Styrmir: Öryrkjar, leigjendur, innflytjendur og láglaunafólk ætla að komast að borðinu
23.04.2018
—Hin Reykjavík
„Ég er einn þeirra fjölmörgu íslensku öryrkja sem mætti kalla „efnahagslega flóttamenn“ á Spáni. Í vetur hef ég haldið til í Málaga og nágrenni og í fyrsta sinn síðan ég veiktist árið 2005 finnst mér ég lifa mannsæmandi lífi án þess að hafa nagandi áhyggjur af næstu mánaðamótum. Um leið og ég hlakka til að koma heim aftur núna í maí kvíði ég afkomu minni því að framfærslan sem mér er skömmtuð dugar ekki til á Íslandi, og langt frá því.
Fyrstu mánuði síðasta árs velti ég mikið fyrir mér stöðu minni og hvort ég gæti með einhverju móti hafið mig upp úr fátækt og basli sem verið hefur veruleiki mitt allt of lengi – þrátt fyrir dyggan stuðning fjölskyldu, frændgarðs og vina – og stefndi bara í að versna. Það er hægt að búa við að vera blankur tímabundið en langvarandi fátækt er allt annað og erfiðara hlutskipti.
Ég hafði ekki leyst út lyfin mín um hríð og sá ekki fram á að eiga fyrir læknisheimsókn sem var framundan. Hvort tveggja mátti rekja til ákvarðana stjórnvalda. Annars vegar um miklu meiri skerðingar en áður vegna atvinnuþátttöku og hins vegar breytinga á greiðsluþátttöku vegna heilbrigðisþjónustu. Auk þess ýkti nýtt húsnæðisbótakerfi enn skerðingarnar þó að nýlega hafi verstu agnúarnir verið sniðnir af því gagnvart okkur leigjendum. Sjálfsagt hefði ég getað forgangsraðað betur, lifað einfaldara, dyggðugra og fábrotnara lífi, en það eru takmörk fyrir því.
Mér fannst ég standa frammi fyrr tveimur valkostum. Að draga mig alveg í hlé frá samfélaginu og láta óréttlætið bara yfir mig ganga og sætta mig við það sem að mér er rétt, nánast slökkva á mér, eða reyna að vekja athygli á stöðunni og berjast fyrir réttlæti. Þá gerði ég upp við mig að ég vildi ekki taka að mér hlutverk fórnarlambsins. Ekki síst þriggja sona minna vegna ákvað ég frekar að reyna að leggja það sem ég get af mörkum í baráttunni fyrir betra og réttlátara samfélagi.
Það fyrsta sem ég gerði var að mæta á stofnfund Sósíalistaflokks Íslands 1. maí og fylltist von. Svo byrjaði ég að fjalla um kjör öryrkja á Facebook og víðar þó að mér hafi þótt erfitt að stilla sjálfum mér upp í því samhengi. Það breytti því þó ekki að ég sá engan veginn fram úr fjármálunum og ákvað með skömmum fyrirvara að skrapa saman fyrir farseðli aðra leiðina til Spánar, það stefndi því í fyrstu utanlandsferðina í þrettán ár með haustinu. En með því var ég líka að lýsa yfir og segja sjálfum mér og öðrum að ég ætti betra skilið, að fá að lifa betur um skeið.
Núna er málum hagað þannig að af hverjum 50.000 kr. sem öryrki í svipaðri stöðu og ég gæti unnið sér inn koma aðeins 10.000 kr. í hans hlut vegna skerðinga. Ég hef alltaf getað unnið svolítið við textagerð af ýmsu tagi þegar þunglyndið og kvíðinn taka ekki yfir líf mitt, enda starfaði ég lengi við blaðamennsku og útgáfu. En frá og með ársbyrjun 2017 get ég einfaldlega ekki með nokkru móti bætt kjör mín – það er mér bannað að gera. Strípaðar bætur duga einfaldlega ekki til framfærslu. Sá sem á ekki neitt og hefur úr 240.000 kr. að spila á mánuði er fastur í gildru – og sú gildra getur verið banvæn.
Hvernig getur það verið hagkvæmt fyrir samfélagið að ég hafi sama og ekkert upp úr því að reyna að bæta kjör mín aðeins, mér og samfélaginu til góða. Framlag mitt er þá einskis metið. Ég er ekki að tala um að ég geti veri í fullri vinnu og fengið bætur. Málið snýst um að geta örlítið bætt kjör sín til þess einfaldlega að lifa af án þess að vera upp á aðra kominn. Það er nefnilega sama hve hugurinn að baki er góður, það skekkir samskipti fólks ef annar er alltaf í hlutverki þiggjandans en hinn veitandans og er óréttlátt gagnvart báðum.
Þriðja litla lóðið sem ég lagði á vogarskálarnar er svo að vera á lista í kosningum til borgarstjórnar í vor, sem má kannski að hluta til rekja til glæsilegs sigur B-listans í Eflingu nýlega. Ég sá þá að með baráttu og samstilltu átaki er hægt að áorka miklu. Ég ætla að minnsta kosti að leyfa mér að lifa í þeirri von.
Þó að hlutskipti öryrkja sé mér eðlilega hugleikið brennur á mér hvernig aðrir hópar eru leiknir af þeim sem hafa völdin og eiga alla peningana í samfélaginu, fámennum hópi sem er að eignast allt og lifir af arðinum á striti annarra. Líka þeim sem segjast standa með okkur en virðast hugsa um fátt annað en að gera Reykjavík „smartari“, að því er virðist fyrir þau sjálf. Í það partí verður okkur í Hinni Reykjavík seint boðið.
Það þarf að breyta kerfunum og stofnunum samfélagsins þannig að þau þjóni almenningi en ekki fyrst og fremst þeim fáu ríku. Kerfin þurfa svo að vinna betur saman sem er aldeilis ekki raunin í öllum tilvikum. Dæmi um það er að skömmu eftir hrun voru bætur öryrkja hækkaðar um að mig minnir 13 þúsund krónur. Næstu mánaðamót á eftir hækkaði leigan sem ég greiði hjá Félagsbústöðum svo skeikaði minna en þúsundkalli.
Nú ætlum við öryrkjar, leigjendur, innflytjendur og láglaunafólk að komast að borðinu. Þetta eru hópar sem reiða sig á að velferðarkerfi bæði ríkis og sveitarfélaga sé öflugt og sanngjarnt og borgin sé ekki sá láglaunavinnustaður sem raunin er. Við viljum fá að hafa okkar að segja þegar ákvarðanir eru teknar um lífsskilyrði okkar og þróun borgarinnar, líka Hina Reykjavík þar sem við eigum heima en fæstir hinna heimsækja.
Það getur vel verið að Íslendingar hafi það að meðaltali gott þó að ég efist um það. Manneskjan er heldur ekki meðaltal einhvers. Einstaklingar eru ekki bara stak í menginu heldur fólk af holdi og blóði. Við skulu muna það.“
Styrmir Guðlaugsson er í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn í Reykjavík#valdiðtilfólksins