Fátækt: Vegvilltur, einn og bjargarlaus á götunni

Viðtal við Egil Andra Gíslason Sögur

Egill Andri Gíslason hefur búið á götunni í eitt og hálft ár. Hann hefur þvælst á milli vina sem hafa skotið yfir hann skjólshúsi. Hann hefur bæði verið lyfjalaus og án meðferðarúrræða síðan BUGL sleppti af honum hendinni á 18 ára afmælisdeginum í fyrra.

Fyrir tíu ára aldur hafði Egill Andri Gíslason búið í öllum blokkunum í Engihjalla, nema númer níu. Hann flutti á milli leiguíbúða með móður sinni, systur, ömmu og móðursystur en lengi framan voru þau fimm í íbúð. Hann hefur ekkert heyrt af föður sínum í mörg ár. „Pabbi sótti mig og systur mína á um helgar þangað til að ég varð 11 ára. Þá voru pabbahelgar og við gistum í studíóíbúðinni hans niðri í bæ og hann reyndi að elda fyrir okkur eftir uppskriftum á google. En oftast hljóp hann út í sjoppu, sem var hinum megin við götuna, og sótti langlokur og gos. Pabbi er svona „head bang“ týpa og „heavy metal scream“ með hring í nefinu og eyrunum og með sítt hár. Hann á krakka út um allt en við vorum einu börnin sem hann var í sambandi við. Hann býr núna í útlöndum einhversstaðar, ég veit að hann var um tíma í Noregi. Hann er á Facebook og hann hefur komið inn af og til, sagt hæ og bæ en hann skráir ekki hvar hann er staddur eða svoleiðis. Hann er alltaf eitthvað rosa upptekinn. Hann hefur verið að tattúera síðan ég man eftir mér og vann lengi á tattú-stofunni á Laugavegi 69, fyrir neðan Hókus Pókus.“

Hálfkláraður úlfur

Egill er með úlf tattúeraðan á vinstri handlegg. „Ég lét gera þetta fyrir tveimur árum en ég á eftir að láta klára það, ég hef bara ekki haft efni á því. Hérna vantar skyggingu bak við úlfinn,“ segir Egill og réttilega. Þá er næturhúmið, eða skyggingin sem ber við höfuð úlfsins, hálfklárað. „Maðurinn sem gerði þetta þekkir pabba og hann gat sagt mér fréttir af honum sem voru ekki sérlega góðar. En ég held ekki að pabbi sitji inni neinsstaðar þótt að hann hafi verið í slagtogi við þannig fólk. Ég held að ég hefði frétt af því.“

Erfitt með skapið eins og foreldrarnir

„Mamma er alls ekki svona rokkaratýpa, þvert á móti, samt eru fullt af svona „hells angels“ rokkurum í fjölskyldunni hennar. Hún er bókari og kláraði nám meðan ég bjó ennþá heima. Hún getur verið rosalega mislynd og var alltaf að skipta um vinnu, ég veit ekki hvort það tengist skapinu. Foreldrar mínir eru báðir skapstórir, sagan segir að þegar ég var lítill hafi pabbi misstigið sig og runnið til þegar hann steig á leikfang sem ég skildi eftir á gólfinu. Þá hafi hann í bræði sinni kastað mér í sófann og hent niður sjónvarpi í leiðinni. Svipað get ég sagt um móður mína sem tryllist við minnsta tilefni en hún hefur ekki beitt mig líkamlegu ofbeldi. En hún var alltaf öskrandi á okkur systur mína. Allt sem við sögðum var véfengt og gert tortryggilegt þannig að samskiptin voru algjör steypa. Það voru bara alltaf rosaleg átök heima, allir öskrandi.“

25778_egill1_new

Egill fékk afnot af kompu heima hjá mömmu vinar síns í Kríuhólum þangað til að hann ræður bót á húsnæðismálum sínum. Myndir|Alda Lóa

Gekk illa að einbeita mér í skóla

„Við fluttum úr Engihjalla í Smárahverfið þegar ég var tíu ára. Þá var mamma búin að kynnast manni sem flutti inn til okkar. Upp frá því fór mér að líða alveg ömurlega. Ég kláraði samt grunnskóla en með lélegum einkunnum. Ég átti mjög erfitt með einbeitingu í skóla og allan lestur, en það var aldrei athugað hvort að ég væri lesblindur. Ég hélt samt áfram í skóla og kláraði tvær annir í Iðnskólanum í Hafnarfirði. Planið var að klára bifvélavirkjun. Þar gekk mér vel með verklega þáttinn en ömurlega með bóklega námið.“

Trúðu ekki veikindum mínum

„En í framhaldsskóla var ég orðinn mjög veikur. Ég vildi helst ekki fara út og gat ekki verið meðal fólks. Ég vildi bara hanga einn inni í herbergi eða fara út að labba með heyrnartólin mín, sem ég geri reyndar mjög mikið af ennþá. Ég bað oft um hjálp, ég vissi sjálfur að ég væri ekki heilbrigður og að ég þyrfti á hjálp frá sálfræðing eða geðlækni. Mamma skildi það ekki og sambýlismaður hennar, sem er þunglyndur, sagði að hann þekkti þunglyndi og að ég væri ekki með þau einkenni. Það var orðið mjög erfitt að vera heima, alltaf rifrildi. Þannig að ég hélt mig aðallega hjá vinkonu minni þar sem ég borðaði og gisti. Vinkona mín var mjög hjálpleg og hefur góða innsýn inn í þunglyndi og skildi vel hvað ég var að ganga í gegnum.“

Á BUGL í fjóra mánuði

„Þegar ég var 16 að verða 17 ára lenti ég í slagsmálum við manninn hennar mömmu og í framhaldi af því þá komst ég loksins inn á BUGL. En við slógumst og ég meiddist á hnefanum og var færður upp á slysó. Þá fékk ég að tala við geðlækni og daginn eftir var ég kominn inn á BUGL. Ég var lagður inn í fjóra mánuði og það hjálpaði mér mikið, sérstaklega þarna í fyrsta sinn en ég var svo viðloðandi deildina til 18 ára aldurs. Ég var skilgreindur með alvarlegt þunglyndi og kvíða og fékk kvíðatöflur og lyfið Fluoxedin mylan við því. Lyfið hafði þær aukaverkanir að ég fékk ofsjónir og ofheyrnir. En ég komst í rútínu og fékk sálfræðing og ráðgjöf og mér leið allavega mikið skár.“

25778 - egill2

Egill er nýkominn á lyf aftur sem hafa þau áhrif að hann er bæði tilfinningaflatur og alltaf syfjaður.

Eftirfylgni hjá BUGL

„Ég var í eftirfylgni hjá BUGL fram til 18 ára aldurs og hitti ráðgjafa þar reglulega sem tóku stöðuna á mér. Þau hjá BUGL kipptu mér inn nokkrum sinnum af því að ég var með stöðugar sjálfsmorðshugsanir og reyndar gleypti ég fullt af töflum og labbaði af stað eitthvað út í móa, en það gerðist ekkert nema að ég varð dálítið valtur á löppunum.“

Mamma setti mig út

„Mamma mætti á fundi á BUGL og sagðist ekki vilja fá mig heim aftur. Ég flutti til ömmu þegar ég útskrifaðist þannig að barnaverndarnefnd kom aldrei að málinu. Þá var ég nýorðinn sautján ára. Ég held að ég hafi átt afmæli inn á BUGLi, annars man ég það ekki. Ég er með mjög slæmt tímaskyn. Ég man ekki alveg hvað ég bjó lengi hjá ömmu minni áður en hún missti íbúðina í Hamraborg en ég held að það hafi verið tveir eða þrír mánuðir. Amma hafði ekki efni á íbúðinni sinni og flutti inn til dóttur sinnar og fjölskyldu hennar. Þá fór ég á götuna.“

Flutti inn til verkstjórans

„Eftir að ég flutti frá ömmu hef ég ekki átt fastan samastað. Það komst óregla á allt, ég hætti að taka lyfin en þau fóru með dótinu hennar ömmu. Ég vann þá hjá Bortækni og fékk að búa hjá vini bróður eigandans. Það gekk alveg vel til að byrja með. Ég átti peninga og pantaði mér tíma hjá sálfræðingi sem ég hitti nokkrum sinnum. En svo fékk ég botnlangakast, varð mjög veikur og kvíðinn og missti svefn, en ég á það til að vaka allt upp í þrjá daga án þess að sofa ef ég er ekki með nein lyf og allt fer í rugl. Á endanum læddist ég út af því að mér var farið að finnast mjög þrúgandi að búa hjá þeim og mæta ekki í vinnuna á morgnana. Mér leið ekki vel og fannst ég vera að misnota aðstöðu mína.“

25778 - egill3

Í desember þvældist Egill úti í nokkrar nætur, peningalaus og allslaus. Hann beið til morguns eftir því að vinir hans vöknuðu og hleyptu sér inn.

Labbaði alla nóttina um Kópavoginn

„Ég vissi ekkert hvert ég átti að fara, ég labbaði alla nóttina og beið eftir því að einhver myndi vakna sem ég gæti hangið með. Vinir mínir búa flestir í Kópavoginum og ég beið eftir því að komast inn eða fá þá út á rúntinn. Við erum flestir alltaf blankir og stundum gengur allt út á það að ná í bensínpeninga til þess að keyra á milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og hlusta á músík. En ég er sjálfur ekki ennþá búinn að fá mér bílpróf.“

Ég komst ekki lengur á lappir

Næst flutti Egill inn á Ottó, vin sinn í Engihjalla, og mömmu hans, sem er öryrki. Egill bjó hjá þeim í nokkra mánuði eða þangað til honum var skilað aftur út á götuna. „Mamma hans Ottós sagði að hún væri hrædd um að hún gæti aldrei náð mér á lappir aftur. Ég var búinn að reyna fá mér vinnu, var búinn að vinna í tvær vikur. En ég komst ekki á lappir því ég var í svo mikilli niðursveiflu. Hafði mig ekki í það að fara á fætur, engin lyf, engin sálfræðingur, ekki neitt. Ég er bara inni, sef og borða nánast ekkert. Ég hef lést um 20 kíló á tveimur árum. Af því að ég hef ekki átt peninga og borðað óreglulega.“

Allt er þegar þrennt er

Þegar Egill flutti frá Ottó, vini sínum, var hann veikur með flensu og mjög máttfarinn. Þetta var í desember og hann þvældist nokkrar nætur peningalaus og allslaus um Kópavoginn og læddi sér inn til vina sinna þegar líf vaknaði í kunnuglegum gluggum. Þannig liðu nokkrir dagar þangað til vinir hans voru ráðþrota með hann fárveikan á rúntinum í aftursætinu og fóru að lokum með Egil upp í Kríuhóla til Rósu, mömmu vinar hans.

Rósa er öryrki og býr með tvo drengi á tvítugsaldri í Kríuhólum. Annar þeirra er Markús, besti vinur Egils. Rósa bjó um Egil í kompuherberginu í íbúðinni þeirra sem hún er reyndar búin að setja á sölu af því hún hefur ekki efni á því að búa í Reykjavík og ætlar að flytja út á land þar sem leigan er viðráðanleg. Egill lagðist fyrir í úlpunni sinni í nokkra daga þangað til sóttin rjátlaðist af honum og Rósa gat tekið hann tali. Hún benti honum á Féló og hjálpaði honum að panta viðtal sem hann fékk í upphafi árs „Ég er alltaf að reyna að segja honum Agli að fyrst verði hann að koma heilsunni í lag áður en hann fer að vinna, en ekki öfugt.“ Egill fékk 130 þúsund króna í styrk hjá Féló í febrúar og bíður eftir því að fá svar hvort að hann komist að hjá VIRK í endurhæfingu.

25778_egill4_new

Egill er kominn á lista hjá Félagsbústöðum en listinn er langur og honum var ráðlagt af Féló að leita fyrir sér líka á frjálsa leigumarkaðnum

Samtalsmeðferð

Egill vill komast í samtalsmeðferð sem hann telur vera lykilatriði fyrir bata sinn. Hann fór til heimilislæknisins síns til þess að fá vottorð upp á tíma hjá sálfræðingi. Læknirinn ráðlagði Agli að fara aftur á gömlu lyfin og sjá svo til. Á Íslandi er samtalsmeðferð hjá sálfræðingi, geðlækni eða öðrum fagaðila ekki niðurgreidd eins og í nágrannaríkum okkar. Í mörgum ríkjum Bandaríkjanna er samtalsmeðferð jafnvel hluti af almannatryggingakerfinu og jafn aðgengileg og heimilislæknar eða jafnvel betur. Hér á landi kostar tími hjá sálfræðingi 8-15 þúsund krónur. Egill segist þurfa allavega tvo tíma á viku til þess að ná árangri, sem eru 32-60 þúsund krónur á mánuði. Mánaðarskammtur af lyfjum kostar 8000 krónur og viðtal við heimilislækni kostar 3000 þúsund krónur. Þá á Egill eftir að borga húsnæði og uppihald.

Draumar Egils

„Þegar maður er þunglyndur þá dettur manni ekkert í hug sem er gott í lífinu. En mig langar í eigið húsnæði eða stað þar sem ég get búið og mig langar að læra bifvélavirkjun og vinna við það,“ segir Egill í nýjum notuðum skóm sem hann fékk gefins frá stóra bróður Markúsar.

25778_egill5_new

Egill vill komast í samtalsmeðferð sem hann telur vera lykilatriði fyrir bata sinn.

Birtist fyrst í Fréttatímanum

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram