Reinhold: Beðið alla ævi eftir hreinræktuðum verkalýðsflokki

Hin Reykjavík

7. Reinhold Richter
Hin Reykjavík

„Ég vil leggja Sósíalistaflokki Íslands lið því ég hef beðið alla ævi eftir hreinræktuðum verkalýðsflokki.

Þó ég teljist kannski til millistéttar í dag, orðinn 62 ára gamall, þá var mín leið í skuldlausa höfn ekki auðveld í ólgusjó og brimróti lífsins.

Foreldrar mínir skildu er ég var á fjórða ári og móðir mín ól okkur þrjú systkinin upp einstæð. Hún var alltaf í tveim til þrem vinnum frá morgni fram á kvöld og allar helgar í blárri fátækt. Við áttum lengst af heima á Njálsgötunni og ég bar út Þjóðviljann seldi Vísi og allskonar merki til að eiga í bíó og eignast fótboltaskó. Ekki spyrja mig hvernig mamma sá fram úr þessum mikla vanda og neyð sem var hlutverk einstæðrar þriggja barna móður og verkakonu.

Ég var sendur norður á Drangsnes til afa og ömmu fjögurra ára í frábært yfirlæti. Afi og amma voru verkamenn í þessu litlu sjávarplássi alla sín ævi. Amma var mikil hugsjónakona og sósíalisti, það var hún sem stjórnaði á heimilinu. Þessi misseri sem ég dvaldi hjá ömmu og kynnin við hana mótuðu mína pólitísku sýn á lífið og tilveruna. Amma vann í frystihúsinu langt fram á áttræðisaldur. Hún dó 1983, áttatíu og tveggja ára. Hún fórnaði liðum og limum í erfiðisvinnu til að framfleyta sér og sínum. Þegar hún dó var líkami hennar eins og hjá tíræðri manneskju.

Þessi vísa ömmu, sem hún orti á gamals aldri, segir margt:

Þó ég hafi starfið stranga
stundað eins og best ég gat
mega aldrei af mér ganga
áhyggjur um föt og mat

Móðir mín datt í lukkupottinn 1966 er hún fékk framkvæmdanefndaríbúð á Grýtubakkanum, í fyrstu blokkinni í neðra Breiðholti. Ég var fyrirmyndarkrakki en rakst svo illa í hóp sem unglingur; ofvirkur, vímusækinn og einstaklega erfiður bæði mínu fólki og skólayfirvöldum.

Fimmtán ára var ég alveg hættur í skóla og farinn að vinna bæði til sjávar og sveita. Um tvítugsaldur fór ég að vinna sem verkamaður við járnsmíðar í Landsmiðjunni. Það varð svo ævistarfið að vinna við járniðnað utan fimm ár sem ég vann hjá SÁÁ sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi.

Ég var heppinn eins og mamma og fékk lítið raðhús í verkamannabústaðarkerfinu fyrir 30 árum, ungur maður með fjölskyldu og skuldahala á leigumarkaðinum. Það var okkar happ. Nú er löngu búið að leggja niður þetta kerfi sem gerði mér og mörgum öðrum kleyft að losna úr fátæktargildrunni.

Í dag er ég sextugur millistéttargaur og vinn sem aðaltrúnaðarmaður vinnufélaga minna hjá ÍSAL. Ég hef það bara fínt efnahagslega og skortir ekkert. Nema sanngjarnt og réttsýnt þjóðfélag fyrir börnin mín og barnabörn. Samviska mín öskrar á mig, og mitt pólitíska uppeldi sem ég fékk hjá ömmu minni krefst þess, að ég leggi þessu kærkomna framboði lið.“

Reinhold Richter er aðaltrúnaðarmaður hjá ÍSAL. Hann er í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn í Reykjavík #valdiðtilfólksins

Kjósið Sósíalistaflokkinn

Stefna

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram