrjár sem fórum í prufu en ég hreppti starfið. Þar átti ég eftir að vinna í 44 ár. Mér fannst alltaf gaman í vinnunni. Þar vann ég með skoðanabróður mínum í pólitík, honum Jóni Múla, sem ég giftist. Pólitík bar hins vegar aldrei á góma í vinnunni, ég man ekki eftir því. En það getur verið að ég hafi útvarpað aðeins meira af hvetjandi músík í kringum 1. maí.

Ég var alltaf róttækari en foreldrar mínir. Ég var róttæk eins og Ásgeir frændi sem var hafnarverkamaður. Samt vildi pabbi leggja niður peninga sem hann taldi aðgerð sem stuðlað gæti að stéttlausu þjóðfélagi. Ég var í framboði fyrir Alþýðubandalagið 1963. Þá var ég yngsta manneskjan á listanum, Ragnar Skjálfti var næstur mér í aldri á framboðslistanum. Í dag er pólitíkin alveg galin. Að íhaldið skuli halda velli er alveg með ólíkindum.

Ég vil að fólk fái laun fyrir sína vinnu. Ég vil jöfnuð í þjóðfélaginu. Það er til skammar hvað fólk fær lág laun og svo græðir einhver óþjóðalýður. Það er búið að rústa öllu. Allt í einkavæðingu; Bæjarútgerðin var seld í einkaeign og verkamannabústaðirnir voru aflagðir. Hugsið ykkur! Þegar ég var barn var allt miklu betra.“

Ragnheiður Ásta Pétursdóttir er í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn í Reykjavík#valdiðtilfólksins

Kjósið Sósíalistaflokkinn

Stefna

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram