Reynir: Búinn að borga bílalánið þegar ég verð hundrað ára
22.04.2018
—Hin Reykjavík
„Ég fæddist árið 1932 á Helgastöðum fyrir norðan. Þetta er gamall kirkjustaður og fyrstu tuttugu ár ævinnar, þegar ég bjó þar, voru dásamleg. Pabbi var bóndi og átti tíu börn, ég var sá þriðji yngsti. Ég hjálpaði öll sumrin í heyskap en lærði líka að spila á harmóníum og lesa á nótur tíu ára gamall.
Þegar ég hóf nám í Menntaskólanum á Akureyri fékk ég alt-saxófón, mitt fyrsta hljóðfæri, og byrjaði í hljómsveit. Við reyndum að spila djass og dægurlög, það sem var vinsælt í útvarpinu. Á sumrin spilaði ég á harmonikku á sveitaböllum. Allar mínar tekjur hafði ég af tónlist, og hef alltaf haft. Eftir menntaskóla reyndi ég mig við guðfræði í þrjár vikur, en svo þurfti ég að fara heim að mjólka kýr því mamma veiktist. Ég hef fengið alveg nóg af kirkjum síðan.
Ég ætlaði alltaf að verða dýralæknir, það var mikill skortur á þeim hér áður. Eftir langa bið komst ég loks í nám, ‘56 í Osló. En þegar ég hafði komist út með spariféð var krónan felld um þriðjung, svo það var úti um þá sögu. Þar fyrir utan er ég skíthræddur við dýr, jafnvel ketti, svo ég tali nú ekki um fugla! Svo það hefði sennilega aldrei orðið af þessu. En úti kynntist ég alls kyns tónlistarfólki, eins og Henry Hågenrud, miklum harmoníkuleikara.
Eftir að ég kom heim fór ég í bæinn að leita eftir kytru til að búa í. Á auglýsingadeild Vísis tók á móti mér Svavar Gests, sem bauð mér undir eins að spila á nikku og saxófón í hljómsveit sem hann var að stofna. Á svipuðum tíma komst ég í tæri við pípuorgel í fyrsta skipti, í Hafnarfjarðarkirkju, og byrjaði að æfa á það á morgnana en spilaði með hljómsveitinni á kvöldin. Þetta var sælulíf, ekki síst eftir að ég eignaðist bíldruslu til að keyra á milli.
Haustið ‘63 kvæntist ég og flutti til Húsavíkur. Þar tók ég við skólastjórn tónlistarskólans, var organisti og söngstjóri kirkjunnar og stjórnaði lúðrasveit. Þar var ég í átta ár, en seinna var ég í 29 ár organisti í Neskirkju fyrir sunnan. Það þótti mér skemmtilegt, því pabbi hafði verið organisti í Neskirkju fyrir norðan.
Um aldamótin var ég að kenna við tónlistarskóla Garðabæjar og tók saman við Agnesi Löve, skólastjórann. Við gengum í hjónaband og keyptum okkur hús í Breiðholti sem við eigum nú skuldlaust. Það er mikið happ, enda væri nokkru verra ef við þyrftum að borga húsaleigu í þessu árferði.
Það kom sér líka vel þegar bíllinn minn gaf upp öndina um daginn. Ég stóðst ekki greiðslumat, 215 þúsund króna útborgun á mánuði dugði ekki til. Svo ég tók það sem ég kalla hundrað ára lán út á húsið, lán sem verður borgað upp þegar ég verð hundrað ára. Og ég er líka heppinn að geta spilað í veislum og haft auka tekjur af því.
Ættingjar mínir voru flestir miklir sósíalistar og þótt sumum þyki fínt að fara leynt með stjórnmálaskoðanir sínar, þá hef ég aldrei dregið dul á mínar. Ég kaus Sósíalistaflokkinn hér áður og var líka með við stofnun VG. En ég var móðgaður og hneykslaður á samstarfi þeirra við Sjálfstæðisflokkinn. Það hefur reynst algert glapræði.“
Reynir Jónasson er í framboði fyrir sósíalista í Reykjavík. #valdiðtilfólksins